Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:22:00 (3154)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég held að það sé hyggilegt að ég segi hér nokkur orð vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns og blandi mér þess vegna í umræðuna á þessu stigi málsins enda beindi hann til mín fyrirspurnum, annars vegar vegna tilsjónarmanna og hins vegar vegna útborgunar á 900 millj. kr. til eigenda Sameinaðra verktaka.
    Fyrst sný ég mér að tilsjónarmönnunum. Hv. þm. spurði hvernig að því yrði staðið að ráða tilsjónarmennina svo að þeir næðu þeim árangri sem ætlast væri til. Í því sambandi vil ég segja frá því að miklu máli skiptir að mínu mati hvernig erindisbréf tilsjónarmannanna verða orðuð og mér finnst rétt að það komi hér fram að hugmynd fjmrn. er sú að efni þeirra bréfa, a.m.k. það sem er staðlað í bréfunum, verði borið undir Ríkisendurskoðun. Ákaflega miklu máli skiptir að í erindisbréfunum sé skýrt tekið fram um það hver sé ábyrgð tilsjónarmannsins annars vegar og forstöðumannsins og stjórnar hins vegar. Við búumst ekki við því sem betur fer að þurfa að grípa oft til þessa úrræðis en viljum lögfesta þetta ákvæði þótt við vitum og viðurkennt sé af lögfræðingum að stjórnvöld og viðkomandi ráðherrar geta gripið til slíkra úrræða. Hlutaðeigandi ráðherra, hver fyrir sig, verður að gæta þeirrar stofnunar sem heyrir undir ráðuneytið enda bera ráðherrar ábyrgð á stofnununum eins og svo glögglega kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar sem send var til viðkomandi nefndar, hv. efh.- og viðskn. þingsins. Ég held að það sé rétt sem lögfræðingar segja að þessi réttur var og er fyrir hendi en ég held að það sé mjög til bóta að hann sé lögfestur með þessum hætti sem þarna er gert til þess að vitað sé við hvaða skilyrði stjórnvöld geta gripið til þessa úrræðis og hvernig þau úrræði verða notuð.
    Þá kem ég að síðari hlutanum sem varð umræðuefni í andsvörum og svörum við andsvörum hér áðan og snertir þá frétt sem kom í Morgunblaðinu í dag um skattgreiðslur og hlutafjárútborgun Sameinaðra verktaka. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að lagaákvæðin sem snerta þetta mál eru gömul, reyndar frá árinu 1982 að ég hygg. Það liggur fyrir að þegar heimiluð var útgáfa jöfnunarhlutabréfa á sínum tíma var ákveðið að miða mætti við endurmat á eignum miðað við árslok 1978 og verðbreytingar síðan. Ég hygg að það hafi verið almenn samstaða um það mál.
    Áður en lengra er haldið vil ég geta þess að hér er ekkert nýtt á ferðinni því að í lok aprílmánaðar 1989, þegar fyrirrennari minn sat í ráðherrastóli og var fjmrh., þá gerðist nákvæmlega sami hluturinn, sem byggðist á nákvæmlega sömu lagafyrirmælum með nákvæmlega sama hætti. Greitt var út hlutafé með þessum hætti með því að hækka það og lækka aftur og greiða það út án skatts. Þessi fyrirrennari minn situr nú á þingi Íslendinga sem óbreyttur þingmaður, hv. 8. þm. Reykn. og nafn hans er Ólafur Ragnar Grímsson. Ég minni á þetta hér vegna þess að það gleymdist, þegar hv. 9. þm. Reykv. var að rifja upp sögu þessa máls og ýmis málsatvik, að hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, sat á ráðherrastóli þegar þetta var framkvæmt með nákvæmlega þessum sama hætti.
