Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:42:00 (3109)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég vil undirstrika sterklega málflutning málshefjanda í þessari umræðu og raunar það sem kom fram hjá hinum fulltrúa okkar í forsætisnefndinni, hv. þm. Geir H. Haarde, rétt áðan. Ég tel að forsætisnefnd Norðurlandaráðs sé á réttri leið að móta frambúðarfyrirkomulag á samskiptum Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna. Að sjálfsögðu ber okkur að aðstoða Eystrasaltsríkin þar sem við megum og verða þeim að sem mestu liði. En ég tel að forsætisnefndin sé á réttri leið og hafi fundið eða sé að leita að því heppilegasta formi sem á því gæti orðið í framtíðinni.
    Ég tel að norrænt samstarf sé hið mikilvægasta sem við eigum við aðrar þjóðir. Því miður fela yfirlýsingar hæstv. utanrrh. það í sér að hann vill umbylta þessu samstarfi. Leggja niður Norðurlandaráð í núverandi mynd því að ef svo færi að Eystrasaltsríkin gerðust aðilar að Norðurlandaráði yrði það orðið allt annað ráð en það er nú, gera það eitthvert allt annað Eystrasaltsráð eða guð má vita hvað. Ég tel að hæstv. utanrrh. verði að gera skýran greinarmun á sínum persónulegu skoðunum sem enginn getur bannað honum að hafa og utanríkismálastefnu Íslands. Ef hann setur fram sínar persónulegu skoðanir á hann að gera grein fyrir því, eins og t.d. utanríkisráðherra Dana gerði um þetta efni, ef hans persónulegu skoðanir stangast á við utanríkismálastefnu Íslands.
    Því miður er nokkurt áhugaleysi um norrænt samstarf að verða áberandi innan stjórnarflokkanna, sem betur fer ekki útbreitt enn, en ég vil þó geta þess í þessari umræðu að Samband ungra sjálfstæðismanna ætlar ekki að taka þátt í næsta þingi Norðurlandaráðs. Það hefur afþakkað boð um það með hortugu bréfi og ég hef áhyggjur af þeirri þróun. Aðstaða okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna mundi versna að mun ef norrænt samstarf yrði skert eða lagt fyrir róða. Það er einkennandi, frú forseti, að þeir sem leggjast einkum gegn norrænu samstarfi eru á sama tíma mjög fýsandi sem allra nánustu samstarfi við Evrópubandalagið.