Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:05:00 (3135)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Langar umræður hafa orðið um þetta mál hér og nú, lengri en ég átti von á eftir að tekist hafði samkomulag um að afgreiða málið og reyndar lengri en ég átti von á eftir umræður hér við 2. umr. Þá vorum við lengst af einir hér í salnum ég og hv. 8. þm. Reykn. við seinni hluta umræðnanna. Ég vil reyndar geta þess í framhjáhlaupi að blaðamaður Dagblaðsins sagði að við hefðum eytt jafnmiklum tíma í þær umræður. Ég fékk mælingu á því. ( Gripið fram í: Ég var ekki í salnum.) Þú varst ekki í salnum, hv. þm., þegar við vorum að tala saman á þeim tíma. Ég er ekki að fjargviðrast yfir því, hv. þm. situr mjög vel í salnum. Ég fékk reyndar mælingu á því og ég hafði talað í 19 mínútur og hv. þm. í 1 tíma og 20 mínútur. Þessi ágæti blaðamaður getur þá haft það nokkurn veginn rétt. En þannig var tímamælingin í þeim efnum og við vorum, eins og ég segi, að mestu leyti einir í þessari umræðu. Reyndar hygg ég að hv. 8. þm. Reykn. hafi margoft viðurkennt það að samkomulag væri um að afgreiða þetta mál og hann margtók það fram að hann mundi beita sér fyrir því að það samkomulag yrði efnt. Ég vænti þess að hann hlaupi ekki frá slíku.
    Ég vil einnig benda á að ekkert kom fram þegar stjórn þessa sjóðs mætti á fund efh.- og viðskn. --- ekki hef ég a.m.k. heyrt það í þessum umræðum --- um að þeir hafi þar varað við þessari málsmeðferð eða varað við því að málið færi í þann farveg sem frv. gerir ráð fyrir. Ef þeir hefðu gert það hefði kannski mátt segja að eitthvað hefði breyst við komu þeirra til nefndarinnar. En það hefur ekki gerst og við erum að koma málinu í ákveðinn farveg. Ekkert hefur gerst í dag sem breytir neinu í þeim efnum.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég var afskaplega ósáttur við ræðu hv. 2. þm. Vestf. og mér fannst sú ræða nánast ekki frambærileg, a.m.k. varðandi sumt sem fram kom hjá honum. Hann er annars ágætur ræðumaður og kemur oft með fróðlega og athyglisverða hluti en mér fannst hann ganga mjög langt í ræðu sinni. Ég ætla ekki að fjalla efnislega um það en þingmaðurinn gaf til kynna að menn hefðu ekki vitað hér að þessi sjóður hefði vélað um milljarða og reyndar tugi milljarða króna. Ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá neinum þingmanni. Menn þekkja vel til þessa sjóðs. Þingmaðurinn benti á að þessi sjóður hafi verið í tengslum við Alþingi og menn vildu koma þeim tengslum í burtu. Skárri væru það nú tengslin ef jafnreyndir og vel upplýstir þingmenn eins og þessi þingmaður hefur ekki vitað hvers konar upphæðir þessi sjóður hefur að véla um í áraraðir ef þessi tengsl hafa verið fyrir hendi. Auðvitað ætla ég ekki að fjalla um ýmsar þær hugmyndir og vangaveltur sem hann hafði uppi í sambandi við málið.
    Ég vil nú, svo að það gleymist ekki, svara spurningu sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. varðandi starfsmannahald. Gert er ráð fyrir því að þeir aðilar, sem þarna er um fjallað og ekki eru að fara á eftirlaun um þessar mundir eða á næstunni, muni fylgja sjóðnum til Lánasýslunnar og fjalla um málið þar áfram.