    Ég vil rekja þetta mál eða gera tilraun til þess til að við getum áttað okkur aðeins betur á því hvað þarna er á ferðinni. Ég hef sagt og það hefur komið fram að Sameinaðir verktakar er hlutafélag og þetta hlutafélag á hlut í Íslenskum aðalverktökum sem er sameignarfélag. Nú vill reyndar svo til að ríkið gerði kaup við Sameinaða verktaka og Regin, meðeigendur sína í Íslenskum aðalverktökum á stjórnartímabili síðustu ríkisstjórnar þar sem ríkisvaldið náði meiri hluta en tryggði um leið þessu sama fyrirtæki einokunaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli í lengri tíma en nokkurn tíma hafði verið gert áður. Það var auðvitað gert á ábyrgð síðustu ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem hv. 9. þm. Reykv. sat í sem menntmrh. Allt eru þetta þó aukaatriði málsins, sem hér hafa verið nefnd, en eru samt rifjuð upp vegna þess að svo virtist vera þegar hlýtt var á síðasta hv. ræðumann að þetta væri eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem núv. ríkisstjórn hefði svikist um að láta laga. Ég held að ástæða sé til þess, þegar menn rifja upp slíka hluti, að líta sér nær, átta sig á því að vera kann að þetta mál snertir fleiri en þá sem hann beinir spjótum sínum að.
    Ég hef rifjað það upp að þegar heimiluð var útgáfa jöfnunarhlutabréfa á sínum tíma var ákveðið að miða við endurmat á eignum. Í því sambandi var afstaða skattyfirvalda sú að meta ætti eignarhluta hlutafélaga í sameignarfélögum á skráðu stofnvirði. Erindi Sameinaðra verktaka um útgáfu jöfnunarhlutabréfa var úrskurðað með þeim hætti á árinu 1982. Til þess að vera ekkert að giska á hver hafi verið fjmrh. þá get ég alveg spurt hv. 9. þm. Reykv. hvort hann kannist við einhvern sem sat í sæti fjmrh. árið 1982. Forsrh. var dr. Gunnar Thoroddsen í Sjálfstfl., en hver sat í sæti fjmrh.? ( Gripið fram í: Heilbrrh. var Svavar Gestsson.) Já, ef hann vill ekki kannast við að þekkja þann mann þá skal rifja það upp fyrir honum því sá hét Ragnar Arnalds. Í hvaða flokki var Ragnar Arnalds? ( SvG: Er ráðherrann orðinn lasinn eða hvað?) Nei, nei. Ég hef nógan tíma, þetta er allt í lagi. Ég er að rifja upp sögukunnáttu hv. þm. vegna þess að hann virtist ekki muna eftir þessi þegar hann flutti sína ræðu áðan. En það eru aukaatriði málsins hvaða menn komu að þessu. Ég er aðeins að rifja þetta upp vegna þess að hv. þm. gaf í skyn að það væri núv. ríkisstjórn að kenna hvernig farið hefði með þessa fjármuni. (Gripið fram í.) Ef núv. ríkisstjórn ætti að snúa sér að þessum verkefnum frekar en öðrum . . .  (Gripið fram í.) --- Nú bið ég hv. þm. um að gefa ræðumanni tækifæri til að halda áfram. --- Svo gerðist það að Sameinaðir verktakar gáfu fyrir nokkru út jöfnunarhlutabréf umfram þau mörk sem ríkisskattstjóraembættið telur að verið geti skattlaus. Ríkisskattstjóraembættið tók sig til og skattlagði þessar útgreiðslur eins og um arð væri að ræða. Einn af hluthöfum Sameinaðra verktaka kærði þessa álagningu, lagði hana fyrir ríkisskattanefnd sem prófmál og niðurstaka ríkisskattanefndar sem kom á síðustu dögum síðasta árs, milli jóla og nýárs að ég held, var á þann veg að fallast á kröfu hluthafans og þar með að hafna afstöðu ríkisskattstjóra. Með öðrum orðum, æðsta úrskurðarvald í skattamálum hér á landi komst að þeirri niðurstöðu

að lögin sem tilgreindir ráðherrar höfðu sett á sínum tíma giltu með þeim hætti að þetta væri löglegt sem nú hefur átt sér stað. Í framhaldi af þessu --- mér þætti vænt um af því að ég er að eiga orðastað við hv. þm. að hann hlusti á mig því ég veit að honum veitir ekki af þekkingu á þessum málum. ( SvG: Þakka hógværðina.) Það var lítið, sömuleiðis, hv. þm. Í framhaldi af þessu gáfu Sameinaðir verktakar út jöfnunarhlutabréf og færðu hlutafé sitt þannig upp en ákváðu jafnframt að færa það aftur niður með því að greiða hluthöfum aftur út nokkurn hluta þess. Slík útborgun án skatts er í sjálfu sér ekkert ágreiningsmál heldur hitt hvað skattfrelsi jöfnunarhlutabréfanna nær langt og um það snýst þetta mál. Nákvæmlega eins og 28. apríl 1989.
