Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:31:00 (3033)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson vera komin út í verulegar ógöngur þegar hún reynir að halda því fram að það sé ekki örugglega stefna Kvennalistans að selja eitthvað af þessum veiðiheimildum. Það er alveg klárt að talað er um sérstakan veiðileyfasjóð í stefnuskrá Kvennalistans og talað er um að þessi sjóður fái tekjur. Það er meira að segja sagt hvað eigi að gera við þessar tekjur. Þessi málflutningur dæmir sig því algjörlega sjálfur.
    Alveg er ljóst samkvæmt þessu að Kvennalistinn getur ekki verið andsnúinn einhvers konar veiðigjaldi. Þingmaðurinn skrifaði hins vegar undir nefndarálit gegn veiðigjaldi án nokkurs fyrirvara og í rauninni er þetta bara enn eitt dæmi um það hvernig Kvennalistinn er farinn að standa algjörlega þétt upp að stjórnarandstöðunni bara til þess að vera á móti stjórninni. Ég sakna þeirra tíma þegar Kvennalistinn tók sjálfstæða afstöðu, afstöðu út frá eigin stefnu, út frá eigin skoðunum en ekki eins og í þessu máli þar sem fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. virðist algjörlega hafa látið karlremburnar kúga sig.