    Meginatriðið sem hefur verið rætt um í dag og menn hafa gert að töluvert miklu máli er atriði sem hv. 8. þm. Reykn. hefur mikið fjallað um, og kallað glæfraspil, þ.e. að vegna málatilbúnaðar kynnu lánveitendur Framkvæmdasjóðs að gjaldfella snöggt og skyndilega samkvæmt almennum skilmálum sem eru reyndar mjög almennir hvað slíka hluti varðar, lán sjóðsins og koma honum og eiganda hans í miklar ógöngur. Það er ekki þessi málatilbúnaður sem býr til þær aðstæður, eins og þingmaðurinn gat um sjálfur. Það er staða sjóðsins sem leiðir til þess að hægt væri að beita slíkum ákvæðum. Glæfraspilið er ekki að reyna að taka á málinu ef menn vilja nota það orð. Það að koma sjóðnum í þann farveg að gjaldfella megi skuldir ef staða sjóðsins er orðin slík, eins og þingmaðurinn nefndi.

Það eru fremur slíkir atburðir sem má flokka undir glæfraspil heldur en það að taka á málinu. Ég vek athygli á því að það stangast á að mælast til þess hér að þetta mál verði áfram í óvissu og fjalla síðan mest og ítarlegast um að hætta sé á því að lánardrottnar gjaldfelli skuldir. Auðvitað var hugsað um þessi atriði þegar að málinu var unnið og það er m.a. vegna þessa atriðis sem málið er sett í þann farveg sem hér er. Það kemur fram í þeim gögnum sem þingmaðurinn hefur handbær --- ef ég skildi það rétt úr ræðu hans að hafi verið afhent í dag --- að þá er sú aðferð að láta Framkvæmdasjóð starfa með fyrri hætti áfram en veita honum undir Lánasýslu ríkisins ekki síst gerð vegna þessara atriða. Reyndar kemur fram í þeim plöggum að engin ástæða er til að ætla að þessi breyting muni verða til þess að lán verði gjaldfelld því staða þeirra sem lánin hafa veitt verður sterkari eftir aðgerðina en fyrir. Staða þeirra er auðvitað lakari þegar sjóðurinn á ekki fyrir skuldum sínum. Við þingmenn erum þessar stundirnar að ganga frá sérstakri heimild á fjárlögum til að bregðast við því. Það setur undir þann leka, með þeirri heimild er brugðist við því. Í annan stað er staðið að málinu þannig við yfirfærsluna til Lánasýslunnar að þeir sem best til þekkja telja enga ástæðu til að óttast að lánin verði gjaldfelld. Hins vegar væri mjög vont að hafa málið í óvissu lengur en efni eða ástæður standa til.
    Hér segir, með leyfi forseta, þegar rætt er um þessi atriði í bréfi til Framkvæmdasjóðsins frá Sigurgeiri Jónssyni, sem hv. 8. þm. Reykn. hefur lýst sérstöku trausti á og ég geri líka: ,,Með framanskráð í huga væri öruggara að Framkvæmdasjóður Íslands starfaði áfram að forminu til meðan verið er að greiða upp lán hans eða endursemja um þau í nafni ríkissjóðs. Jafnframt verði gerðir fyrir hann ársreikningar og sendir lánveitendum. Verulegar breytingar hafa fjórum sinnum verið gerðar á stöðu og högum sjóðsins síðan Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður árið 1952. Þær breytingar munu ekki hafa verið tilkynntar lánveitendum með formlegum hætti. Sem dæmi um leið sem mætti fara til að forðast að uppsagnarákvæðum lánsamninga Framkvæmdasjóðs verði beitt væri að gera Framkvæmdasjóð að deild við Lánasýslu ríkisins eins og Ríkisábyrgðasjóður er nú. Þetta mætti gera með einföldum breytingum á lögum nr. 70/1985, um Framkvæmdasjóð Íslands. Með því móti er hægt að stilla upp ársreikningum og senda lánveitendum enda verður sjóðurinn áfram til. Hér er verjandi að fylgja fordæmi undanfarandi ára og áratuga að tilkynna ekki lánveitendum með formlegum hætti breytingar á stöðu og högum Framkvæmdasjóðs, enda breytist staða erlendra lánveitenda til batnaðar ef eitthvað er. Jafnframt gefst þannig tækifæri til þess að endursemja í kjölfarið á skipulegan hátt um lán sjóðsins í nafni ríkissjóðs, enda verða þau tekin inn í almenna umsýslu um erlend lán ríkissjóðs. Ríkissjóður nýtur að öðru jöfnu betri kjara á lánamörkuðum en aðilar með ríkisábyrgð og hefur jafnframt aðgang að fleiri og stærri mörkuðum.``
    Eins og kemur glöggt fram í þessum orðum hafa menn auðvitað hugleitt þessi atriði og þau gefa ekkert tilefni til þess að mála þá hryllingsmynd um glæfraspilið mikla sem hv. 8. þm. Reykn. leyfði sér að gera hér áðan og leyfði sér að gefa til kynna að þessi óvæntu atriði ættu að leiða til þess að menn hugsuðu allt málið á nýjan leik.
