Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 21:08:00 (3042)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. sjútvrh. vil ég taka skýrt fram að búið var að

greina þetta mál og taka fyrir í mjög ítarlegri umræðu og ég deildi þeirri skoðun hans að ég hélt að málið væri á lokaspretti. Síðan gerist það að dregin eru hér inn --- að vísu með ekki mjög málefnalegum hætti --- æðimörg ný mál sem þarf að svara og það greinilega í ítarlegra máli en andsvör gefa kost á. En það er greinilegt að hér var hleypt í gang nýjum umræðum sem varða í rauninni heildarsjávarútvegsstefnu allmargra flokka á þinginu. Þetta er það sem gerist í millitíð frá því augnabliki að allar umræður voru á lokaspretti og búið að segja flest það sem segja þurfti, menn missáttir við niðurstöðuna en engu að síður var málið langt komið. Við þurfum því miður að fara að ræða órökstuddar árásir, túlkanir og sérkennilegar skoðanir ákveðinna þingmanna og þetta er auðvitað alveg nýtt. Frómt frá sagt hef ég þess vegna ekki trú á því að fundurinn núna í kvöld muni verða stuttur ef honum verður haldið áfram. Mér þykir líka mjög ósanngjarnt gagnvart okkur þingmönnum ef við eigum að halda hér áfram, við eigum að vera hér í umræðu meðan mjög eldfimur þáttur er í sjónvarpi því að ekki er nóg með að ekki sé tekið tillit til þeirra sem eru að fara í þennan þátt heldur er algerlega hunsað hvað menn kynnu að vilja horfa á. Nú vill t.d. þannig til að ég get ekki tryggt að ég geti horft á einhverja videoupptöku í nótt af þættinum og ég hef mikinn áhuga á því að horfa á þáttinn, fylgjast með gangi mála fyrir atkvæðagreiðslu í fyrramálið. Mér þykir þetta svoleiðis út í hött að ég höfða nú enn og aftur til sanngirni, skynsemi og jafnvel mannúðar forseta þingsins. Þeir hafa oft sýnt skynsemi, þeir hafa oft sýnt ráðsnilld við erfiðar aðstæður en því miður er ekki komið að því hér í kvöld enn.