Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:08:00 (3025)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ekki ætla ég hér að fara að metast um hver hafi bestu byggðakvótastefnuna. Ég tel raunar að eitt það merkilegasta sem fram hefur komið í umræðu um þetta mál sé hve margir láta sér annt um hag byggðarlaganna þó það sé aðeins í orði í sumum tilvikum. Ég hef þegar gert ítarlega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég tel það langalvarlegast að hér er verið að skerða möguleika byggðanna til þess að hafa kvóta til ráðstöfunar þegar á þarf að halda. Ég vildi auðvitað sjá þetta mál fremur reifað sem heildarstefnu í sjávarútvegsmálum. Við höfum margtekið það fram hér að slíkt er nauðsynlegt, að taka þetta sem hluta af heild. Það hefur hins vegar ekki verið gert og er það mjög miður.
    Stærsta málið nú er að reyna, eins fljótt og auðið er, ef þau mistök verða gerð að þetta frv. verði samþykkt, að leiðrétta og taka upp vitræna umfjöllun um hvernig kvóta verði best ráðstafað hér á landi. Ég er sannfærð um að sú umhyggja fyrir byggðarlögum, sem hér hefur komið fram í umræðu og tillögum sumra, muni skila sér í því að við munum sameinast um að fara nærri því að taka upp byggðakvótastefnu Kvennalistans. Ég er ekki í nokkrum vafa um það.