Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 19:52:00 (3024)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það væri gaman að halda þessari umræðu talsvert áfram, satt best að segja, jafnvel eitthvað fram í morgunsárið ef því væri að skipta, og ég hefði alveg skap í mér og væntanlega úthald til þess að gera það ef því væri að skipta og ræða það dulítið við hæstv. sjútvrh. og jafnvel láta kalla til ýmsa fleiri menn því að það er mörg matarholan í þessu máli, það er alveg hreint ábyggilegt. ( ÖS: Og lesa fleiri viðtöl við Ólaf . . .  ) Lesa mikið af viðtölum og fara yfir stefnu íslenskra stjórnmálaflokka og afstöðu og umræður um sjávarútvegsmál á undanförnum árum, t.d. fara aftur til ársins 1983, hefja umræðuna í októbermánuði 1983 þegar hér upphófust fyrir alvöru umræður sem leiddu til setningar fyrstu kvótalaganna og slíkra hluta. Þá kæmi margt skrautlegt í ljós, hæstv. sjútvrh. Ég hygg að ferill Sjálfstfl., hringsnúningar, klofningur í þeim flokki og sjónarmið út og suður, mundu sennilega slá út öll önnur met í þessum efnum. Það er t.d. staðreynd að ýmsir þingmenn Sjálfstfl. hafa á undanförnum árum, sérstaklega þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, nánast farið úr öllum mannlegum ham í árásum sínum og gagnrýni á ýmsa þætti þeirrar fiskveiðstefnu sem hæstv. sjútvrh. núna framfylgir meira og minna óbreyttri. Hæstv. sjútvrh. sjálfur, þegar hann var laus og liðugur í stjórnarandstöðu eða var að spreyta sig sem nýtilkominn formaður Sjálfstfl. með ýmiss konar frískrifum í blöð, reið með himinbrautum í gagnrýni á ýmsa þætti sjávarútvegsmála sem hann hefur ekki hróflað við eftir að hann komst til valda.
    Auðvitað er það þannig að um þetta mál má ýmislegt segja og ég held að sú staða sem núv. ríkisstjórn er í í þessum efnum og það algjöra stefnuleysi stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum sem er staðreyndin í dag ætti að vera þeim ákveðið umhugsunarefni. Nú veit ég að vísu að þeir eru ekki þannig skapi farnir, t.d. hv. 17. þm. Reykv. og 1. þm. Suðurl., hæstv. sjútvrh., að þeir hafi gaman af því að reyna ekki að verja sig og ég skil og met að nokkru leyti viðleitni þeirra til þess hér í umræðunum um þessi mál. En þeir ættu nú samt að minnast þess áður en þeir gerast mjög stórorðir að staðan er einfaldlega þannig hjá núv. stjórnarflokkum að þeir hafa ekki komið sér saman um neitt í sjávarútvegsmálum, ekki eitt einasta hæti, ekki neitt nema vera ósammála og setja það í tvíhöfða nefnd. ( ÖS: Það eruð þið líka.) Það er alveg rétt, hv. frammíkallandi, að oft áður hafa menn verið að berjast við að koma sér saman um einhverja stefnu í þessum erfiða málaflokki. Þar með er réttlætingin komin, ekki satt? Af því að mönnum hefur áður gengið illa að koma sér saman um eina sameiginlega stjórnarstefnu er það allt í lagi hjá okkur eins og í öllum öðrum málum, ef það hefur bara skeð einhvern tíma áður í stjórnmálasögu veraldarinnar er það allt í lagi. Þá erum við í góðum málum, segir hæstv. ríkisstjórn núna. (Gripið fram í.) Síðan skulum við koma aðeins að því, hv. 17. þm. Reykv., mjög gjarnan. Mér er hreint yndi að því að ræða um þau mál. En fyrst ætla ég að ljúka við að ræða stöðuna á þessum málum hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Í hvítu bókinni stendur ekki eitt einasta hæti. Í græna skeininu frá því sl. vor, örkinni, stendur ekki eitt einasta hæti um sjávarútvegsmál. Menn reka upp hlátur þegar þeir sjá --- ég held það séu fjórar línur, ég man það ekki, það er alla vega mjög ræfilslegt

skeini sem varð til þarna úti í Viðey og gefið út í einni örk. Sem sagt í þessum tveimur meginstefnuskjölum ríkisstjórnarinnar er ekki neitt um sjávarútvegsmál frekar en önnur mál sem hönd er á festandi. Það er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Það er allt í upplausn, öllu er vísað út í bæ í nefnd, tvíhöfða nefnd, og guð má vita hvað út úr því kemur eða hvort nokkurn tíma kemur nokkuð út úr því og kannski er skást að aldrei verði nein niðurstaða. Enda virðist margt benda til þess að stjórnarflokkarnir dragi vísvitandi lappirnar og reyni að tefja það verk á alla enda og kanta af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þeir hafa ekki í sjónmáli að þeir geti komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Við þessar aðstæður og undir þessum formerkjum, hæstv. sjútvrh., er alveg guðvelkomið að fara í umræður um stefnu annarra flokka, þ.e. þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu.
