Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 21:31:00 (3044)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ætli það sé ekki óhjákvæmilegt í þágu umræðunnar að fá í salinn, hæstv. sjútvrh. og hv. 17. þm. Reykv. Þeir munu vera niðri að horfa á sjónvarpið ef hægt væri að aðvara þá um að umræðan sé hafin. ( Forseti: Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að kalla hæstv. sjútvrh. og hv. 17. þm. Reykv. í salinn.) Þeir hafa lítillega blandast inn í umræðurnar á síðari stigum, hæstv. forseti. --- Enn vantar okkur hinn brosmilda þingflokksformann Alþfl., herra forseti, til að unnt sé að hafa þetta alveg fullkomið og ræða sjávarútvegsmálin að öllum helstu stórmennum á viðkomandi sviði viðstöddum. En það er ljóst að hv. 17. þm. Reykv. gerir sig nú mjög gildandi í umræðum um sjávarútvegsmál innan Alþfl. Honum er tamt að taka svo til orða að menn séu ungir og á uppleið, hefur m.a. heiðrað þann sem hér stendur með síkum ummælum og það er þá best að ég endurgjaldi greiðann og leyfi mér að halda það að þetta viti á eitthvað hvernig hv. 17. þm. Reykv. gengur fram á málasviðið varðandi sjávarútveginn með nokkrum tilþrifum svo að ekki sé nú meira sagt. Að vísu fannst mér hann svona heldur slappur í ræðu sinni þegar hann var aðallega að tala fyrir Kvennalistann og svolítið brugðið. (Gripið fram í.) Já, það vantaði eitthvað á til að það væri alveg ekta hljómur í öllu sem hann sagði þegar hann var að tala um stefnu Kvennalistans og sennilega skýrist það af því að hv. þm. hefur alla vega ekki enn þá fengið inngöngu í samtökin og mun vera einhvers konar regla um að menn þurfi að vera kvenkyns til að sitja á þingi fyrir þann lista og sennilega er það þar sem strandar á enn sem komið er því að ekki mun stranda lengi á hugsjónunum ef hv. 17. þm. Reykv. metur veg sinn vænlegri innan Kvennalistans en þar sem hann hefur viðdvöl nú. Það þekkjum við af reynslunni að það þvælist þá ekki fyrir hv. 17. þm. þó hann þurfi lítið eitt að skipta um kubba í ,,instrúmentinu``. Það er nú það. Og er það nokkuð sérkennilegt að heyra hv. þm. væna, eins og ég sagði hér áðan, talsmenn annarra flokka um mikla hentistefnu. Satt best að segja hefur sú málsvörn hv. 17. þm. Reykv., sem nokkuð hefur borið á hér í umræðum á þingi, verið mér svolítið umhugsunarefni af því að ég er svona

í og með að fylgjast með því hvernig þessi nýi þingmaður spjarar sig hér í umræðum.
    Það hefur borið dálítið á því að hv. þm. byggi málsvörn sína á því að hjóla allt í einu svona næstum óforvarandis í einhverja andstæðinga sína og meira og minna gera þeim upp sakir og væna þá um hentistefnu og hringsnúninga varðandi stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir. Það vakti t.d. mikla athygli mína að hv. 17. þm. Reykv. skyldi ráðast með þeim hætti sem hann gerði að hv. 1. þm. Austurl. og af öllum hlutum væna hann um hentistefnu og hringsnúning varðandi þetta mál sem hér er til umræðu m.a. Þar réðist hv. 17. þm. Reykv. svo sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Það skal að vísu viðurkennt og lofað því að fátt er hv. 1. þm. Austurl. jafnþekktur fyrir eins og einmitt það að skipta ekki um skoðun og helst aldrei og það var næstum því orðin þjóðtrú að hann gæti það ekki og mundi aldrei gera það, aldrei haggast í þeim efnum. En málsvörn hv. 17. þm. Reykv. var sú sama. Hann reyndi ekki að tala fyrir stefnu Alþfl. Hann ræddi ekki mismunandi sjónarmið sem uppi væru í þeim efnum eða mismunandi ummæli sem fallið hefðu um málið á undanförnum árum af hálfu alþýðuflokksmanna eða t.d. samstarfsflokksins, Sjálfstfl. Nei, hann byggði málsvörn sína í þessu máli upp á því að hv. 1. þm. Austurl. hefði skipt um skoðun. Það voru aðalrökin, aðalvörnin, aðalréttlætingin. Það sama hefur í raun og veru gerst í dag í tveimur tilvikum. Undir lok umræðunnar kemur hv. 17. þm. Reykv. upp og byggir málsvörn sína, hreinsar samvisku sína í þessum efnum að því er manni skilst með því annars vegar að segja að það sé ágreiningur í Alþb. um sjávarútvegsmál og formaður og varaformaður þess flokks séu ekki sammála og vitnar í þeim efnum í ýmis gömul viðtöl og hins vegar byggir hann vörn sína á því að talsmaður Kvennalistans við umræðurnar og áheyrnarfulltrúi í sjútvn. sé að svíkja stefnu Kvennalistans og talar með stórum orðum um hentistefnu og fleira þar fram eftir götunum.
