Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:30:00 (3079)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að taka þetta mál til umfjöllunar nú og krefjast þess að hæstv. ríkisstjórn upplýsi hvaða nýjar upplýsingar liggja að baki þeim yfirlýsingum sem hafa verið að birtast síðustu daga, m.a. frá hæstv. forsrh., um að þeir telji að það sé kraftaverk ef eitthvað verður úr samningnum við EES. Ég segi þetta í ljósi þess að í fyrrakvöld bárust mér upplýsingar um það að hjá hagsmunaaðilum í íslensku atvinnulífi sé farið að ræða um tilboð sem EB hafi gert EFTA-þjóðunum um sérstaka hraðferð inn í EB þar sem þær þjóðir sem sækja um aðild á árinu 1992 fái aðild á árinu 1995. Að öðrum kosti sé óvíst hversu lengi þær þurfi að bíða. Þetta eru upplýsingar sem eru, eins og ég sagði, þessa dagana til umfjöllunar hjá hagsmunaaðilum í íslensku atvinnulífi. Það hlýtur að vera krafa Alþingis að hæstv. ráðherrar upplýsi hér hvort þeim hafi borist þessar upplýsingar. Mér þykir ótrúlegt að upplýsingar, sem koma á minnisblöðum frá aðilum sem eru í beinu sambandi úti í Brussel, hafi ekki borist til íslensku ríkisstjórnarinnar. Í ljósi þessa, ef hagsmunaaðilar í íslensku atvinnulífi eru farnir að ræða þetta mál á þessum nótum innan sinna samtaka, þá er það enn þá nauðsynlegra og enn þá brýnna að hæstv. ríkisstjórn taki af skarið um það að aðild að EB komi ekki til greina en í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og stöðu málsins verði nú þegar hafinn undirbúningur að beinum tvíhliða viðræðum milli Íslands og EB.