    Það er t.d. þannig að Alþb. reið á vaðið með mörg þau atriði sem núna vildu allir kveðið hafa í sambandi við ábendingar og gagnrýni á kvótalögin í upphafi, 1983. Þannig rembdist t.d. Alþfl. og sérstaklega formaður hans eins og rjúpan við staurinn að eigna sér ýmis þau ákvæði sem Alþb. flutti fyrst á þingi 1983 og 1984 í formi brtt. við þáverandi kvótafrv. Við komum síðan inn í lögin á árinu 1985, t.d. um sameign á auðlindinni. Um þetta eru óhrekjandi skjalfest gögn fyrir hendi hér í þinginu. Fjölmargt fleira bentum við á á þessum tíma, t.d. varðandi málefni byggðarlaga, smábáta o.fl. sem síðan hefur orðið viðtekin staðreynd í umræðum um þessi mál.
    Á árinu 1985 mótaði síðan Alþb. stefnu, nánast eitt flokka með sérstakri samþykkt á landsfundi, um byggðakvóta eða byggðatengingu veiðiheimildanna, sem við reyndar vildum ekki kalla byggðakvóta vegna þess misskilnings, sem var ekki hugmyndin samkvæmt okkar stefnu frá árunum 1985 og 1986, að úthluta veiðiheimildunum sem slíkum til byggðarlaganna. Hins vegar er í þessari stefnu, sem var afgreidd á landsfundi flokksins á árinu 1987, eða ítrekuð með því að taka undir samþykkt miðstjórnar þar um, útfærð ákveðin öryggistenging veiðiheimildanna eða hluta þeirra við byggðarlögin ef um sölu skipa burt úr byggðarlögum er að ræða. ( Gripið fram í: Kvennalistinn . . .  ) Kvennalistinn útfærði á svipuðum tíma annars konar hugmyndir um beinan byggðakvóta, þ.e. úthlutun hluta veiðiheimildanna til byggðarlaganna. Það er annað mál og um það getur hv. 17. þm. Reykv. þráttað við Kvennalistann en ekki mig hvort Kvennalistinn hefur útfært þetta nægjanlega eða ekki.
    Það var síðan í tengslum við þessa stefnu Alþb. um byggðatengingu veiðiheimildanna sem ákvæði var sett um það að til greina gæti komið að gera tilraunir með leigugjaldskerfi á þeim hluta veiðiheimildanna sem ekki félli þarna undir innan mjög skýrt settra takmarka sem kveðið er á um í okkar stefnu. Það er með vísan til þessa, hygg ég, sem formaður Alþb. er í þessu viðtali þar sem hann reifar sínar persónulegu skoðanir eins og skýrt kemur fram ef lesið er meira upp úr viðtalinu. Það er með vísan til þessarar stefnu sem formaðurinn telur væntanlega að það svigrúm sem ákvæðin um Hagræðingarsjóð skapa, ef það væri nýtt í þessu skyni, gæti verið í ágætu samræmi við þennan hluta af okkar sjávarútvegsstefnu sem mótaður var á þessum tíma. Í þessu samhengi ber að skoða þessi ummæli ef menn vilja halda öllu til haga, hæstv. sjútvrh., og ræða þessi mál með rökum og í ljósi staðreynda en ekki eingöngu af stráksskap eins og ég hef hæstv. sjútvrh. grunaðan um.
    Að öðru leyti er formaður Alþb. fullkomlega fær um að standa fyrir sínum ummælum frá þessum tíma og svara fyrir þau sjálfur. Sá sem hér stendur hefur ekki tekið það sem sérstakt hlutskipti í sínu lífi að taka það að sér, það er ekki svo, hæstv. sjútvrh. Að sjálfsögðu getur sjútvrh. beint þessum ummælum og spurningum sínum til þess sem þau lét falla á sínum tíma þar sem reifuð voru persónuleg viðhorf til þessara hluta. Ég hef upplýst um samhengi þessara hluta sem ég tel réttast og held að sé ástæða til að halda því til haga.