    Fyrir utan þessar ásakanir, sem eru svona á sínum stað og menn mundu undir öðrum kringumstæðum ekki kippa sér mikið upp við og ég geri satt best að segja ekki yfirleitt, það er allt á sínum stað, þá er þessi sérkennilega varnartækni hæstv. ríkisstjórnar og hv. 17. þm. Reykv. nokkurt umhugsunarefni. Og ég ætla að leyfa mér að gefa þeim ágæta þm. hv. 17. þm. Reykv. þau ráð að mín að varast það að lenda of langt út á þessa braut, að byggja nú upp stólpana undir sjálfum sér í íslenskum stjórnmálum á þessari vörn, að það skipti í sjálfu sér ekki máli hvaða skoðun maður sjálfur hafi eða manns eigin flokkur ef maður geti komið einhvers staðar skotum á andstæðingana, borið þá einhverjum sökum sem e.t.v. getur reynst þvælingssamt fyrir þá að bera af sér, þá sé þetta allt í lagi.
    Þessi pólitík er vel þekkt og hún er praktíseruð og sums staðar með miklum árangri að því er séð verður svona á yfirborðinu, t.d. vestur í Bandaríkjunum. Og það er mat stjórnmálafræðinga að síðustu þrennar forsetakosningar í Bandaríkjunum hafi einmitt unnist á þessari aðferð, þegja sem allra mest um eigin skoðanir, eigin afstöðu og eigin flokks en ráðast á andstæðingana, reyna að finna einhverjar þær ásakanir, ávirðingar, grafa upp eitthvert hneykslismál eða einhverjar vammir eða skammir af einhverju tagi sem erfitt geti reynst fyrir andstæðinginn að hreinsa sig af, þá sé björninn unninn. Og þó að hér séu kannski ekki alveg hliðstæður á ferð . . .   ( Gripið fram í: Er nokkuð þess háttar til?) Jú, það getur hugsast, það er oft lengi hægt að finna eitthvað slíkt eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. veit best sjálfur. (Gripið fram í.) Og ætli það ekki. Það verður bara hver að byrja á því að leita í eigin garði ef eitthvað er týnt, hv. þm.
    En ég ætla að vara þennan unga og upprennandi stjórnmálamann, þar sem er hv. 17. þm. Reykv., hann er reyndar einu eða tveimur árum eldri en ég en hvað um það, við því að leggja út á stjórnmálabrautina með þessum hætti alveg sérstaklega. ( ÖS: Þakka þér fyrir landsföðurleg ráð.) Ég held að út af fyrir sig sé það nú eins og gengur. Auðvitað skjóta menn svona einhverjum skotum í og með og í bland við sitt mál á andstæðingana og allt er það nú á sínum stað. En þessi vörn eingöngu er ekki vænleg og mun ekki erfast mönnum lengi frekar en ýmislegt fleira ef það er stundað eingöngu.
