Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 15:03:00 (3116)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Nú er komið að því að Alþingi muni samþykkja að leggja niður Framkvæmdasjóð Íslands. Meginrökin eru þau að sjóðurinn hafi verið gjaldþrota. Engu að síður liggur það fyrir að ríkisendurskoðandi staðfesti með undirskrift sinni reikninga sjóðsins fyrir árið 1989 og einnig fyrir árið 1990 og fann ekkert athugavert og sá enga ástæðu til að vekja athygli á því að sjóðurinn væri illa staddur. Það hefur einnig komið fram í þessum umræðum að þáv. fulltrúi fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs óskaði 1989 sérstaklega eftir því að haldinn yrði fundur til að ganga úr skugga um að fulltrúi Ríkisendurskoðunar teldi aðspurður að fjármál sjóðsins væru með þeim hætti að nægilegt fé hefði verið lagt í afskriftasjóð þannig að fjárhagur Framkvæmdasjóðs Íslands væri traustur. Það kom fram að aðspurður svaraði fulltúi Ríkisendurskoðunar að svo væri og einnig að þær reglur, sem settar hefðu verið um afskriftasjóð, hefðu verið samdar af Ríkisendurskoðun. Það hefur einnig komið fram að í mars á sl. ári staðfesti ríkisendurskoðandi með undirskrift sinni ársreikninga Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1990 en í ágúst á sama ári, fáeinum mánuðum síðar, var í skýrslu til núv. hæstv. forsrh. því lýst yfir af hálfu Ríkisendurskoðunar að sjóðurinn væri gjaldþrota og að um 1.700 millj. kr. skorti til að nægilegt fé væri til að standa við skuldbindingar sjóðsins. Það hefur einnig komið fram að í skýrslu sem núv. hæstv. forsrh. Davíð Oddsson lagði fram á Alþingi 23. des. sl. er frá því greint að nefnd forsrh. telur að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýring af hálfu Ríkisendurskoðunar á þeirri furðulegu niðurstöðu að sjóður, sem Ríkisendurskoðun taldi með undirskrift ársreikninga fyrir árið 1989 vera traustan, endurtók þá skoðun sína með undirskrift undir ársreikninga fyrir árið 1990, var að dómi þessarar sömu stofnunar, án þess að nokkuð sérstakt nýtt hefði gerst, og ég legg áherslu á það, án þess að nokkuð sérstakt nýtt hefði

gerst, orðinn gjaldþrota þannig að það skorti 1.700 millj. kr. í sjóðinn.
     Í skýrslu til núv. hæstv. forsrh. kemur fram að sú nefnd, sem forsrh. skipaði, telur að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar af hálfu Ríkisendurskoðunar á þessum mismunandi niðurstöðum og það eina sem Ríkisendurskoðun hafi fært fram sér til réttlætingar sé sú ábending að ný ríkisstjórn hafi tekið við sl. sumar og þess vegna sé hægt að álykta sem svo að sjóðurinn sé gjaldþrota. Það er satt að segja furðuleg yfirlýsing að fjármál sjóðsins breytist svo gjörsamlega á fáeinum mánuðum vegna þess að ný ríkisstjórn sé komin til sögunnar. Það getur einfaldlega ekki verið frambærileg ástæða.
    Sú breyting var gerð á stjórnskipun Íslands fyrir nokkrum árum að Ríkisendurskoðun var færð frá framkvæmdarvaldinu til löggjafarvaldsins. Ríkisendurskoðun starfar á ábyrgð Alþingis. Það er grundvallaratriði í okkar stjórnskipan að þegar Ríkisendurskoðun hefur skrifað upp á reikninga og staðfest með nafni ríkisendurskoðanda að þeir séu réttir þá geti þjóðþingið treyst því að svo sé. Það gerði þjóðþingið og framkvæmdarvaldið varðandi ársreikninga Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1989. Það gerði þjóðþingið og framkvæmdarvaldið varðandi reikninga Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1990 en nú kemur Ríkisendurskoðun allt í einu, fáeinum mánuðum síðar og segir: Þessar undirskriftir voru allar marklausar, sjóðurinn er gjaldþrota. Við getum ekki búið við það að sú stofnun, sem ber ábyrgð á því að endurskoða reikning íslenska ríkisins, ber auk þess ábyrgð á því að endurskoða reikninga fjölmargra opinberra sjóða og ber einnig ábyrgð á því, og ég vek athygli á því, að hafa eftirlit með fjármálum ríkisviðskiptabankanna, geti allt í einu komist að þeirri niðurstöðu eftir fáeina mánuði að undirskriftir hennar upp á reikninga séu marklausar.
    Við höfum þess vegna lýst þeirri skoðun hér í umræðunum að nauðsynlegt sé að fá botn í þetta mál. Það verði að knýja Ríkisendurskoðun til að gefa Alþingi formlega skýrslu um hvers vegna hún kemst að svo ólíkum niðurstöðum og hverjar séu málsbætur hennar í þessu furðulega máli. Þess vegna vil ég láta það koma fram sem fram kom frá formanni Alþb. á viðræðufundi formanna þingflokka og forseta þingsins fyrir tveimur dögum að við munum skrifa formlegt bréf og óska eftir formlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem hún geri tilraun til að útskýra þennan alvarlega mun. Síðan munum við beita okkur fyrir því þegar sú skýrsla liggur fyrir hvort nauðsynlegt sé að Alþingi biðji óháðan aðila, þó það sé sérkennilegt að biðja óháðan aðila að segja álit sitt á Ríkisendurskoðun, að skoða málið. Það er ekki hægt að skilja við málið án þess að þjóðþingið geri alvarlega tilraun til þess að fá botn í það.
    Ég vildi láta koma fram að næstu daga munum við, ég og formaður þingflokks Alþb., beita okkur fyrir því að skrifað verði formlegt bréf til forseta þingsins þar sem óskað verður eftir því að Ríkisendurskoðun geri Alþingi grein fyrir því hvers vegna hið mikla misræmi er á uppáskrift reikninga Framkvæmdasjóðs 1989 og 1990 og síðan þeirrar skýrslu sem þetta frv. er byggt á. Ég ætla ekki að öðru leyti að ræða þetta mál hér og nú, hef gert það áður við fyrri umræður þessa máls en taldi nauðsynlegt að greina þinginu formlega frá þessari ákvörðun okkar, að fara fram á opinbera greinargerð um þetta mál. Síðan munum við láta þingflokkum í té þær niðurstöður og efna til viðræðna hér innan þingsins um hvernig tekið verði á framhaldinu.