Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 12:19:00 (3069)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það ákvæði sem hér er á ferðinni á í raun rót sína að rekja til hins illræmda næturfundar ríkisstjórnarinnar en þá ákvað ríkisstjórnin einhliða að henda í sveitarfélögin verkefnum á sviði málefna fatlaðra og samsvarandi útgjöldum upp á hundruð millj. kr. Sem betur fer tókst að afstýra þeirri óhæfu að málefnum fatlaðra, þeim viðkvæma málaflokki, væri með þeim hætti hent á milli manna eins og til stóð. Í staðinn kom ríkisstjórnin upp með þá hugmynd á öðrum næturfundi að skella á sveitarfélögin 700 millj. kr. útgjöldum og merkja þau að nafninu til kostnaði við löggæslu í landinu. Eitt af því allra alvarlegasta fyrir utan þær byrðar sem þannig eru einhliða lagðar á sveitarfélögin án nokkurra tengsla við viðkomandi verkefni er að við vinnslu þessa máls hundsaði ríkisstjórnin algerlega ákvæði laga um samráð við sveitarfélögin um sameiginleg verkefni. Þau lagaákvæði er að finna í 116. gr. laga um sveitarstjórnarmál. Það eru þau ákvæði sem hæstv. heilbrrh. fór rangt með í sjónvarpsþætti í gærkvöldi og var það reyndar ekki það eina og ekki um það eitt sem heilbrrh. ló til í gærdag. Þessi ákvæði eru svona, með leyfi forseta:

    ,,Ríkisstjórninni er rétt að koma á formlegu samstarfi við samtök sveitarfélaga með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og með öðrum hætti. Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.``
    Með öðrum orðum: Það stendur hvergi í þessari lagagrein, er út í hött og lýsandi dæmi um skammarlegan málflutning hæstv. heilbrrh. sem hann sagði í sjónvarpsþættinum í gærkvöldi að þetta samráð snerist um það að ríkisstjórnin þyrfti að láta sveitarfélögin vita um þá stefnu sem hún hefði ákveðið að framkvæma gagnvart sveitarfélögunum. Þarf nú ekki frekari vitnanna við um sannleiksást þessa hæstv. heilbrrh. sem gerði sig að endemum frægan með frammistöðu sinni hér í gær.
    Með vísan til þessa, hæstv. forseti, í fyrsta lagi að lögboðið og lögbundið samráð ríkisvalds og sveitarfélaga hefur hér verið brotið, í öðru lagi að hér er bersýnilega óréttlát skattheimta á sveitarfélögin þar sem um nefskatt er að ræða án tillits til aðstöðu sveitarfélaganna að öðru leyti og mismunandi háan eftir íbúafjölda í sveitarfélögum, og þá í þriðja lagi með vísan til þess að þar er mjög sennilega á ferðinni brot á svonefndri jafnræðisreglu í skattalögum, þá hljótum við að mótmæla mjög harðlega þessu ákvæði og þeirri framkomu sem ríkisstjórnin með þessum hætti sýnir sjálfstæðu stjórnsýslustigi í landinu þar sem sveitarfélögin eru. Ég segi því nei, hæstv forseti.