    Ég gerði athugasemdir, herra forseti, og ætla að koma því að meðan ég man að fundahaldið hér væri orðið nokkuð óvenjulegt og hefur nú síst dregið úr því. Ég tek það fram til þess að fyrirbyggja misskilning að ég var ekki að gagnrýna þau áform sem hæstv.

forsetar höfðu í samráði við forustumenn þingflokka lagt um að reyna að ljúka þessari umræðu hér í kvöld og höfðu ástæðu til að ætla að það gæti gerst með þeim hætti að ekki þyrfti að funda hér með afbrigðilegum hætti, en nú hefur það gerst. Þannig hafa atvik þróast. Það var það sem ég vék að og gagnrýndi og það er ákaflega óvenjulegt að gefa alls ekkert kvöldmatarhlé. Það hét í máli gamalla manna í minni sveit að menn væru óétnir. Menn tóku stundum svo til orða að þeir væru óétnir ef þeir höfðu ekki komist til þess að snæða máltíð lengi. Og það var einu sinni ort í stað langafabróður míns vísa sem byrjar svona:
        Er fólk var í sofum, þá fór ég í gang
        og flakkaði óétinn lengi,
og var þarna raðað saman nokkrum máltækjum gamla mannsins. Við erum sem sagt óétnir hér, sem er fremur óvenjulegt, að halda áfram þessari umræðu og það leyfði ég mér m.a. að benda á.
    En --- að svo miklu leyti sem ég ætla út í orðaskak við hv. 17. þm. Reykv. umfram það sem ég var búinn að gera og aðallega spratt af tilefni sem hæstv. sjútvrh. gaf --- að svo miklu leyti sem ég ætla út í þetta efnislega hvað snertir ásakanir hans eða tilraunir til þess að snúa út úr ummælum formanns Alþb. og reyna að dikta hér upp einhvern ágreining umfram eðlilega ólík sjónarmið þá vil ég segja þetta: Í fyrsta lagi er það rangt sem hv. 17. þm. Reykv. sagði og hafði ranglega eftir mér að ég hafi ekki gert greinarmun annars vegar á stefnu Alþb. með þeim hætti sem eðlilegt er að gera og hins vegar persónulegu viðtali sem tekið er við þennan formann. Það er staðreynd, hv. 17. þm. Reykv., að stjórnmálamenn viðra iðulega sín persónulegu viðhorf til mála og gera þá greinarmun á sjálfum sér sem slíkum og hins vegar sér verandi í því hlutverki að vera beinlínis að tala fyrir samþykktri stefnu sinna flokka. Ég t.d. geri þetta iðulega, þegar ég fer út fyrir og er til hliðar við það sem afgreitt hefur verið eða útkljáð í mínum flokki, að ræða viðhorf mín t.d. til byggðamála þar sem ég er í sumum tilvikum nokkur kantmaður í sjónarmiðum innan míns flokks og tel þess vegna eðlilegt og réttmætt að gera vissan greinarmun á því hvenær ég tala út frá hinni samþykktu og afgreiddu stefnu flokksins annars vegar og hvenær ég til viðbótar því og til hliðar við það viðra mín persónulegu viðhorf og sjónarmið sem geta verið nokkuð önnur eða tengst því með öðrum hætti. Þetta er altítt. Til að mynda tók hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, iðulega svo til orða þegar svo bar undir og mikið lá við, ég man eftir því á kjörtímabilinu 1983--1987, að persónulega fyndist honum svo þetta eða hitt og var það oft handhægt í hans munni þegar hann þurfti að sigla fram hjá skerjum að bregða sér þá úr gervi forsætisráðherra yfir í persónuna Steingrím Hermannsson og tala fyrir hönd hennar. Þannig að þetta er mjög vel þekkt og auðvitað verður hv. 17. þm. Reykv. að viðurkenna að þetta er t.d. ekki mjög óvenjulegt í blaðaviðtölum. Það ættu þeir alþýðuflokksmenn að þekkja. Það hrýtur ýmislegt út úr formanni Alþfl. á laugardagskvöldum þegar blaðamenn taka við hann viðtöl eins og dæmin sanna og það er ekki allt stefna Alþfl. eða ég hef ekki skilið það svo. ( ÖS: Það er rétt hjá þér.) Það var t.d. ekki samþykkt stefna Alþfl. að Karvel Pálmason hv. fyrrv. alþm. sé svo ómerkilegur að ekki sé hægt að tala við hann. Ég vona að svo sé ekki. ( Gripið fram í: Síður en svo.) Nei, það hefur enginn haldið því fram, enginn andstæðinga Alþfl. hefur komið hér upp í ræðustólinn og reynt með slíkum hætti t.d. að gera Alþfl. sem slíkan ábyrgan fyrir persónulegum ummælum formannsins sem þarna hrutu í endemis frægu blaðaviðtali þannig að ekki er langt að sækja dæmin, hv. 17. þm. Reykv., um það að menn láti slík ummæli falla með ýmsum hætti.
