Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:18:00 (3152)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Það var í tilefni af því að hv. þm. Svavar Gestsson sagði að rétt væri að skipa rannsóknarnefnd til þess að kanna með hvaða hætti slíkir hlutir gætu gerst, sem ég kvaddi mér hljóðs hér áðan. Það þarf enga rannsóknarnefnd. Það liggur fyrir að ástæðuna fyrir því er að finna í lögum sem sett voru árið 1979 af fjmrh. Tómasi Árnasyni og Alþingi að sjálfsögðu. Þau lög voru fyrst og fremst unnin af hv. núv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Það er ekki rétt að unnið hafi verið að endurskoðun þessara mála á þeim fáu mánuðum sem ég sat í starfi sem fjmrh., það er rangt. Hins vegar var hafin endurskoðun á þeim um leið og ný ríkisstjórn var mynduð sem hv. þm. Svavar Gestsson sat m.a. í. Þar var þetta ákvæði gert afdráttarlaust. Þangað geta menn rakið möguleikann á því að framkvæma það sem eigendur eða hluthafar í Sameinuðum verktökum hafa gert. Þetta var einfalt svar við mjög einfaldri spurningu. Ef menn leita að upphafinu ættu þeir hv. þm. sem stóðu að þessum breytingum, m.a. hv. þm. Svavar Gestsson, að líta í eigin barm. Hins vegar er ég honum alveg sammála um að endurskoða þarf ýmis atriði í þessu sambandi og þá ekki síst ákvæði um það sem nú er í lögum, að hægt sé að nota þetta útborgaða hlutafé þannig að af því séu hvorki goldnir eignarskattar né tekjuskattar. Þeim ákvæðum á að breyta og þeim ákvæðum verður að breyta og þeim ákvæðum mun núv. ríkisstjórn beita sér fyrir að verði breytt.