Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:33:00 (3080)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Ég tel mjög ánægjulegt að þessi fyrirspurn skuli hafa komið fram og raunar nauðsynlegt. Við höfum auðvitað rætt þessi mál mjög rækilega í hv. utanrmn. og gerum alltaf öðru hvoru enda einna mikilvægustu málin sem við fjöllum um.
    Þessi mál voru líka rædd mjög oft og mörgum sinnum í Evrópustefnunefnd sem raunar hefur ekki starfað upp á síðkastið en gaf út álitsgerð á sínum tíma þar sem m.a. segir að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hafi á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkar orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.
    Með hliðsjón af þessu höfum við auðvitað fylgst mjög náið með starfi þeirra til að reyna að koma á Evrópsku efnahagssvæði. Nú er ljóst að það tefst allt saman og ég held að það sé af hinu góða. Við þurfum að átta okkur betur á stöðunni.
    Sannleikurinn er sá að Evrópubandalagið er enn þá í skuld við okkur en ekki öfugt og við eigum þess vegna réttar að gæta þar. Henning Christophersen mikill valdamaður í EB lýsti því yfir sem bókað er í fundargerð, og ekkert launungamál, þegar Evrópustefnunefndin var á ferðalagi ytra að við Íslendingar hefðum veitt Evrópubandalaginu öll fríðindi, tollfrelsi á innflutningi þeirra til okkar en við hefðum ekkert fengið í staðinn og það ættum við að sækja og gætum gert það en við hefðum vanrækt það. Við höfum ekki gengið nógu langt í því að gæta réttar okkar og það er sjálfsagt að herða nú sóknina því að við eigum réttinn en ekki þeir.
    Við þurfum að minnast þess líka að við eigum nú stærra svæði af yfirborði jarðar en EB-þjóðir og miklu verðmætara eins og menn kannast við. Þingmenn hafa allir fengið þessa kortabók sem ég er hér með í hendur og raunar þessa merku bók ,,Ísland og Evrópa`` líka, sem þeir ættu að kynna sér mjög rækilega. En málið er þannig vaxið að við eigum að gæta okkar réttar og hvika hvergi og skal ég nú láta máli mínu lokið, virðulegi forseti.