Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 10:15:00 (3051)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. ríkisstjórn væri mikill greiði gerður með því að taka frá henni þann kaleik að samþykkja þetta frv. Hér er í fyrsta lagi um að ræða nýjar álögur á íslenskan sjávarútveg upp á áætlaðar 525 millj. ísl. kr. í mjög erfiðu árferði. Í öðru lagi er því öryggisneti sem verið hefur að gildandi lögum um fiskveiðistjórnun og Hagræðingarsjóð varðandi hagsmuni byggðarlaganna kippt í burtu og það öryggisnet eyðilagt. Í staðinn koma forkaupsréttarákvæði veiðiheimilda á fullu markaðsverði sem sveitarfélögum við erfiðar aðstæður væri þá ætlað að nýta sér og verður ekki séð í fljótu bragði í hverju það bjargráð felst. Í þriðja lagi er hér verið að knýja fram lagasetningu í ákaflega umdeildu máli í fullkominni andstöðu við alla hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Og í fjórða lagi það sem verra er: Lögboðið samráð við þessa sömu hagsmunaaðila sem og sjútvn. Alþingis var einskis virt í þessu máli.
    Enn er þess að geta að á nýbyrjuðu ári á að ljúka heildarendurskoðun ákvæða laga um Hagræðingarsjóð og laga um stjórn fiskveiða. Með þessum breytingum er verið að rífa þá hluti úr samhengi og skapa óvissu um þetta áframhaldandi endurskoðunarverkefni. Það er trúa mín að afleiðingar þessa frv., ef að lögum verður, muni verða mikil óvissa og mikil vandræði varðandi stjórn fiskveiðimála og framkvæmd sjávarútvegsstefnu þegar á síðari hluta þessa árs þegar hæstv. sjútvrh. fer að senda útgerðarmönnum um land allt bréf og biðja þá að senda sér ávísun fyrir hluta af veiðiheimildunum.
    Ég segi þess vegna, hæstv. forseti, með miklum sannfæringarkrafti já þegar ég legg til og greiði því atkvæði að þessu máli verði nú vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá þó að það sé svo sem ekki félegt heldur.