Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:35:00 (3106)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það er sannarlega tilefni til að ræða þetta efni hér utan dagskrár á Alþingi og enn frekar eftir það sem fram hefur komið hjá hæstv. utanrrh. varðandi málið.
    Ég vil taka það fram fyrir mig, og ég segi persónulega, að ég tel að ekkert eigi að útiloka, litið til lengri framtíðar, varðandi samstarf og samskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Það er hins vegar spurningin um afstöðuna núna. Hver er afstaðan á þessu ári, þessa dagana, til málsins? Hér upplýsir hæstv. utanrrh. að hann í opinberri heimsókn í Litáen á dögunum hafi verið að tala fyrir sig persónulega en ekki sem utanrrh. Íslands. Þannig skildi ég orð hæstv. ráðherra. Ég spyr þá: Var hæstv. utanrrh. að lýsa persónulegum skoðunum á fundi utanríkisráðherra Norðurlands þar sem hann einn utanríkisráðherra

Norðurlanda, samkvæmt frásögn Ríkisútvarpsins í orðréttri tilvitnun í gær í hádegisfréttum, svarar þeirri spurningu fréttamanns: ,,Ert þú fylgjandi aðild Litáens að Norðurlandaráði?`` Svarið er já. Það er aðeins já og engar frekari skýringar af hálfu ráðherrans samkvæmt þessari frétt. Þetta er á sameiginlegum fundi að viðstöddum hinum utanríkisráðherrum Norðurlanda sem gera síðan grein fyrir sinni afstöðu. Hvað eiga menn að halda? Auðvitað taka þeir þetta fyrir gilda afstöðu ríkisstjórnar Íslands þegar þannig er málum háttað. Ég spyr hæstv. forsrh. sem hér er viðstaddur: Hefur verið fjallað um þetta mál í ríkisstjórninni og hefur verið tekin afstaða til þess? Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í málinu? Við sem störfum í Norðurlandaráði þurfum að vita hvað upp snýr í þessum efnum af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Ef málin liggja svona fer maður að spyrja sig: Í hvaða gervi stendur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hér í þessum ræðustól? Er hann þar sem formaður Alþfl., sem alþingismaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson eða er hann hér sem utanrrh. Íslands? Ég var að spyrja hann um fregnir úr norrænum blöðum. Ég er satt að segja ekki mjög viss, eftir það sem hér hefur komið fram, hvernig á að meta svör hæstv. ráðherra.