Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:32:00 (3034)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Þessar umræður sanna eins og aðrar umræður, sem hafa farið fram um þessi mál, að svo sannarlega er ástæða til þess að vanda sig við það að setja af stað endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Í þeirri umræðu sem hefur farið fram núna kemur fram fortíðarhyggja þar sem menn eru að draga upp ummæli ýmissa forustumanna flokkanna, eins og Ólafs Ragnars Grímssonar, þar sem hann hefur sett fram sínar skoðanir. Þó að þær fari ekki saman við skoðanir annarra í flokknum þá held ég að það eigi ekki að þurfa að vera tilefni til sérstakrar fordæmingar vegna þess að í öllum flokkum er hægt að segja að verulegur ágreiningur hafi verið um sjávarútvegsstefnuna. Þess vegna teljum við það mikinn ábyrgðarhluta af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að fara þannig að í sambandi við að hrinda af stað endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni að leggja inn í umræðuna slíkt frv. sem þetta sem virkilega vísar inn í framtíðina með ákveðnum hætti og er stefnumarkandi ef þannig færi að ekki næðist samkomulag um breytingu á núv. sjávarútvegsstefnu. Um það er ekki hægt að þræta. Í frv. eru ákvæði sem benda til þess að menn hafi haft það bak við eyrað þegar þeir voru að semja þetta lagafrv. að það ætti að vera ein trappan í þeim stiga sem lægi að veiðileyfasölunni. Kannski er rétt að endurtaka það sem bent hefur verið á áður: Ef veiðileyfin verða seld með þessum hætti eins og sagt er í frv. má í framtíðinni búast við að menn feti sig enn lengra á þeirri braut.
    Það er líka annað sem gerist með þessu frv. Í fyrsta skipti verður nú farið að skerða þá úthlutun sem almennt er á veiðiheimildum í þeim tilgangi að selja. Þær veiðiheimildir sem Hagræðingarsjóður hefur haft samkvæmt lögum að undanförnu hafa menn reiknað út með því að leggja saman þá skerðingu sem orðið hefur á veiðum skipa sem hafa siglt með aflann eða sent hann til sölu á erlendum mörkuðum. Það sem gerist núna er virkileg breyting. Ákveðin heildarsumma skal blífa. Það er sama hvað hefur verið flutt út. Það þýðir að skert verður til viðbótar það sem vantar upp á 12 þús. tonn og svo verður mönnum boðið upp á að kaupa það. Það er ný skerðing á úthlutun veiðiheimilda og bendir allt eindregið í þá átt að menn séu að feta sig inn á braut veiðileyfasölu.

    Hv. 17. þm. Reykv. sagði líka áðan að hann hefði snúið Sjálfstfl. niður í málinu. ( ÖS: Nei.) Jú, þú sagðir það. ( ÖS: Nei, að menn segðu það.) Að menn segðu það, ég greip fram í fyrir þingmanninum og spurði hvað hann teldi og þá tók hann undir þetta þannig að ekki ætti nú að vefjast fyrir mönnum hvað hann átti við. Og formaður hans flokks, en þingmaðurinn tekur mikið mark á flokksformönnum, sagði í viðtali við Alþýðublaðið á gamlársdag að þetta væri vísbending um að Alþfl. væri að vinna slaginn um veiðileyfasöluna. Ýmsar vísbendingar eru því um að þeir sem hafa þessa skoðun telji þetta fyrsta skrefið og líti svo á að þeir séu að vinna áfangasigur í sínu máli.
