Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 11:52:00 (3064)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni hið fræga ákvæði um eftirlitssveitir, lögreglusveitir hæstv. ríkisstjórnar inn í opinberar stofnanir. Á það var bent strax í upphafi að þetta ákvæði væri bæði illa undirbúið, vanhugsað og vitlaust eins og það var fram lagt. Það ber að vísu að viðurkenna að hv. stjórnarliðar hafa tekið nokkurt mark á þessari réttmætu gagnrýni og viðurkennt í reynd þau handarbaka- eða herðablaðavinnubrögð sem þarna voru viðhöfð með einum tveimur eða þremur tilraunum til að laga þetta ákvæði til. Samt er það enn svo úr garði gert að það er ónothæft. Og til að kóróna vitleysuna endar ákvæðið á því að kostnaður við starf tilsjónarmannanna skuli greiðast af viðkomandi stofnun. En forsenda þess að unnt sé að setja tilsjónarmennina til starfa er að sömu stofnanir séu komnar fram úr fjárveitingum sínum þannig að það er til að kóróna sköpunarverkið að það á þá enn að auka á fjárhagsvanda þeirra og setja þær enn lengra fram úr fjárlögum að bæta við útgjöld þeirra kostnaði af störfum tilsjónarmanna hæstv. ríkisstjórnar.
    Fjölmargar athugasemdir hafa komið fram, réttmætar, um það að þetta ákvæði standist í raun og veru ekki allar góðar stjórnsýsluvenjur og vísa ég þar ekki síst til athugasemda Ríkisendurskoðunar um að með ófullnægjandi hætti sé gengið frá spurningum sem varða valdsvið og ábyrgð þessara manna þegar þeir koma til starfa í viðkomandi stofnun.
    Það er því langvænlegasti kosturinn, hæstv. forseti, að forða hér slysi og fella þetta vitlausa ákvæði og ég segi því nei.