Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:41:00 (3083)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég flokkaði það undir mikla guðs mildi þegar samningar um Evrópskt efnahagssvæði sigldu í strand. Með trú á áframhaldandi guðs mildi vona ég að þeir verði ekki vaktir upp á nýjan leik. Þess vegna hlýtur það að vera verkefni hæstv. utanrrh. að vinna að því á breiðum grundvelli að við náum viðskiptasamningum við aðrar þjóðir. Það voru gleðifréttir þegar það barst frá fjölmiðlum að farið væri að ræða við Ameríku um aukin viðskipti. Halli er búinn að vera á viðskiptum við Vestur-Evrópu frá því að ég man eftir og ég hef ekki mikla trú á því að nýlenduveldi heimsins hafi eitthvað breytt um stefnu frá því að þeirra markmið var að arðræna sem mest þau lönd sem þau höfðu eitt sinn náð tökum á. Ég verð að segja eins og er að það hlýtur að vera spurning dagsins hvort Sjálfstfl., sem á sínum tíma vildi að teknar yrðu upp tvíhliða viðræður og formaður Sjálfstfl. barðist fyrir því hér í þinginu, hefur tapað trúnni á tvíhliða viðræðum. Hafi það verið rétt þá að taka upp tvíhliða viðræður, þá hlýtur það að vera eðlilegt nú. Það getur auðvitað verið að sú breyting hafi orðið á Sjálfstfl. að sjálfstæðið sé ekki aðalatriðið lengur. Við höfum trúað því að Alþfl. væri að verða útibú frá Sjálfstfl. Þetta hefur kannski snúist við og menn búnir að afskrifa sjálfstæðið. Ég trúi því að þessari þjóð sé fyrir bestu að viðhalda því fullveldi sem hún hlaut og því fullveldi sem hún hefur. Slík þjóð þarf að leita eftir viðskiptasamningum en hún hefur ekkert að gera inn í eitthvert efnahagssvæði Evrópu, hvaða nafni sem það verður nefnt og ég vona að það verði aldrei.