    Seðlabankinn tekur í sínu bréfi í sama streng þegar hann fjallar um þessa aðferð sem beitt er í síðara tilvikinu, eins og þar er sagt, með leyfi forseta: ,,Ef Framkvæmdasjóði er lagt hjá annarri ríkisstofnun og látinn fjara út með eðlilegum hætti eins og eignir hans og skuldbindingar gefa tilefni til, virðist mega gera ráð fyrir að komast megi hjá gjaldfellingu lána sjóðsins ef gætt er almennrar venju sem tíðkast í samskiptum skuldara og lánardrottna.``
    Allir þeir aðilar sem helst hafa þekkingu á þessum efnum fjalla um málið með þessum hætti og undirstrika að þarna er ekki ástæða til þess að gera ráð fyrir áhættu. Auðvitað er fráleitt að halda að áhættan sé minni með því að fresta málinu meðan við getum verið hér í almennum umræðum um málið, ekki farveg þess heldur aðdraganda og ytri búnað og það er fráleitt að halda að það væri tryggari staða til að komast hjá gjaldfellingu skuldanna. Það held ég að allir menn hljóti að sjá ef þeir hugsa það af einhverri sanngirni og skoða málið niður í kjölinn.
    Ég sé því ekki, herra forseti, neina ástæðu til þess að menn standi ekki við það

samkomulag sem er um afgreiðslu þessa máls og láti það ganga fram. Miðað við þær ræður sem fluttar hafa verið væri það eðlilegt að tryggja að ekkert óvænt gerðist og láta málið ekki liggja lengur í þeirri óvissu sem um er að ræða.
    Menn ræða um að hugsanlega væri hægt að fá gleggri upplýsingar um það hver raunveruleg staða sjóðsins sé, hvort hann sé öfugur um 1.300 millj. kr. eða einhverja aðra tölu. Ég hygg að alveg rétt sé hjá hv. 1. þm. Austurl., sem er sérfróður í þessum efnum, að sjálfsagt verður seint hægt að komast niður á eina algilda tölu, ekki fyrr en nösum lýkur og allar eignir hafa verið seldar og menn hafa allt fyrir framan sig. Menn komast ekki hjá því að byggja á mati og þá væntanlega á mati samkvæmt almennt viðurkenndum aðferðum. Þó hygg ég, vegna eðlis málsins og er þá sammála hv. þm., að þar geti mat verið mjög óvisst og ég verð að segja í báðar áttir. Ég á engan annan kost, og ég hygg að eins sé um aðra hér, en að leggja mat Ríkisendurskoðunar sem hér er byggt á til grundvallar.
