Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 10:20:00 (3052)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Hér flytur sjútvrh. þá brtt. að ákvæði til bráðabirgða II í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins standi en þar er gert ráð fyrir því að sjútvrh. skuli fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skuli um það samráð við sjútvn. Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun. Hér hefur farið fram mikil endurskoðun á þessari löggjöf þannig að á henni hafa verið gerðar grundvallarbreytingar og nánast hverri einustu lagagrein þessara laga verið breytt.
    Þær grundvallarbreytingar sem hafa átt sér stað eru í fyrsta lagi að það er ekki lengur mögulegt að úrelda skip þannig að það gagnist flotanum í heild, heldur er eingöngu gert ráð fyrir því að hjálpa til við að úrelda skip einkaaðila þannig að það gagnist þeim með millifærslum milli skipa. Í öðru lagi er verið að taka fjármuni frá sjávarútveginum til opinberra nota til að fjármagna rekstur Hafrannsóknastofnunar og hafrannsókna í landinu sem er sameiginlegt mál þjóðarinnar í heild. Og í þriðja lagi er verið að gera byggðahlutverk sjóðsins óvirkt.
    Ég tel að þessi endurskoðun hafi með þessum breytingum í reynd farið fram og því þjóni það litlum sem engum tilgangi að þetta ákvæði til bráðabirgða standi áfram. Við

munum hins vegar ekki leggjast gegn því og sitja hjá við atkvæðagreiðslu þessa ákvæðis en að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessari lagabreytingu sem mun hafa veruleg áhrif og er mikil breyting á gildandi fiskveiðistefnu.