Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:45:00 (3158)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er í rauninni ekkert svar, virðulegi forseti. Þetta er málfundaræfing og ég held að hv. þm. hafi bara staðið sig vel miðað við þá stöðu sem hann er kominn í í þessu máli. Hann er að víkja frá kjarna málsins. Hann er að hverfa að allt öðru máli. Ég hef gefið málefnalegt svar við þeim spurningum sem hann bar fram um skattaleg málefni og aðalatriðið í ræðu hans áðan var að gera það tortryggilegt að verið væri að gera ráðstafanir í ríkisfjármálum á meðan við vildum ekki sækja þessar 900 milljónir hjá

þessu fólki. Þessu hef ég svarað málefnalega lið fyrir lið og rakið sögu málsins. Nú kemur hv. þm. með ný efnisatriði og segir að rannsaka eigi það hvernig þessi gróði hafi orðið til. Ég segi bara: Hann sat í ríkisstjórn í fjölda ár og af hverju rannsakaði hann þetta ekki? Hvernig stendur á því að síðasta ríkisstjórn veitt Íslenskum aðalverktökum einokunarleyfi á Keflavíkurflugvelli í fimm sinnum lengri tíma en áður hafði verið gert, eða í fimm ár í staðinn fyrir eitt ár í senn? ( SvG: Við skulum svara því fyrir þig.) Já, ég vona að því verði svarað.