Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:42:00 (3156)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér er ljúft að viðurkenna það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að auðvitað er ríkisskattanefnd æðsti úrskurðaraðili í skattamálum. Það að vera úrskurðaraðili þýðir að sá aðili starfar á vegum framkvæmdarvaldsins og auðvitað eru það dómstólar sem hafa æðsta dómsvald í þessum málum eins og öðrum slíkum deilumálum. Hafi ég sagt eitthvað annað þá hefur það verið sagt ranglega. Í öðru lagi tek ég alveg heils hugar undir það sem hv. þm. sagði, enda er hann manna fróðastur í skattarétti af hálfu þeirra alþýðubandalagsmanna, að það er álitamál og túlkunaratriði í skattalögum hvernig fara eigi að. Ég tek heils hugar undir það sem hann sagði um þetta atriði. Ég vil svara honum með því að segja að það er einmitt til skoðunar í ráðuneytinu nú hvort ekki sé ástæða til að láta reyna á það hjá dómstólum hvort úrskurður ríkisskattanefndarinnar stenst fyrir lögum að mati íslenskra dómstóla. Það mál er sérstaklega til skoðunar nú.