    Ég tel að ég hafi í minni fyrri ræðu sýnt fram á í hvaða almennum tengslum við gildandi stefnu Alþb. --- sem landsfundur þess flokks, Alþb., sem ég tala hér fyrir og er varaformaður í, hefur samþykkt og ekki hefur verið numin úr gildi --- þessi sjónarmið formannsins voru. Það er að vísu rétt að í einni miðstjórnarsamþykkt var með tilteknum hætti fjallað um þessar hugmyndir um leigugjöld en miðstjórnarsamþykktir taka ekki af samþykktir landsfundar eins og hv. 17. þm. Reykv. verður að átta sig á úr því að hann er að gerast hér sérstakur fræðimaður um stefnu annarra flokka. Hann þarf að vita hvernig stjórnkerfi þeirra er uppbyggt og hvaða samþykktir eru öðrum æðri og þá ber allt saman að sama brunni að hlutirnir eru hér í fullkomlega eðlilegu samhengi. Og það er alveg vonlaust að hv. 17. þm. Reykv. hafi neina sérstaka uppskeru út úr þessari leikfimi sinni, fyrir utan það að hann hefur auðvitað gott af því að fara í leikfimi af og til, að reyna að snúa út úr, túlka og dikta upp ummæli og stefnur annarra flokka til þess að reyna að leiða fram ímyndaðan ágreining sem ekki er fyrir hendi.
    Staðreyndin er nefnilega sú að innan Alþb. eru og hafa verið mjög heilbrigð skoðanaskipti um þessi mál, opin umræða þar sem menn láta jafnvel ýmislegt flakka, gefa sjálfum sér ófeimnir stundum einkunnir eins og hv. 3. þm. Vesturl. gerði í ágætis andrúmslofti þegar verið var að ræða þessa hluti alveg tæpitungulaust á landsfundi Alþb. og var þar ekki farið í launkofa með hlutina. Og einhvern tíma hefði ég haldið að hv. 17. þm. Reykv., sem þóttist vera af einhverri lýðræðiskynslóð hér fyrr af öldinni og talsmaður opinnar umræðu og væri á móti svona haltu-kjafti-línum og svoleiðis hlutum, hefði ekki lötrað hér upp í ræðustólinn til að gagnrýna það alveg sérstaklega að fram færu hreinskiptin og heilbrigð skoðanaskipti í flokki sem væri ,,dínamískur`` og lifandi og væri alveg óhræddur við að takast á við ólík sjónarmið sem að nokkru marki eru innan þess flokks, Alþb. Það er rétt að þau eru að sjálfsögðu uppi þar eins og víða annars staðar. Það er t.d. alveg þekkt, að hv. fyrrv. þm. Skúli Alexandersson annars vegar og hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hins vegar voru ekki alltaf nákvæmlega hjartanlega sammála um þessi mál á undanförnum kjörtímabilum frekar en er í mjög mörgum öðrum flokkum. Sem betur fer er það svo í Alþb. að það hefur farið fram, stendur yfir og mun fara fram hressileg umræða um þetta mikilvæga hagsmuna mál okkar Íslendinga, sjávarútvegsmálin og stefnuna í þeim efnum. Og það er síður en svo að hún sé drepin í dróma eða heft í viðjar þess að þar verði hver einasti kjaftur að tala nákvæmlega einum rómi og sömu röddu. Það jaðrar við að manni bæri að skilja hv. 17. þm. svo að það væri keppikeflið í þessum efnum innan flokkanna. Ja, sérkennileg ræða þótti mér það þá ef svo bar að skilja. Vona ég að svo sé ekki og hv. 17. þm. Reykv. sé með þessum tilkomumiklu höfuðhreyfingum hér úti í salnum að taka undir það, sem hlýtur að vera niðurstaða manna, að það sé fullkomlega eðlilegt að upp að vissu marki séu ólík sjónarmið innan flokkanna og viðhorf í þessum efnum, m.a. sem tengjast