Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:54:00 (3113)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Mikið er það skemmtileg tilbreyting í umræðum á hinu háa Alþingi þegar menn geta rætt mál án þess að hafa fyrir brjóstinu þyngslin af þessari eilífu hneykslunarhellu.
    Ég sagði: Það hefur ekkert tilefni gefist til þess að ríkisstjórn Íslands, sem stjórnvald, taki afstöðu til umsóknarbeiðni frá þessum löndum --- fyrr en þá núna. Þá vísa ég einfaldlega til staðreynda. Fyrir þann tíma hafa margvíslegar umræður farið fram um þetta mál og menn hafa, aðilar að ríkisstjórnum á Norðurlöndum og þingmenn á þjóðþingum Norðurlandaþjóða og hópar innan þessara þinga, lýst afstöðu sinni sem bindur ekki stjórnvöld, en hafa gert það engu að síður. Starfsbróðir minn, danski utanríkisráðherrann, hefur skýrt frá því að hann sé persónulega hlynntur því að þetta verði niðurstaðan. En jafnframt er það vitað að meiri hluti danska þingsins er ekki sammála þessari persónulegu afstöðu hans.
    Ég sagði hér áðan að auðvitað er hægt að hugsa sér margvíslegt form þessarar samvinnu. Aðalatriðið er fyrst og fremst í mínum huga og margra annarra að það svæði, sem smám saman verður til innan samrunaferilsins í Evrópu, geti orðið úrvíkkuð Norðurlönd. Svo geta menn velt því fyrir sér: Eru málörðugleikar einhver hindrun í þessu efni? Ein þessara þjóða talar mál náskylt finnsku. Það vill svo til að innan Norðurlandaráðs eru tvær þjóðir sem raunverulega þurfa annaðhvort að láta þýða sitt móðurmál eða læra móðurmál Skandínavanna. Ég held að málörðugleikar séu þess vegna aukaatriði í þessu máli. Fyrir þessu máli eru fyrst og fremst auðvitað söguleg rök, menningarleg rök, efnahagsleg rök og svo náttúrlega ef menn vilja líta á þá lífsnauðsyn Eystrasaltsþjóðanna að tengjast sem allra fyrst kerfisbundnu samstarfi við aðrar þjóðir til þess að auka öryggi þeirra gagnvart því hættu- og óvissuástandi sem skapast getur austanhallt.
    Menn hafa verið að ræða um, og það er kjarni umræðunnar um framtíð Norðurlanda innan Evrópu, og lýsa áhyggjum sínum af því ef Norðurlandaþjóðirnar tvístrast að því er varðar afstöðuna til Evrópubandalagsins. Ég hef áhyggjur af því máli því það er fyrst og fremst þar sem hætta kann að leynast á því að við getum ekki viðhaldið innihaldsríku norrænu samstarfi. Það vill svo til að Eystrasaltsþjóðirnar eru ekki á leið inn í EB. Ég sæi ekkert að því að hafa þær að bandamönnum.