Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:45:00 (3110)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Skammt er nú stórra högga í milli. Við vorum áðan að ræða um hvorki meira né minna en afstöðu til Evrópsks efnahagssvæðis og Evrópubandalagsins og þá utanríkisstefnu sem við þurfum að marka. Alþingi í heild sinni markaði að vísu mjög merkilega utanríkismálastefnu vorið 1985, ég held að það hafi verið í maí, sem stendur í meginatriðum enn þá. Það var mjög merk ályktun sem þingmenn kannast við.
    Nú er farið að ræða möguleika á því að Eystrasaltsríkin gerist aðilar að Norðurlandaráði eða hugsanlega að þessu bandalagi sem gæti myndast hér. Þá er ég aftur með þessa möppu sem við vorum að tala um áðan. Það hefur verið mjög mikið rætt í utanrmn. og það er rétt að upplýsa það hér að ég ræddi reyndar um þetta við Bogdanas, aðstoðarmann Landsbergis, þegar ráðamenn Eystrasaltsríkjanna voru hér í fyrra. Það vakti mikla athygli þeirra, sagði hann mér, ef það væri hugsanlegt að þetta kort sem ég var að sýna sem nær til átta ríkja, frá Kanada til Eystrasaltslanda og þau innifalin.
    Ég hef ekki viljað orða þetta opinberlega áður en það er byrjað að tala um það víðar. Ég hef margsýnt í hv. utanrmn. uppkast að bréfi til Bogdanas, svarbréfi út af þessu máli. Ég held að þetta sé ágætt tækifæri til að rifja upp þessa hugsun: Hvers vegna ættu ríkin frá Kanada til Eystrasaltsins, að því meðtöldu og Eystrasaltsríkjunum, ekki að starfa saman í einhvers konar lauslegu bandalagi til þess að vernda þetta hafsvæði og þessi landsvæði og nýta þau og rækta þó að það væri ekkert annað? Það þyrfti ekki að vera neitt bandalag öðruvísi en sem einhvers konar samningur um slíkt samstarf. Það er rétt að þetta komi hér fram nú því vissulega á þetta að koma inn í umræðuna um Norðurlandaráð. Það er að veikjast svo mjög að það þarf á styrk að halda. Ég held að við getum kynnt þessa hugsun hjá ráðamönnum þessara ríkja og alla vega er hún hér með kynnt í Alþingi.