Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:52:00 (3162)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því að lög munu ekki geta gilt um þetta atriði afturvirkt. En það breytir ekki því að ríkisstjórnin hefur ekki skoðað atriði sem þetta. Það hefur margoft verið talað um að leggja skatt á fjármagnstekjur og annað skattþrep. Það hefur verið talað um það. Nú upplýsir hæstv. fjmrh. að það sé verið að endurskoða þessi lög. Það þarf auðvitað að skoða þau vel og vandlega, en það virtist ekki þurfa langa skoðun að leggja fram það frv. sem við erum hér að ræða, þ.e. ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem verulega eru skert kjör þeirra sem minna mega sín. Ég held að ríkisstjórnin hefði fremur átt að skoða vel og vandlega það frv. og þá hefði hún kannski komist að því að það gengur alls ekki að leggja slíkt lagafrv. fram en skoða kannski heldur skemur skatt á fjármagnstekjur og annað skattþrep því ég held það sé búið að skoða það mál vel undanfarin ár og hefði ekki tekið langan tíma að leggja fram slíkt lagafrv.