    Það er líka þannig með Alþfl. að hægt væri að ræða við hann heilmikið lengur en t.d. til fimm mínútur yfir átta í dag eða kvöld um ýmislegt sem snertir sjávarútvegsmál og Alþfl. Ræðumaður er þeirrar skoðunar að sá flokkur á Íslandi sem hefur langheimskulegust viðhorf til þessara hluta á Íslandi sé í dag og hafi um nokkurt skeið verið Alþfl., ákaflega fjarstæðukennd viðhorf að ýmsu leyti. Ég held að þar séu á ferðinni einhvers konar þröngsýn bókstafstrúarviðhorf, fræðimennskuviðhorf, manna sem aldrei hafa í saltan sjó migið og í raun og veru eru ekkert að hafa fyrir því að setja kenningar sínar um kvótaleigu eða auðlindaskatt eða annað slíkt í nokkurt samhengi við raunveruleikann í íslenskum sjávarútvegi og íslenskum þjóðarbúskap. ( ÖS: Ég var á sjó í þínu kjördæmi.) Fyrir þessum hugmyndum hafa ákveðnar málpípur Alþfl. algjörlega fallið, trúa þessu eins og nýju neti án þess að gera nokkrar tilraunir til að setja þetta í samhengi við raunveruleikann og blása sig svo út með þessar hugmyndir, jafnvel inni í þinginu. Þetta er auðvitað óskaplega barnalegt og lítilsiglt og miklu meiri virðingu ber ég t.d. fyrir tilraunum Kvennalistans á undanförnum árum til þess að nálgast þann hluta þessa vandamáls sem allir viðurkenna og er öryggisleysi verkafólks og byggðarlaganna í þessu kerfi. Þar eru þó rök fyrir hendi að reyna að nálgast vandamálið a.m.k. að einhverju leyti úr þeirri átt. Það hef ég skilið að Kvennalistinn sé að gera eða reyna að gera með sínum hugmyndum um beinan byggðakvóta þótt ég telji að vísu að rétt sé að halda því til haga að á þeirri útfærslu séu ýmsir gallar sem erfitt er að ná fyrir.
    Ég tel þess vegna að hin óbeina byggðatenging veiðiheimildanna, sem í stefnu Alþb. felst, sé miklu betri í framkvæmd og auðveldari viðfangs og nái betur að samræma að nokkru leyti andstæð sjónarmið. Annars vegar er það sjónarmið að halda til haga hvata á hagræðingu og möguleikum á þróun í greininni sem við viljum ekki hefta með því að frysta allt fast. Hins vegar að tryggja með tilteknum hætti atvinnuhagsmuni og hagsmuni verkafólks og byggðarlaga í þessu dæmi öllu saman. Auðvitað eru menn að nokkru leyti að reyna að leita að bestu málamiðlun andstæðra hagsmuna. Það er alveg augljóst mál og það er það sem gerir þetta vandamál svo erfitt.
    Síðan kemur Alþfl. með sínar kostulegu hugmyndir, tiltölulega lausbeislaðar og algjörlega ótengdar veruleikanum, og hefur innan borðs snillinga eins og hæstv. heilbrrh. sem sýndi aldeilis á sér betri hliðina hér í dag. Hver er þáttur hæstv. heilbrrh. í sjávarútvegsstefnu Alþfl.? Hver er hlutur hans í þeim efnum? Hæstv. forseti t.d. kemur austan af fjörðum þar sem menn hafa talsvert stutt kvótakerfið. Hið stórbrotna hlutskipti hæstv. heilbrrh. í þessum málum er að þegar hann fer vestur á firði, t.d. á fundi, hvort sem það er á Flateyri eða annars staðar, sver hann og sárt við leggur að hann muni aldrei styðja kvótakerfið og hann muni aldrei styðja ríkisstjórn sem byggi á kvótakerfinu. Fyrir þessu eru ótal vitni, helmingurinn af íbúum Vestfjarða hefur heyrt hæstv. heilbrrh. fara með þessa rullu á undanförnum árum. Tala sig heitan á kosningafundum þar, skrifa um það greinar í Skutul eða hvað hann nú heitir, málgagnssnepillinn fyrir vestan sem hinn svokallaði Jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem þyrfti nú aðeins að lengja nafnið, gefur út þarna vestra.
