Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 21:05:00 (3041)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri taka undir að mér finnst að nú sé mál að umræðunni linni í kvöld. Þessi dagur hefur verið á margan hátt býsna kostulegur og ekki verður við stjórnarandstöðuna að sakast í því. Við mættum til leiks kl. 10 í morgun. Síðan hefur fundinum verið haldið áfram í dag. Að vísu þurfti að fresta þingfundum lengi dags vegna þess að stjórnarflokkarnir voru ekki búnir að koma sér saman um atkvæðagreiðslu í málum og þurfti þess vegna að fresta fundi í langa stund. En það er hart að láta okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar gjalda þess ósamkomulags stjórnarflokkanna. Einnig er meiningin að byrja fundi kl. 10 í fyrramálið þannig að mér finnst pressan vera orðin æðimikil.
    Ég sé ekki fara mikið fyrir þingmönnum Sjálfstfl. í þinghúsinu. Kannski eru ástæður fyrir því en ég held að ekki væri óeðlilegt að reynt yrði að hafa samband við þingmenn Sjálfstfl. og þeir vissu af því hvað væri á dagskrá. Ég vil ekki trúa öðru en einhverjir þeirra vilji koma nokkrum vörnum við og reyna að hjálpa okkur sem erum að reyna að verja þessa atvinnugrein, sjávarútveginn, gegn því að á hana verði lagður sá margumræddi auðlindaskattur. Ég trúi því a.m.k. ekki að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem ég hef aðeins séð í hillingum, muni ekki standa með stjórnarandstöðunni í þessum leik.
    Auðvitað hafa orðið tilefni til líflegri umræðna vegna ræðu hv. þm. og formanns þingflokks Alþfl. Hann hefur stofnað til þess að hér þarf margt að segja. Hann hefur vikið að mönnum sem eru fjarstaddir og væri ekki óeðlilegt að þeir óskuðu eftir því að fá að koma hér og segja nokkur orð.