Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:39:00 (3020)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Hv. 5. þm. Vestf. óskaði eftir skýringum á því hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir sérstöku úreldingarstyrkjakerfi fyrir frystihúsin og bað um að núv. ríkisstjórn svaraði spurningum hans þar að lútandi. Það er vitaskuld nauðsynlegt og rétt að minna hv. þm. á að hér er um að ræða breytingar á lögum sem sett voru í tíð fyrri ríkisstjórnar sem Alþb. átti nokkra aðild að. Sú ríkisstjórn, sem stóð að þessari lagasetningu, taldi ekki rétt að setja inn í þau lög ákvæði um úreldingarstyrki vegna frystihúsa. Það er alveg sjálfstætt mál sem menn geta íhugað og skoðað en hér er verið að breyta lögum sem fyrri ríkisstjórn setti og taldi ekki á þeirri stundu a.m.k. að rétt væri að fella þar inn í úreldingarstyrki vegna frystihúsa.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. vék að því álitaefni sem nokkrum sinnum hefur komið upp í þessari umræðu þar sem hann hélt því fram með skírskotun í blaðaviðtöl að hér væri um að ræða fyrsta vísi að auðlindaskatti eða leigugjaldakerfi í sjávarútveginum. Það er óþarfi af minni hálfu að eyða löngum tíma í frekari umræðu um þetta, svo mjög sem þessi spurning hefur áður verið rædd. En vegna þess að menn eru enn að velta fyrir sér og einkanlega þeir sem að þessari lagasetningu stóðu hvenær fyrsti vísirinn varð til þykir mér rétt að vitna í viðtal við fjmrh. fyrrv. ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem stóð að þessari lagasetningu um Hagræðingarsjóðinn. Viðtal þetta birtist 1. maí árið 1990. Þar sagði fyrrv. fjmrh., formaður Alþb., hv. 8. þm. Reykn., svo um þetta frv., með leyfi forseta:
    ,,Ég tel það því í góðu samræmi við okkar stefnu fyrir þremur árum að taka þessi 12 þús. tonn frá til þess að gera tilraunir með leigugjaldakerfi í fiskvinnslunni`` eins og hann orðaði það. Með leigugjaldakerfi. Með öðrum orðum: Það var mat formanns Alþb. að hagræðingarsjóðsfrv., eins og það var samþykkt í tíð fyrri ríkisstjórnar, hefði verið tilraun til að koma á leigugjaldakerfi. Hér er ég aðeins að vekja athygli á mati formanns Alþb. vegna ummæla hv. 4. þm. Norðurl. v. En ég hef skilið það svo að Framsfl., sem nú hefur nokkrar áhyggjur af því hvaða menn hafa valist til setu í þingflokki sjálfstæðismanna, hafi talið að landinu yrði ekki vel stjórnað nema Alþb. sæti í ríkisstjórn. Ég hef ekki orðið var við aðra afstöðu hjá hv. þm. Framsfl. en þá að þeir sjái ekki aðra kosti til að stjórna landinu vel en Alþb. sitji með þeim í ríkisstjórn. Og það er athyglisvert að leiðtogi þess flokks, sem framsóknarmenn hafa helst valið sér til fylgilags í landsstjórnarmálum, taldi og telur að fyrrv. ríkisstjórn hafi stofnað til tilraunar með leigugjaldakerfi þegar Hagræðingarsjóðnum var komið á fót. Þetta vildi ég, frú forseti, aðeins rifja upp vegna ummæla hv. 4. þm. Norðurl. v. án þess að ég sjái ástæðu til að gera lengra mál úr því svo mjög sem það hefur verið rætt hér fyrr við þessa umræðu.
    Hv. 3. þm. Vesturl. vék hér málefnalega að tveimur atriðum í frv. eins og það liggur nú fyrir, annars vegar að því er varðar túlkun þeirra ákvæða sem lúta að úthlutun kvóta til byggðarlaga. Þar er eðlilega gerð sú krafa að aflanum sé komið til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Hér er um að ræða nákvæmlega sömu kröfu og er í gildandi lögum, þ.e. hér er ekki verið að gera neina breytingu frá gildandi lagaákvæðum. Síðan spurði hv. þm. um það hvernig farið yrði með forkaupsréttinn þegar horft væri fram hjá þeim hluta kvótans sem boðinn yrði byggðarlögum. Eins og kveðið er á um í frumvarpsgreininni skal forkaupsrétturinn boðinn í hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips á þeim tegundum sem sjóðurinn hefur forræði á. Það verður staðið að framkvæmd þessa máls nákvæmlega eins og tilgreint er í þessari frumvarpsgrein. Þegar búið er að bjóða byggðarlögum kvóta verður það sem eftir er boðið með forkaupsrétti til þeirra sem veiðiheimildir hafa í réttu hlutfalli við þær veiðiheimildir og allt saman boðið þannig að aðeins það sem ekki selst með þeim hætti verður selt á þann veg að tilboða verði leitað. Það eru engin áform um að standa með öðrum hætti að framkvæmd þessa máls. Ég tel það vera í bestu samræmi við lagaákvæðið sjálft og í bestu samræmi við fiskveiðistjórnarlögin að öðru leyti.
    Fleiri athugasemdir sé ég ekki ástæðu til að gera í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa orðið í dag, frú forseti.