Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:48:00 (3160)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Maður er orðinn hálfþreyttur á því að hlusta á hvern ráðherrann á fætur öðrum vitna til fortíðarinnar. Þeir virðast aldrei geta talað úr ræðustóli án þess að segja: Það sem hér gerist er ekki mér að kenna. Það er nánast orðinn vani hjá þeim eða það ætti frekar að kalla það óvana. Hann sagði að þetta væru allt saman gömul lagaákvæði og ekkert nýtt í því sem þarna hefði gerst og hefði oft komið fyrir áður. Mér þykir það ekki bæta málið neitt. Við erum að breyta í þessum bandormi mörgum gömlum lagaákvæðum, þar sem við erum að skerða rétt ellilífeyrisþega og aldraðra. Það er verið að skera niður í grunnskólum og fleira og fleira er verið að gera með þessum svokallaða bandormi sem við ræðum hér. Ekki vefst fyrir ríkisstjórninni að skera þar niður og koma með breytingar á þeim lögum. Það hefði því verið betra fyrir ríkisstjórnina að snúa sér að öðrum til þess að ná í fé í ríkissjóð. Það hefði verið betra að leggja strax skatt á fjármagnstekjur, setja annað skattþrep og fleira sem mundi frekar skerða kjör þeirra sem meira mega sín heldur en hinna sem minna mega sín. Þarna sýnist mér að komi berlega í ljós forgangsröð og áherslur ríkisstjórnarinnar. Þessi dæmalausi gjörningur, sem hefur átt sér stað, að Sameinaðir verktakar skuli geta greitt út 900 millj. kr. án þess að nokkur einasta króna fari í ríkissjóð sýnir að ríkisstjórnin hefur byrjað á öfugum enda í aðgerðum sínum. Og það bætir ekkert hennar stöðu þótt ákvæðin séu gömul.