Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:55:00 (3089)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Vegna þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. gaf hér og er í beinu framhaldi af þeirri skoðun sem hann lýsti í Morgunblaðinu fyrir rúmum mánuði síðan og í ljósi þeirra yfirlýsinga sem komið hafa fram hjá forustumönnum Framsfl., Kvennalistans og Alþb., þá tel ég nauðsynlegt og fer hér með formlega fram á að utanrmn. komi saman til fundar í þessari viku og hefji þegar viðræður um undirbúning Íslands að tvíhliða viðræðum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Ég fer hér með formlega fram á það að á vettvangi utanrmn. verði sú vinna hafin, undirbúningsvinna að tvíhliða viðræðum Íslands og Evrópubandalagsins, til þess að sá augljósi þingmeirihluti sem er hér til staðar hvað snertir slíkan undirbúning geti tekið til starfa.