Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:24:00 (3029)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ástæðan til þess að ég óska eftir að veita andsvar við ræðu hv. 17. þm. Reykjavíkur er skoðun sem kom fram í hans ræðu varðandi stefnu Alþb. í sjávarútvegsmálum og þá sérstaklega hvernig að stjórn fiskveiðimála skuli staðið. Það vekur sannarlega athygli þegar hann upplýsir að í viðtali við formann Alþb. í tímaritinu Þjóðlífi, 10. tbl. frá árinu 1990, þar sem segir orðrétt að Alþb. álykti um það að tekin verði upp sú stefna að kvótaleiga verði tekin hér upp. Þetta eru náttúrlega tíðindi þegar þau eru skoðuð í ljósi orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér úr þessum ræðustól í kvöld, varaformanns Alþb., sem lætur eins og þessi stefna hafi aldrei komið þar til umræðu. Manni verður á að spyrja hvort þessi hv. þm. sé í þann mund að ganga úr Alþb. til liðs við einhvern annan flokk eða hvort hann yfir höfuð þekkir ekki stefnu síns eigin flokks eða hvort hann er hættur að njóta þar trausts og er farinn að boða nýja stefnu. Það hljóta náttúrlega að vera eðlilegar kröfur að Alþb. geri þinginu og þjóðinni grein fyrir stefnu sinni í svo veigamiklu máli og hér er til umræðu. Það dugar ekki að koma fram hér með margar stefnur þó að flokkurinn sé kominn í stjórnarandstöðu. Hér er beðið eftir svörum.