Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 19:15:00 (3145)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvort hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var í salnum í gær þegar ég hélt ræðu mína en mér heyrist á ræðu hans að hann hafi ekki verið viðstaddur vegna þess að hann fjallaði um flest þau atriði sem ég ræddi í gær og tímans vegna ætla ég ekki að endurtaka neitt af því sem hann sagði. Ég get út af fyrir sig þakkað honum fyrir málefnalega ræðu og ég veit að hann ber mikla umhyggju fyrir skólamálum enda kunnugur þeim af starfsferli sínum. En of stór hluti ræðu hans byggðist á misskilningi. Hann talaði t.d. um skólamáltíðirnar og spurði hvort ég vildi verða ráðherrann sem tók þessi ákvæði út úr lögunum. Það vildi ég ekki vera og ég er ekki að því. Ég er ekki að því. Það er verið að taka út ákvæðin úr bráðabirgðaákvæðum grunnskólalaganna varðandi skólamáltíðirnar sem segja að ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma skuli koma til framkvæmda á næstu þremur árum. Það er þetta ákvæði sem er tekið út en eftir stendur lagagreinin óbreytt. ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatímum.``
    Hann gerði fjölgun í bekkjardeildum líka að umræðuefni. Ég fór rækilega yfir það atriði í ræðu minni í gær og tók skýrt fram að ekki stæði til að hefja einhvern kerfisbundinn flutning nemenda milli skóla í Reykjavík. Það hefur verið snúið út úr því sem ég sagði aðspurður í viðtalstíma í útvarpinu fyrir allnokkru, ég held að það hafi verið 8. jan., og ekkert er í þessum heimildum sem ég hef leitað eftir sem bendir til þess.
    Ég held að ég verði að láta þetta nægja því að tími minn er búinn.