Greiðsla umönnunarbóta

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:22:00 (3102)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegi forseti. Bara örstutt um þetta mál. Ég var að vísu ekki hér við byrjun

þessarar umræðu en mér skilst að það hafi verið minnst á sök tryggingaráðs í þessu máli. Þar sem það hefur komið réttilega fram að ég er varaformaður tryggingaráðs, hef þó að vísu haft varamann inni fyrir mig í desember og janúar sökum anna hér í þinginu, þá kannast ég ekki við að hér sé við tryggingaráð að sakast, að þeir hafi ekki sett sínar reglur nægilega fljótt. En hvernig sem því máli er háttað þá virðist sem orðið hafi eitthvert sambandsleysi þarna á milli ráðuneyta, þá á ég við félmrn. og heilbr.- og trmrn. annars vegar og svo Tryggingastofnunar hins vegar.
    Mér er tjáð að það séu tiltölulega fá mál sem um er að ræða þótt það sé að sjálfsögðu mjög miður að þessar greiðslur hafi ekki komið á réttum tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er reglugerð í smíðum og væntanlega munu liggja fyrir drög að henni á morgun og verður hún kynnt fyrir tryggingaráði nk. föstudag. Vonandi leysist því fljótt úr þessu máli.
    Varðandi þau orð sem féllu hér áðan í sambandi við það hvenær greiðslur geti borist, þá skilst mér að það sé hægt að greiða þessum foreldrum strax um næstu mánaðarmót þ.e. að það verði greitt með afbrigðum.