    Ég ætla enn að leggja áherslu á að ég tel að þarna hafi verið illa af stað farið og málið hafi verið sett í upplausn með þessum aðferðum ríkisstjórnarinnar. Ég er hræddur um að það eigi eftir að koma mönnum í koll og erfiðara verði að ræða saman um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Ég tel að við þurfum á allt öðru að halda en því að skipta málinu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í sambandi við þá endurskoðun. Við hefðum þurft á því að halda að þessi endurskoðun hefði verið sett af stað sem eins konar verkefni stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem allir hefðu lagst á eitt um að vera sammála um a.m.k. þann farveg sem menn settu endurskoðunina í þó að þeir hefðu mismunandi skoðanir á því hvað út úr henni ætti að koma. Ég er því miður mjög svartsýnn á að eitthvert samkomulag geti komið út úr þeim farvegi sem málið er komið í núna og ég er hræddur um að það þurfi að brjóta það upp á einhverju augnabliki ef það á ekki að gerast sem ég hef margsagt hér að kvótakerfinu verði ekki breytt, en það fái að trénast yfir í veiðileyfagjald með þeim hætti sem hér er gefin vísbending um. Og þá erum við að fara, eins og ég hef áður sagt, inn í versta kerfi sem við getum tekið upp við stjórn fiskveiða, þ.e. sölu veiðileyfa sem mun gjörsamlega verða til þess að menn missa alla stjórn á því hvernig atvinnan í landinu dreifist vegna fiskveiðanna.
    Sjútvrh. svaraði því áðan og sagði að það ætti að bjóða allar aflaheimildirnar til sölu, til þeirra sem hefðu aflaheimildir fyrir, þ.e. allar þær heimildir sem sveitarfélögum yrðu ekki boðnar. Þá spyr ég: Hvers vegna er orðalag ekki ákveðnara í frv.? Hvers vegna er orðalagið í frv. þannig að sjútvrh. er raunverulega heimilt að ákveða að hafa þetta lægra? Felst ekki líka vísbending í því um að menn séu að mynda möguleika á að skilja á milli aflaheimildanna og skipanna sem er eitt aðalbaráttumál þeirra sem hafa þær skoðanir að það eigi að koma á veiðileyfasölu? Með þessum hætti er hægt að skilja á milli veiðileyfa og skipa. Satt að segja vona ég að það sé ekki meiningin með þessu.
    Mér fannst athyglisvert að hv. 17. þm. Reykv. skyldi ekki treysta sér til þess að útskýra fyrir okkur hvernig hann fer að því að samþykkja í frv. það að bjóða eigi aflaheimildirnar til sölu til vinnslu í viðkomandi byggðarlögum því það getur náttúrlega alls ekki farið saman við þær hugmyndir Alþfl., sem hafa verið settar fram með mjög ákveðnum hætti og miklu brambolti í fjölmiðlum, að Alþfl. vildi koma því kerfi á að fiskur verði seldur sem allra mest og helst alls staðar á mörkuðum. Í frv. er samt sagt skýrum orðum: Það verður að selja þetta beint til vinnslu. Þetta verður vandamál í þeim sveitarfélögum sem markaður er fyrir hendi vegna þess að þá verður að semja einhvern veginn fram hjá markaðnum um hvernig eigi að fara með þann afla sem skipin koma með að landi og hafa veitt samkvæmt þeim ákvæðum sem talað er um að beita. Mér finnst undarlegt að hv. 17. þm. Reykv. skyldi ekki geta útskýrt fyrir okkur hvernig þetta fari saman við stefnu hans og flokksins í fisksölumálum vegna þess að yfirleitt getur það nú staðið upp úr honum sem hann hefur áhuga á að tala um. (Gripið fram í.) Já, það er sannarlega ástæða til þess að ræða þessi mál meira en við höfum reiknað með að gera í kvöld. Alla vega hafa forsetar þingsins ekki reiknað með að þessi umræða stæði mjög lengi. En það kann vel að vera að menn geti lifað matarlitlir fram eftir nóttu og ef menn fá áhuga á umræðu þeirri sem fer í gang láta þeir sig hafa það að hafa ekki borðað of mikið og verða kannski skrafhreifnari eftir en áður.
    Mig langar til þess að fara aðeins nánar út í það atriði sem ég nefndi fyrr og er um þá skerðingu sem orðið hefur að undanförnu á þeim afla sem hefur verið fluttur úr landi. Hann hefur minnkað og þar af leiðandi er Hagræðingarsjóðurinn minni en hann var áður.