ólíkum hagsmunum byggðarlaganna, og mismunandi viðhorfum til þess með hvaða hætti besti samnefnari ólíkra hagsmuna, sem hér að sjálfsögðu vegast að nokkru leyti á, verður fundinn. Þeirri leið mun seint ljúka. Það er alveg borðleggjandi, held ég, að hún mun standa yfir svo lengi sem við sækjum sjó á Íslandi og erum að baksa við að reyna að vinna úr þessum verðmætum og dreifa þeim með einhverjum tilteknum hætti út um þjóðarbúið, menn munu seint verða sammála um að þeir hafi fundið hinn endanlega og fullkomna samnefnara ólíkra sjónarmiða, hin óskeikula og fullkomna málamiðlun sé í höfn. Ég held að hún sé býsna langt frá því, a.m.k. nú um stundir milli hæstv. stjórnarflokka.
    Ég veit að hv. 17. þm. Reykv. er annt um Alþb., eins og iðulega kemur hér fram, og Kvennalistann og fleiri flokka. Eiginlega talar hann eins og hann hafi fyrst og fremst áhyggjur af öðrum flokkum en Alþfl., sennilega vegna þess að hann er svo nýkominn í hann að hann er ekki enn búinn að temja sér þann hugsunarhátt að honum komi sá flokkur eitthvað við, en það lærist sennilega hjá hv. þm. Ég ætla að fullvissa hann, til að hann geti farið rólegur í bólið ef hann fer eitthvað að sofa í nótt, að þetta er í góðu lagi í Alþb., þar á meðal í góðu lagi milli varaformanns og formanns þess flokks. Og áhyggjur hv. 17. þm. Reykv. um að svo sé ekki eru óþarfar. ( ÖS: Það er nú gott.) Já, nú veit ég að hv. 17. þm. líður miklu betur og hefur hann stórlega róast af þessu tilefni.
    Eins er það með hv. 5. þm. Austurl., sem hér blandaði sér lítillega inn í þetta mál áðan, ég held að ég geti, til að gera langt mál stutt, fullkomlega afþakkað aðstoð hans við að fara með þessi mál innan Alþb. nema hv. þm. vilji ganga í flokkinn og fara í þá vinnu með okkur sem við erum í m.a. þessa mánuðina að ræða og móta okkar framtíðaráherslur í ljósi breyttra aðstæðna í íslenskum sjávarútvegsmálum. Og ef hv. þm. vill ganga í flokkinn og koma á ráðstefnu t.d., sem við ætlum að halda um sjávarútvegsmál núna síðar í vetur, þá er hann velkominn. En svona utanaðkomandi aðstoð, sett fram með þeim hætti sem hv. 5. þm. Austurl. hér bauð, held ég að gangi bara ekki, hv. þm. Ég held að það sé þannig og þá sé hægt að spara þér erfiðið, hv. þm., auk þess sem mér sýnist að hv. 5. þm. Austurl. hafi alveg nóg með sjálfan sig, t.d. að samræma núv. stöðu sína í íslenskum stjórnmálum málflutningi sínum fyrir síðustu alþingiskosningar. Eitthvað höfum við heyrt af því austan af fjörðum að hv. þm. hafi þar farið um býsna borubrattur og beðið fólk að kjósa sig í stórum stíl út á þetta og hitt sem hafi farið svona hinsegin eftir kosningar og sé ýmislegt dálítið í skötulíki af því sem hv. þm. ætlaði sér að standa fyrir svo sem eins og það að mynda vinstri stjórn eftir kosningar og svo sem eins og það að betrumbæta búvörusamninginn í þágu bænda alveg stórlega eftir kosningar og nokkur fleiri atriði sem hv. 5. þm. Austurl. lofaði þeim kjósendum sem í allt of miklum mæli glöptust til að kjósa hann þarna fyrir austan. Er það til marks um nokkra hnignun mála á Austurlandi að þessi hv. þm. skyldi fá svona mörg atkvæði. En það lagast örugglega næst eins og ljóst má vera.
