Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:54:00 (3088)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna beinna spurninga til mín þá tek ég undir það sem hæstv. utanrrh. sagði. Það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið. Ég vil líka vekja athygli á því að tíminn líður. Ef dæmið gengi allt saman upp lægi mikil löggjafarvinna fyrir hjá okkur hér á þinginu og það er afskaplega bagalegt að þetta skuli dragast með þessum hætti. Ég vek athygli á því að hæstv. utanrrh. sagði í viðtali við Morgunblaðið að helst þyrfti að fást lausn í þessu máli innan tveggja vikna eða svo og hæstv. utanrrh. gegnir nú formennsku EFTA-hópsins í þessum viðræðum.
    Það er spurt sérstaklega um tvíhliða viðræður. Ég ítreka að ég tel að meðan þetta mál er ekki útkljáð endanlega eigum við ekki að breyta um stefnu í þeim efnum. Hvað sem menn hafa sagt hér á árum áður, þá var þessi stefna tekin og við eigum að fylgja henni fast fram. En auðvitað er það svo að ef þetta strandar, sem við eigum að gera okkur grein fyrir að gæti gerst, þá hlýtur að reka að því að í slíkar viðræður þurfi að fara og þá tel ég að þær viðræður sem hafa átt sér stað í EFTA-hópnum muni gagnast okkur afskaplega vel í þeim efnum.