    Málið er augljóslega álitamál og það er ekki hægt að fullyrða að þessi niðurstaða þýði skattaundanskot eða opni leið fyrir slíkt. Við skulum ætla og því hefur ekki verið á móti mælt að skattar hafa hingað til verið greiddir af hagnaði Íslenskra aðalverktaka sem safnast hefur upp í því fyrirtæki. Á það var einnig lagður eignarskattur eftir venjulegum reglum um mat á eignum.
    Auðvitað er alveg ljóst að með þessum úrskurði ríkisskattanefndar verður ríkið af ákveðnum tekjum miðað við þann úrskurð sem ríkisskattstjóri hafði áður sett fram. Enda hefði sá úrskurður þýtt að jafnvel hefði þurft að greiða tvisvar af arði sem var útborgaður. Það er mál sem við höfum áður rætt hér í þingsölum á yfirstandandi þingi og ætlaði allt um koll að keyra þegar það mál var í umræðunni.
    Þetta mál snýst með öðrum orðum um það hvort verið er að færa eign ákveðinna tiltekinna aðila úr ákveðnu hlutafélagi og í þeirra eigin hendur, sem auðvitað lækkar eignastöðuna í viðkomandi fyrirtæki en hækkar hana og bætir hjá viðkomandi aðilum sem eiga fyrirtækið, sem í þessu tilviki eru Sameinaðir verktakar, eða hvort þeir hafi nú þegar nýtt allan rétt sinn sem þeir hafa samkvæmt lögum til að gefa út jöfnunarhlutabréf. Þá er miðað við það hvert var stofnvirðið 1978 og það framreiknað með verðbreytingum. Um það snýst þetta mál.
    Ég hef þegar beðið starfsmenn í fjmrn. og þá sem starfa í skattakerfinu að kanna þetta mál mjög rækilega því auðvitað verð ég, sem fulltrúi skattgreiðenda og fulltrúi ríkissjóðs, að aðgæta hvort hér hefur að okkar áliti verið farið að lögum. Við hljótum að viðurkenna að ríkisskattanefnd er æðsti úrskurðaraðili í skattamálum. Eftir sem áður má láta reyna á það hjá dómstólum hvort rétt sé að farið. Lagabreyting, jafnvel reglugerðarbreyting, hefur ekki áhrif á þessa gjörð því að lögin gætu ekki haft afturvirk áhrif. Þessi mál eru til skoðunar í ráðuneytinu, þau eru til skoðunar hjá ríkisskattstjóra og engin ástæða er fyrir þingmenn, allra síst þingmenn sem voru ráðherrar í fyrrgreindum ríkisstjórnum, að koma hér upp og gefa í skyn að staðið sé að þessum málum með einhverjum sérstökum hætti sem vekur tortryggni. Það er aldeilis af og frá. Hv. þm. notar stundum orðalagið að verða sér til skammar en ég ætla ekki að nota þau orð um hann. En ég bið hann a.m.k. í fullri alvöru, í fullri einlægni að gá að sér áður en hann heldur lengra út á þá braut að telja að núv. ríkisstjórn hafi í þessu máli ekki gætt þeirra sjónarmiða sem hún á að gæta. Úrskurðurinn er tiltölulega nýkominn. Þetta mál er í vinnslu og það sem þarna gerðist var nákvæmlega það sama og gerðist fyrir tæpum þremur árum í valdatíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þetta vil ég að komi hér fram.
    Ég tel enga ástæðu til að draga fjöður yfir það að auðvitað eiga stjórnvöld að fylgjast með málum eins og þessum og grípa til viðeigandi aðgerða. Það ætla stjórnvöld að gera. En áður en málið hefur verið fyllilega skoðað er óþarfi að kveða upp dóma og allra síst ættu þingmenn að nánast óskoðuðu máli að bera stjórnvöldum á brýn að það sem hér hefur gerst sé þeim að kenna. Það er svo langt frá því. Þetta er spurning um túlkun á lögum, þetta er ekki spurning um annað. Auðvitað ber okkur öllum að fara að lögum og sjá til þess að skattalögum sé fylgt. En að halda því fram að þetta sé gert í skjóli Sjálfstfl. finnst mér ómaklegt í þessari umræðu og kannski ómaklegast af þeim hv. þm. sem sat í síðustu ríkisstjórn og reyndar líka í ríkisstjórninni 1980--1983.