    Herra forseti. Hér munu gefast fjölmörg tækifæri til að ræða þessi mál og þar á meðal stefnu flokkanna, sem ég satt best að segja, hæstv. forseti, fagna mjög að verði hér á Alþingi. Það hlýtur að verða í framhaldi af þessari umræðulotu í kvöld frá því um kl. 8 að hv. 17. þm. Reykv. komst hér í ræðustólinn. Auðvitað mun fara hér fram miklu ítarlegri umræða um stöðuna í þessum málum almennt og afstöðu einstakra flokka til þessara mála. Það held ég að liggi alveg í hlutarins eðli að við getum ekki skilið við þetta mál svona. Sárafáir þingmenn eru viðstaddir og stór orð hafa fallið sem miklu fleiri en þeir sem eru viðstaddir munu sjá sig knúna til að svara og blanda sér í umræðuna. Útskrift af þessum ræðum verður að sjálfsögðu höfð við höndina og notuð hér í áframhaldandi umræðum um sjávarútvegsmál síðar í vetur. Þar á meðal munu endanlega verða tekin af öll tvímæli um það að útúrsnúningar 17. þm. Reykv. á stefnu Alþb. í þeim efnum voru út í hött og hitta hann sjálfan fyrir og hans loðnu fortíð alla saman. Auðvitað er það síðan þannig að Alþfl. liggur svo vel við höggi að mér fer næstum eins og Þorgeiri Hávarssyni forðum að ég á ákaflega erfitt með að við bindast þegar ég sé strjúpann svona nakinn eins og hann birtist á Alþfl. Þegar talsmenn Alþfl. eru að reyna að gera upp ágreining á milli formanns og varaformanns í öðrum flokkum þá verður manni hugsað til þess ástarhaturssambands sem ríkt hefur um árabil milli formanns Alþfl. og varaformanns og öll þjóðin hefur horft upp á oftar en einu sinni, næstum því í beinni útsendingu og lesið um í endemis frægu blaðaviðtali. Það er sama hvar borið er niður í þessum málum. Alþfl., er tæplega í aðstöðu til þess að henda miklu af grjóti ef hann vill ekki taka áhættuna af verulegum skemmdum á eigin híbýlum eins og þau eru upp byggð og úr þeim efnum sem þau eru gerð í þessu máli öllu saman.
    Herra forseti. Af vissum ástæðum stendur svo á að ég get ekki undir neinum kringumstæðum haldið þessu máli miklu lengur áfram, ég þarf að hverfa héðan úr húsinu innan skamms og ætla þess vegna að eftirláta öðrum ræðustólinn. Ég hef haft nokkra ánægju satt best að segja af þessari umræðu sem upphófst hér og er síður en svo að gagnrýna það að hv. 17. þm. Reykv. skyldi loksins koma úr felum og treysta sér í ræðustólinn undir lok 3. umr. málsins, sem er að vísu nokkuð seint, og verður að benda hv. þm. á að snúa þessu öðruvísi næst ef hann vill afreka eitthvað í þessum efnum. En með tilliti til aðstæðna verður það að vera svo, a.m.k. af minni hálfu, að framhald þessara áhugaverðu umræðna bíði eitthvað betri tíma en svo sannarlega munu tækifæri gefast hér og verða vel nýtt.