    Ég veit það og hef orðið var við það að menn finna að verkum og störfum Ríkisendurskoðunar, í mismiklum mæli þó og sumir hafa gengið að mínu mati mjög langt í því að, ég vil orða það svo, gera Ríkisendurskoðun tortryggilega. Hv. 2. þm. Vestf. sagði hér beinlínis efnislega að Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda væri ekki treystandi og færði rök fyrir því og margir aðrir hafa gengið mjög langt í því að gera Ríkisendurskoðun tortryggilega. Ég er ekki sammála því að það séu efni eða ástæður til þess þó ég sé ekki að halda því fram að Ríkisendurskoðun sé óskeikul frekar en við hin. En ég held að menn hafi gengið ansi langt í því að ófrægja Ríkisendurskoðun. Ég tel að á meðan við höfum þá stjórnskipulegu stöðu sem er, þá eigum við engan annan vænlegri kost en að byggja á því mati sem ítarleg úttekt Ríkisendurskoðunar er grundvöllurinn að. Það er enginn annar kostur fyrir okkur. Þó að fáir, kannski enginn hér í salnum og kannski enginn okkar hafi stöðu til þess að sannreyna út í hörgul hvort þar sé allt nákvæmt út í æsar eða einn sannleikur til eins og við kannski kysum. Þess vegna, herra forseti, sé ég ekki að neitt hafi komið hér fram sem réttlæti það að hafa þetta mál áfram í óvissu. Þvert á móti fannst mér öll ræða hv. 8. þm. Reykn. benda til þess að auðvitað ætti að koma þessu máli í fastan farveg. Ég hef ekki heyrt tortryggni eða gagnrýni, þá undanskil ég ræðu hv. 2. þm. Vestf., á það í hvaða farveg málið er sett. Auðvitað hlýtur Lánasýslan og þeir aðilar sem véla um málið að leitast við, eins og hv. 1. þm. Austurl. nefndi, að fá sem allra best verð fyrir þær eignir sem seldar verða og reyna auðvitað að sjá til þess að skaðinn verði sem allra minnstur. Fegnastur væri ég ef sjóðurinn mundi standa þrátt fyrir allt þegar upp verður staðið réttu megin við núllið, að einhver þau kraftaverk gerðust í fiskeldinu sem við sjáum því miður enn ekki nein merki um, að þær eignir sem eru illseljanlegar í dag og verðlitlar af þeim ástæðum mundu seljast. Ég er sammála þingmanninum um að hin ytri skilyrði breyta verðmætamatinu og enginn yrði fegnari en ég ef það mundi breytast en við sjáum engin tákn um það. Auðvitað hljóta þessir aðilar að leita eftir því af fremsta megni að þessar eignir verði seldar á sem hæstu verði og þá á þeim tíma þegar gera má ráð fyrir að sem best verð megi fá fyrir eignirnar. Þar er líka um vandasamt mat að ræða. Hversu lengi á að halda síkum eignum við og í hvaða mæli? Hversu miklu á að kosta til þeirra? Þetta er afskaplega vandmeðfarið þegar menn sjá ekki nein tákn um það því miður enn þá að þessi grein ætli að fara í þann farveg sem vonir manna stóðu til.
    Ég veit að ég hef ekki svarað öllum atriðum sem menn nefndu í ræðum sínum og tel út af fyrir sig ekki ástæðu til þess. Margt af því hafði komið fram áður og ég hafði svarað ýmsu af því við fyrri umræðu málsins. Ég vil ítreka og vænti þess að menn geti haldið sig við það samkomulag sem gert hafði verið um að ljúka þessu máli.
    Ég vek athygli á því, af því að ræða hv. 2. þm. Vestf. gat gefið tilefni til annars, að auðvitað eru þessi mál jafnaðgengileg okkur þingmönnum í stjórn og stjórnarandstöðu hvort sem þau eru hjá Framkvæmdasjóði Íslands eða Lánasýslu. Ég býst við að erfitt yrði fyrir þennan ágæta þingmanna að sýna mér fram á þótt við sætum yfir þingtíðindum að hér hefðu farið fram mjög nákvæmar umræður um þessa lánastarfsemi alla fyrr á árum eða almennir þingmenn hefðu haft mikil afskipti af þeim. Auðvitað verðum við að ætla og engin ástæða til annars en að þeir aðilar muni vinna af fyllstu trúmennsku og samviskusemi og reyna af fremsta megni að fá sem best verð fyrir þær eignir sem þeim verður falið að sjá um.