Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:48:00 (3035)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim hér í þingsölum sem telja hv. þm. Jóhann Ársælsson einna vandaðastan manna í orðavali og að hann hugsi yfirleitt alltaf áður en hann talar. Hann er að því leyti til ólíkur mörgum öðrum þingmönnum. Ég er því sannfærður um að hann var búinn að hugsa málið til enda og brjóta það til mergjar þegar hann lét út úr sér þann dóm yfir sjávarútvegsstefnu Alþb. að þar væri á ferðinni grín.
    Mér þykir merkilegt, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan hefur hnýtt mjög í ákvæði í frv. að Hagræðingarsjóði þar sem rætt er um að fjórðungur veiðiheimildanna skuli

fara til byggðarlaga í vanda. Eigi að síður eru sumir á því, t.d. hv. þm. Jóhann Ársælsson, að þarna sé ýmislegt ekki nógu vel unnið. Hann bendir réttilega á að talað er um að þessum fjórðungi veiðiheimilda verði veitt til byggðarlaga í nauðum gegn því að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Síðan spyr sami þingmaður: Þýðir það að banna eigi að sá afli sem berst til byggðarlagsins fari yfir markað? Ég get bara svarað eins og hæstv. sjútvrh. svaraði áðan. Auðvitað er alveg ljóst að tryggja verður að afla sem er beint til byggðarlaga í erfiðleikum með þessum hætti, verði komið í vinnslu til þess að skapa atvinnu og verðmæti virðisauka í viðkomandi byggðarlagi. Og ég vil ganga skrefi framar en mér fannst hæstv. sjútvrh. gera og segja: Ef það þýðir að með einhverjum hætti þurfi að eyrnamerkja viðkomandi afla fram hjá fiskmörkuðum, verður svo að vera. Að öðru leyti get ég lýst því yfir að ég og Þorsteinn Pálsson, Sjálfstfl. og Alþfl., tala einni röddu í þessu máli. Það er alveg ljóst.