Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:24:00 (3018)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Mér sýnist að þessari umræðu sé senn að ljúka sem hefur staðið nokkuð lengi og að það sé vitavonlaust verk að koma vitinu fyrir núv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar í þessu mikilsverða máli, þ.e. að taka upp það sem við köllum auðlindaskatt í sjávarútvegi. Það sem ég á við þegar ég tala um auðlindaskatt í sjávarútvegi er að hér er lagður skattur á greinina sem rennur beint í ríkissjóð og er fénýttur í ríkissjóði. Kemur það glögglega og greinilegast fram í því og sparar okkur öll orð að fjármagn til hafrannsókna eykst nánast ekki um nokkurn skapaðan hrærandi hlut á milli ára. Það segir okkur allt sem segja þarf í þessum efnum. Einnig veldur það mér áhyggjum og ég vil að komi skýrt fram hvað mér virðist sjávarútvegurinn eiga fáa talsmenn innan veggja Alþingis og ég segi það satt að það hryggir mig hvað þeir eru orðnir fáir í Sjálfstfl. Ég hélt satt að segja að fleiri mundu koma hér upp og tala fyrir þessa atvinnugrein og reyna að koma við vörnum. En við sem höfum reynt að ræða þessi mál höfum ekki fundið einn

einasta þingmann í Sjálfstfl., það þarf nú ekki að ræða um Alþfl. í þessu sambandi. Ég hélt satt að segja og vonaðist til þess í lengstu lög að einhverjir af þingmönnum Sjálfstfl. mundu sjá að sér í þessu máli og átta sig á því í tíma hvert verið væri að fara. En því miður þá er það svo að þeir hafa ekki áttað sig á þessu máli. Hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. Sá maður sem núna sér drauma sína rætast þegar þetta mál nær fram að ganga. Því eins og við munum þá sagði þessi formaður Alþfl. og hæstv. utanrrh. þegar hann var að fjalla um Hagræðingarsjóð, ,,staðfestir þessa skoðun mína, að það frv. sem núv. ríkisstjórn hafi lagt fram á breytingum á lögum um Hagræðingarsjóð sé fyrsti vísirinn að komandi veiðileyfagjaldi.`` Nauðsynlegt er að þetta komi fram og komi nógu rækilega inn í þingtíðindin.
    Það veldur mér vissulega áhyggjum, virðulegi forseti, hvert við erum hér að fara. En ég sé það og finn hver hugur manna er í þessum efnum. Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar ætla sér að ná málinu fram. Hvernig svo sem við stjórnarandstæðingar reynum að verjast aðförinni að sjávarútveginum mun okkur víst ekki takast það.
    Ég gæti sagt hér miklu fleira og vikið t.d. að því réttlætismáli sem komið var inn í lögin í sambandi við rétt byggðarlaganna til þess að njóta hlutar úr þessum sjóði og margsinnis hefur komið fram þegar fréttaviðtal hefur verið haft við formann þingflokks Alþfl. Þá hefur hann látið að því liggja að réttur byggðarlaganna væri tryggður í þessu frv. Það er mikil blekking í þeim orðum, vægt til orða tekið. Vegna þess að fáir vita betur en þingflokksformaður Alþfl. að hér er ekki um nokkra minnstu björgun að ræða því að þessum veiku byggðarlögum er gert að skilyrði og eingöngu boðið upp á að kaupa þennan aflarétt, vonina í þessum afla, á markaðsverði. Þeim er sem sagt vísað góðfúslega á fiskmarkaðina.
    En virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég undirstrika það enn og aftur að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig þingflokkur Sjálfstfl. er nú skipaður, um Alþfl. vissi ég, en ég hafði trú á því í lengstu lög að einhverjir úr þingliði Sjálfstfl. mundu átta sig á hvert menn væru hér að fara. En ég sé að það er vita vonlaust.