Lánsfjárlög 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 10:43:00 (3055)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Ég vil benda meiri hluta efh.- og viðskn. eða formanni nefndarinnar og/eða forseta og stjórnarmeirihlutanum hér á það þó að við ætlum okkur ekki að taka afstöðu til þessa máls eins og aðstæður eru í kringum það að nóg held ég að sé nú komið af buslugangi við lagasetningu á Alþingi þó að þessi grein verði ekki borin upp. Ég held að það eigi að kalla alla þessa brtt. aftur þar sem í afgreiðslu hennar hér fælist að hluta

til ákvörðun um afturvirkar lagasetningar. Allar dagsetningar sem inni í greininni eru, í hverjum einasta staflið miða við 31. des. 1991 og ég get ekki ímyndað mér að það sé ætlun manna hér að fara að standa að því að samþykkja þetta svona. Ég held að þá væri ekki lengur nóg að tala um það að menn væru að nota handarbökin hér við lagasmíðina heldur væri nær að menn væru að reyna að koma þessu fram með herðablöðunum ef svo væri að þessu unnið þannig að þetta hlýtur að vera misskilningur.