Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:58:00 (3039)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Í annað sinn á örstuttum tíma sé ég það gerast hér að þegar svo virðist sem umræða sé að renna á enda --- raunar um Hagræðingarsjóð í báðum tilvikum --- og talað er um að e.t.v. megi sjá í gegnum fingur sér með um hálftíma af kvöldmatarhléi, þá er það einhver úr stjórnarliðinu sem kastar olíu á eld og magnar upp umræðuna og verður það til þess að ekki verður hægt að ljúka umræðunni á tilætluðum tíma. --- Ég man ekki betur en í báðum tilvikum hafi verið um að ræða sama mann, hv. 17. þm. Reykv. --- Menn hafa verið mjög umburðarlyndir og hafa séð til þess að það sé allt í lagi að halda áfram til hálfátta, jafnvel átta, jafnvel hálfníu. Seinast var haldið áfram fram til 10.30 og höfðu allir lagst á eitt nema e.t.v. einhverjir stjórnarþingmenn við að reyna að stytta mál sitt þrátt fyrir að ærið tilefni væri til þess að gera svo ekki. Ég er ein þeirra sem stytti mjög mál mitt við 2. umr. vegna þess að mér var farið að hrjósa hugur við því að halda fólki við umræðurnar og ég gerði þetta þrátt fyrir það að ég ætti margt eftir ósagt. Ég stillti mig mjög um að lengja ekki umræðuna um Hagræðingarsjóð þar sem ég taldi mig þrátt fyrir allt hafa gert nokkra grein fyrir stefnu Kvennalistans en svo sannarlega verður það sama ekki sagt um aðra að þeir taki tillit til þess að verið sé að reyna að ljúka umræðunni. Ég tel algerlega útilokað að umræðunni verði lokið í kvöld þó að ég teldi mjög líklegt um sjöleytið að svo yrði. En hér urðu þau tíðindi sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti svo ljómandi vel áðan að hér kom upp ræðumaður sem hleypti umræðunni í uppnám eins og virðist vera flokkslína þeirra krata í lengd og bráð. Ég sé ekki fram á að umræðunni muni ljúka í kvöld og ég tel fulla ástæðu til þess að horfast í augu við staðreyndir. Það væri öllum fyrir bestu að við færum skynsamlega að og lykjum umræðunni. Hún er orðin alllöng og ég er sannfærð um að það væri heilladrýgst.
    Ég vil líka taka fram að fleiri hafa gert athugasemdir við að haldið var áfram í

kvöldmatarhléi. Ég er ein þeirra sem vissi ekki að það stæði til. Ég vissi hins vegar að til stóð að ræða Hagræðingarsjóð og menn töldu sig sjá fyrir endann á þeirri umræðu en það held ég að sé ekki nú. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur stjórnarliða í þeim efnum. Ég veit að það eru fleiri sem hafa hugsað sér að tala í kvöld en þeir sem eru á mælendaskrá svo að ég beini þeirri áskorun til forseta að láta skynsemina ráða og fara ekki verr með þingmenn en orðið er.