Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:40:00 (3126)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól vegna athugasemda sem komu fram hjá hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, til mín sem starfandi formanns efh.- og viðskn., og þar sem kallað var eftir upplýsingum um fundinn í morgun. Ég vil í fyrstu upplýsa það að þegar fulltrúar koma á fund nefndarinnar --- og það hefur gilt hið sama í öll þau skipti --- er óskað eftir því að viðkomandi setji fram í stuttu máli þau meginatriði sem skipta máli varðandi það sem verið er að fjalla um hverju sinni. Síðan er þingmönnum gefinn kostur á að varpa fram spurningum til gestanna. Þetta var einnig gert á fundinum í morgun og ég vil upplýsa að ekkert kom fram af hálfu stjórnarmanna Framkvæmdasjóðs á fundi efh.- og viðskn. í morgun um ótta af þeirra hálfu um að lán Framkvæmdasjóðs yrðu gjaldfelld. Ég held að ég geti sagt það alveg ákveðið að það hafi ekki verið orðað á fundinum.
    Fyrir utan það að menn koma á fund nefndarinnar með þær upplýsingar sem þeir óska er oft beðið um að viðkomandi sendi viðbótargögn nefndarmönnum til upplýsingar. Það hefur oft verið gert í þeirri törn sem staðið hefur yfir og gögnin hafa borist til þingmanna án þess að ég hafi verið að segja til um þau frekar. Þetta var einnig gert núna.
    Ég vil líka í örstuttu máli greina frá öðru sem ég tel að hafi verið meginatriði sem kom fram hjá þeim. Það var að stjórnin skrifaði bréf til forsrh. í maí um stöðu sjóðsins og að það hafi verið settar fram tillögur um framtíðarskipan hans, m.a. að leggja hann niður eða að umsýsla færi til Lánasýslu. Fram kom að meginhlutverk hans væri að lána öðrum fjárfestingarlánasjóðum, fram kom að veðstaðan væri góð, yfirleitt væri fyrsti veðréttur. Líka kom fram að krafa sé yfirleitt um 33% eiginfjárstöðu, sem sé hátt því að krafan sé oftast 20--33%. Fjallað var um tap og erfiðleika í ullariðnaði, seiðaeldi og að Noregsmarkaður lokaði, og ákvörðun um að slátra eða byggja upp, að það hafi orðið röskleg uppbygging upp á um 800 milljónir (Forseti hringir.) --- ég er að ljúka máli mínu, forseti --- og að mörg fyrirtæki væru til gjaldþrotameðferðar, að þeir ættu 15 stöðvar sem ekki væri hægt að selja, sem væri tekið lágt leigugjald fyrir, og að staða Framkvæmdasjóðs sé háð mati á hvers virði fiskeldisstöðvar eru.