Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:02:00 (3016)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengi úr því sem komið er. En

ég hlýt að taka hér til máls vegna þeirrar vaxtaumræðu sem fram hefur farið. Ég hef margsinnis rætt vaxtamál við ráðherra núv. hæstv. ríkisstjórnar í vetur og ég hlýt að gera það enn nú.
    Fyrir það fyrsta, hæstv. fjmrh., þá hafði ráðherrann uppi rök sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en þannig að vextir í íslensku bankakerfi réðust ekkert af markaðsaðstæðum. Hæstv. fjmrh. nefndi að seinni hluta sl. árs hefðu bankarnir haldið uppi háu raunvaxtastigi til að vinna upp tap fyrri hluta ársins burt séð hver væri eftirspurn og hvert væri framboð á peningum. Ekki nóg með það, nú segir hæstv. fjmrh. að bankarnir haldi uppi óraunhæfu vaxtastigi vegna þess að þeir séu að bíða eftir því að sjá útkomu kjarasamninga. Þetta hafa fulltrúar bankanna reyndar viðurkennt á fundum með efh.- og viðskn. Það er gjörsamlega óþolandi að bankakerfið í landinu skuli geta gengið svona fram. Það skuli geta gengið þannig fram að fulltrúar bankanna komi fram meira að segja í fjölmiðlum, eins og var í dag, algjörlega blygðunarlaust og segi að þeir haldi uppi óraunhæfu vaxtastigi vegna þess að þeir séu að bíða eftir einhverjum tilteknum aðstæðum í þjóðfélaginu. Þetta er ekki frjáls markaður, hæstv. fjmrh. Ég minni enn á ummæli hæstv. viðskrh. þinginu í vetur þar sem hann sagði að hér fengi atvinnulífið ekki peninga á eðlilegum vöxtum fyrr en búið væri að opna bankakerfið. Ég fer að halda, hæstv. fjmrh., að þar hafi viðskrh. haft lög að mæla. En, hæstv. fjmrh., ráðherrann ræddi um þetta eins og ríkisstjórninni kæmi framferði bankanna ekkert við. En málið er ekki svo einfalt. Það hlýtur að vera einn af hornsteinum efnahagsstjórnar hverrar ríkisstjórnar hvernig farið er með stjórn peningamála. Það er ekki hægt að láta átölulaust ef hæstv. ríkisstjórn lætur bankana komast upp með það sem hæstv. fjmrh. var að lýsa hér áðan, að hér sé haldið uppi raunvaxtastigi sem ráðist af einhverju allt öðru heldur en framboði og eftirspurn á peningum.
    Hæstv. fjmrh. vitnaði til þeirra landa sem væru að brjótast undan oki kommúnismans og hvaða hagfræðireglum þau vildu beita. Það hefði verið mjög fróðlegt fyrir hæstv. fjmrh. að hlusta á sendiherra okkar austur í Rússlandi þegar hann var að lýsa því inni í efh.- og viðskn. hvernig hann teldi að hinar hörðu markaðslausnir mundu reynast Rússum á næstu mánuðum. Þar sem menn, eins og mér finnst hæstv. núv. ríkisstjórn gera oft og of mikið af, trúa á hreinar kennisetningar án þess að ganga úr skugga um hvort raunverulegur grunnur sé fyrir þeim. Hvort þær aðstæður séu fyrir hendi að þær muni ganga fram eins og kenningarnar segja. Og því miður, hæstv. fjmrh., finnst mér það hafa verið margsinnis staðfest í þingsölum í vetur að í gegnum blinda trú á kennisetningar sé á undanförnum árum búið að færa milljarða og tugmilljarða frá atvinnuvegunum, frá almenningi og yfir til stóreignamanna, þeirra sem eiga peninga. Þetta er sú staða sem blasir við í peningamálum eftir að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur setið í rúmt hálft ár.