    Hvað gerir svo hæstv. heilbrrh. þegar hann kemur hingað suður til Reykjavíkur annað en skríða upp í fyrsta ráðherrastólinn sem honum býðst, í ríkisstjórn sem styðst við kvótakerfið. og með sjútvrh. sem lætur það verða eitt af sínum fyrstu verkum í embætti að fullvissa menn um að hann ætli að flýta sér hægt í því að breyta þessu kerfi og Alþfl. geti verið rólegur. Það sé sko sjútvrh. sem fari með sjávarútvegsmálin. ( ÖS: Annað segir Stefán Guðmundsson.) Þannig er nú þetta, hv. 17. þm. Reykv.
    Ef við förum út í umræður um það almennt að sjónarmið séu eitthvað mismunandi innan einstakra flokka hvað varðar afstöðu til sjávarútvegsmála, þá hallast þar sannarlega ekki á klyfjunum. Ég hygg að einna lágkúrulegast hlutskipti allra flokka eigi Alþfl. í þessum efnum. Með annars vegar sína kostulegu bókstafstrú, sem ákveðnir menn hafa tekið, fræðilegar hugmyndir um kvótaleigu eða auðlindaskatt, sem aldrei hafa verið færðar inn í íslenskan veruleika, enda stendur það ekki til, ekki er til þess ætlast. Þetta eru ,,patent`` til að veifa. Hins vegar hafandi innan borðs jafnkostuleg eintök og hæstv. heilbrrh., mann dagsins á Alþingi sem setti hér gjörsamlega allt í upplausn með kostulegri framkomu sinni sem seint verður til jafnað að ég hygg.
    Nei, það er þannig, herra forseti, að við munum ýmsir eiga eftir nokkra möguleika á því að halda hér ræður og erum svo sannarlega tilbúnir til þess, a.m.k. ræðumaður ef

hæstv. sjútvrh. og 17. þm. Reykv. vilja gera okkur þá skemmtan að halda þessu áfram. Að öðru leyti hafði ég ekki ætlað að ræða þetta mál meira efnislega. Það er auðvitað alveg ljóst að þetta mál frá hæstv. ríkisstjórn er bastarður, þetta er klúður í þrengingum ríkisstjórnarinnar við að koma saman fjárlögum. Hæstv. sjútvrh. var þarna að nokkru beygður, hann varð að brjóta ákveðinn odd af oflæti sínu og gat ekki alveg keyrt sína línu eins og hann hefði sjálfsagt viljað og Alþfl. reynir nú að nýta sér það til pólitískra ávinninga á fundum þar sem hæstv. sjútvrh. er ekki viðstaddur. Þá tala þeir alþýðuflokksmenn í áramótaviðtölum í Alþýðublaðinu um að þeir hafi verið að koma þarna fram sinni stefnu.
    Ég spái því í annað sinn í umræðum um þetta mál, og eru það ekki hrakspár heldur ósköp einfaldlega mat mitt á aðstæðum, að við séum ekki búnir að sjá fyrir endann á þessu máli. Það mun eiga eftir að heyrast talsvert meira af því og ýmislegt meira að ganga á á þessu almanaksári, 1992, áður en öll vötn verða til sjávar runnin varðandi þetta atriði um Hagræðingarsjóðinn og sölu veiðileyfa sem honum hafði verið úthlutað, sem og auðvitað málefnin varðandi fiskveiðistjórnunina og fiskveiðistefnuna almennt. Það er alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn er í hinum mestu ógöngum með þessi mál, algjöru baksi, hefur ekki neitt til að festa hönd á og fleytir sér á einhvers konar hundasundi í gegnum þessi mál þegar umræður eru um þau hér á þingi eða annars staðar. Hún talar aðallega út og suður, hver túlkar þar hlutina með sínu nefi og les það sem honum hentar upp úr hinum fátæklegu ákvæðum stjórnarsáttmálans og Viðeyjarskeinisins.
    Og þannig er nú staðan, hæstv. forseti, þegar við erum að ræða þetta hér á miðri vetrarvertíðinni á Alþingi Íslendinga þann 21. janúar 1992 og mætti margt um það segja en verður ekki gert að sinni frekar nema viðbótartilefni gefist.