Þetta þýðir, eins og ég sagði áðan, að mun minna kemur inn með þessum hætti og mun meira verður þá skert. Við höfum ekki fengið neinar tölur en ég hef heyrt menn giska á að það gæti verið komið niður í 7--8 þús. tonn sem Hagræðingarsjóðurinn hefði með óbreyttum reglum, en samkvæmt frv. verði úthlutað 12 þús. tonnum. Þennan mismun verður þá að skerða aðra aðila um og það er bara svolítið! Það eru um 4--5 þús. tonn. Og svo á að bjóða þeim að kaupa hann. Þeir sem standa áfram í útflutningi á ferskum fiski og hafa undanfarið fengið þessa skerðingu á sig standa þá frammi fyrir nýjum staðreyndum. Núna fá þeir að kaupa aftur aflaheimildir á móti því sem þeir hafa verið skertir áður. Það er kannski svolítill plús fyrir þá.
    Nei, hér er margt sem menn hefðu þurft að skoða betur. Að mati þeirra sem flutt hafa frv. hefur aðalástæðan verið sögð sú að efla ætti hafrannsóknir og að þetta væri bara breyting en ekki nýjar álögur á sjávarútveginn. Við höfum mótmælt þessu og ég tel að það hafi verið alveg sannað í umræðunum og ekki þurfi að hjakka á því meira. Það hefur alveg skilað sér í umræðunum. Auðvitað eru þetta nýjar álögur á sjávarútveginn ofan á allar aðrar álögur og ofan á það ástand sem sjávarútvegurinn á við að glíma núna. Sannarlega hefði verið ástæða til þess að gera kröfur til sjávarútvegsins á öðrum tíma en í dag þegar hann er rekinn með lélegri útkomu ofan á alla þá slæmu skuldastöðu sem er hjá sjávarútvegsfyrirtækjum allt í kringum landið.
    Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um þetta mál. Til viðbótar langar mig að nefna það aftur og lýsa yfir óánægju minni með málsmeðferðina og það hvernig staðið var að þessu máli. Ég hef ekki langa reynslu en ég ætla að vona að það sé einsdæmi að ekki skuli hafa verið hægt að vinna skipulegar og betur að þessu máli. Að þetta skuli hafa verið rifið út úr nefndinni með þeim hætti sem gert var fyrir jólin og að ekki skuli hafa mátt fá mál til skoðunar sem var síðast til umræðu í nefndinni, þ.e. endurskoðunarákvæðin, fá skoðun á því hvers virði slík endurskoðunarákvæði væru sem virt væru að vettugi, áttu reyndar að detta út úr frv. en sjútvrh. hefur nú mannað sig upp í að endurflytja þau, og gefið í skyn að það hafi eiginlega verið óvart sem þetta datt út. Ég spyr nú bara: Er það virkilega svo að ákvæði detti bara óvart út þegar menn eru að skrifa upp á nýtt? (Gripið fram í.) Bara grín? Og hv. 17. þm. Reykv. minnir mig þar með á það sem hann var að tala um áðan að ég hefði sagt að sjávarútvegsstefna Alþb. væri grín.
    Það kann vel að vera að ég sé einn af þeim sem ekki gæta allt of vel að orðum sínum. (Gripið fram í.) En ég ætla bara að segja að ég held að menn ættu að spara sér að ræða mikið meira um það hvað menn hafa sagt um sjávarútvegsmálin því að ég er sannfærður um að það finnst enginn flokkur þar sem ekki hefur verið hver höndin upp á móti annarri í þessum málum. Segja má að vegna stöðu fyrrv. sjútvrh. í gegnum tíðina og í gegnum allt þetta kvótamál, hafi honum kannski tekist að fylkja Framsfl. að mestu leyti á bak við sig og að sá flokkur hafi kannski staðið nokkurn veginn heils hugar að því. Ég efast ekkert um það. En aðrir flokkar hafa meira og minna verið í brotum og það eigum við bara að viðurkenna. Á þeim grundvelli hefðum við átt að geta sameinast um að reyna að finna sameiginlegan farveg fyrir þessa endurskoðun og ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ekki átt að þjóta fram með þeim hætti sem þeir hafa gert, að setja þetta í þessa tvíhöfða nefnd. Í stað þess hefðu þeir átt að semja um farveginn við okkur í stjórnarandstöðunni og reyna að snúa sér að málinu með þeim hætti að menn væru a.m.k. sæmilega sáttir um aðferðina.