Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:46:00 (3085)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. hafði beðið um orðið. Ég bað um orðið á eftir honum. Þá óskaði hæstv. utanrrh. eftir því að verða fluttur aftar á mælendaskrána. Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. þorir ekki að tala í þessari umræðu fyrr en aðrir þingmenn hafa nýtt sér rétt sinn til að tala? Það er athyglisverð spurning.
    Hæstv. utanrrh. veitir þinginu ekki þá sjálfsögðu kurteisi að koma hér inn í umræðuna með eðlilegum hætti þótt til hans hafi verið beint mjög þungum og mjög alvarlegum spurningum. Hann er það hræddur við eitthvað að hann leitar skjóls í því að vera svo aftarlega í umræðunni að enginn geti talað á eftir honum. Hvað er nú orðið um kjarkmanninn sem hitti bændur á Suðurlandi í gærkvöldi? Hefur hann misst kjarkinn hér í þingasalnum? Þetta er mjög undarlegt. Þetta er sérstaklega undarlegt vegna þess að utanríkismál eru að mörgu leyti æðri og mikilvægari en þau daglegu málefni sem við erum hér að fást við.
    Mér finnst margt benda til þess, m.a. ræða hæstv. forsrh. hér og ég vitna einnig í svör hæstv. forsrh. sem birtust í Morgunblaðinu í desembermánuði, að afgerandi þingmeirihluti sé á Alþingi fyrir að hefja nú þegar undirbúning að tvíhliða viðræðum Íslands og Evrópubandalagsins. Ég tel að sá meiri hluti sé fyrir hendi ef dæma má yfirlýsingar forsrh. síðustu daga, hér í stólnum í dag og í viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmum mánuði síðan. Spurningin er hins vegar sú: Fær þessi meiri hluti á Alþingi að koma fram og birtast? Eða ætlar hæstv. utanrrh. og Alþfl. að koma í veg fyrir að þessi meiri hluti á Alþingi fái að segja sína skoðun á sama hátt og hann hagar sér þannig hér í þessum umræðum að hann þorir ekki að taka þátt í þeim þannig að þingmenn geti með eðlilegum hætti tjáð sig að ræðu hans lokinni?