Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:02:00 (3168)


     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál við 3. umr. um frv. til laga um

ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég ætlaði að hafa nokkur orð um I. kafla frv. og beina máli mínu til hæstv. menntmrh. Ég hafði einnig hugsað mér að minnast á það mál sem var reyndar rætt undir andsvari og hafði hugsað mér að eiga orðastað við hæstv. fjmrh. í því sambandi. Hann hefur nú gert grein fyrir sínum skoðunum á því máli, þessum 900 millj. sem Sameinaðir verktakar greiddu út, svo ég ætla ekki að hafa mörg orð um það mál. En ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er mjög óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að ganga fram með þeim hætti sem fram kemur í þessu frv. sem og fjárlögum á sama tíma og svo mikið fé liggur á lausu úti í þjóðfélaginu og menn geta velt sér upp úr fjármunum með þeim hætti sem fram hefur komið í fréttum í dag.
    Ég fór að lesa nánar enn og aftur I. kafla laganna og ég er ekki alveg sammála þeirri túlkun, sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. Svavari Gestssyni, að öll ákvæði til bráðabirgða kæmu aftur til framkvæmda eftir þetta ár, þ.e. 1. jan. 1993. Ég sé ekki betur en að með frv. séu þau öll felld úr gildi. Það er einungis 1. gr. sem kveður á um það að ákveðin ákvæði laganna skuli ekki koma til framkvæmda á árinu 1992. Þar er um að ræða í fyrsta lagi að nemendur í grunnskólum eigi ekki kost á málsverði á skólatíma. Ég er búin að marglýsa því að mér finnst einkennilegt að fella þetta úr gildi því þetta er hvort sem er ekki neinn kostnaður fyrir ríkissjóð að því er ég fæ best séð. Ég vildi gjarnan fá að spyrja hæstv. menntmrh. hvað áætlað er að muni sparast, ef ég nota það orð, fyrir ríkissjóð með því að fella þetta ákvæði úr 4. gr.
    Hæstv. menntmrh. hefur margoft lýst því að það gæti verið að ákvæði 46. gr. grunnskólalaganna, þ.e. 1. gr. þessa frv., geti ekki komið til framkvæmda á þessu almanaksári heldur á skólaárinu. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um ákvæði 46. gr., þ.e. um hversu langan tíma hvert barn á að hafa í skólanum, og þar stendur að þetta eigi að koma til ákvörðunar á næstu þremur árum. En ég skil þetta ákvæði svo að 1. jan. 1993 taki 46. gr. gildi, þ.e. þá verði ákvæði hennar fullgild og það eigi að fara nákvæmlega eftir henni frá og með 1. jan. 1993. Mér sýnist að með þeim heimildum sem hér er verið að veita hæstv. menntmrh. hafi hann einungis þessa haustmánuði til að spara, eins og hann kallar, en geti alls ekkert flutt það yfir á árið 1993 eins og hann hefur þó sagst ætla að gera. Alla vega hef ég útskrift af viðtali við hann í útvarpi þar sem hann lýsir því að það muni þurfa að flytja þetta yfir á árið 1993. Ég sé ekki að með þessu hafi hann nokkra heimild til þess.
    Það er þess vegna alveg óskiljanlegt hvers vegna í ósköpunum verið er að gera þessar breytingar á grunnskólalögunum þegar ljóst er að það verður nánast útilokað að framkvæma það og er að mínu mati óverulegur sparnaður sem með þessu næst þó mér þyki erfitt að nota orðið sparnað í þessu sambandi.
    Ég ætlaði líka að benda hæstv. ráðherra á að í ákvæði til bráðabirgða, 3. mgr. er talað um að ákvæði 35. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eigi að koma til framkvæmda á næstu fimm árum. Með því að fella þetta ákvæði út kemur ákvæði 35. gr. að fullu til framkvæmda um leið og þetta frv. er samþykkt, þ.e. að námsráðgjafar eiga að starfa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur. Ég er innilega sammála því að þetta eigi að gera hér og nú og þykir gott ef í staðinn fyrir það að þetta eigi að koma til framkvæmda á fimm ára tímabili eigi það að koma til framkvæmda nú þegar. Nú langar mig einnig til að spyrja hæstv. menntmrh. hvað sé áætlað að þetta muni kosta mikið á þessu ári af því að þarna hlýtur að þurfa að ráða marga námsráðgjafa til starfa.
    Í 3. gr. grunnskólalaganna segir: ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé einsetinn.`` Það var stefnt að því með setningu grunnskólalaganna árið 1991, 27. mars, að þetta ákvæði skyldi koma til framkvæmda á 10 ára tímabili. Með því að fella þetta ákvæði út úr lögunum, sem ég lít svo á að það sé fellt út algjörlega, þetta komi ekki aftur inn í lögin 1. jan. 1993, og er þá orðið mjög óljóst hvenær þetta ákvæði eigi að verða að veruleika, þ.e. hvenær grunnskólinn eigi að verða einsetinn. Ég óttast að þessi tími verði enn lengri en þau 10 ár sem áætlað var að þetta tæki, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Það var mín skoðun og reyndar allra þeirra sem sátu á Alþingi fyrir Kvennalistann og það er stefna Kvennalistans að þetta skuli gerast á miklu styttri tíma en 10 árum, en við féllumst þó á að það væri kannski í lagi að samþykkja þetta 10 ára tímabil og gerðum það

á síðasta þingi. En að fella algjörlega niður öll ákvæði í lögunum um hvenær að þessu skuli stefnt tel ég vera mjög mikið skref aftur á bak og langaði til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann hafi kannski hugsað sér að stytta þennan tíma eftir þetta ár eða hvort það sé ætlunin að þetta ákvæði falli varanlega út úr lögunum.
    Mig langaði líka til að spyrja hæstv. menntmrh. og ekki síst í ljósi þess sem kom fram í sjónvarpsþætti í ríkissjónvarpinu í gærkvöld þar sem hann talaði alltaf um að ætlunin væri að skerða vikulegan kennslutíma og fjölga nemendum í efstu bekkjum. Ég hjó eftir að talað var um 4.--10. bekk og þá eru einungis þrír bekkir eftir, þ.e. 1., 2. og 3. bekkur. Mér fannst einkennilegt að heyra að verið væri að tala um efstu bekkina. Þá hafði ég einhvern veginn hugsað mér kannski tvo til þrjá efstu, en það er meiri hlutinn af grunnskólanum sem á að lenda bæði í skerðingu á vikulegum kennslutíma sem og að fjölga í bekkjum. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en greinilega kemur fram í 3. gr. frv., að það er ætlunin að fjölga nemendum um tvo í 3.--10. bekk sem er mjög mikið. Það eru bara tveir bekkir þarna undanskildir. Og ef ég skildi hann rétt er meiningin að skerða vikulegan kennslutíma í 4.--10. bekk. Þessu vildi ég aðeins hnykkja á eftir þær umræður sem fóru fram í sjónvarpinu og reyndar hefur það komið fram hjá hæstv. ráðherra í þessari umræðu. En það var fyrst og fremst þessi skilgreining á efstu bekkjum sem mér fannst vera svolítið sérkennileg. Ég þarf varla að lýsa því hér enn og aftur hversu mikið ég er á móti þessum ákvæðum og hversu alvarleg skref aftur á bak ég tel að þessi ákvæði, sem hér er meiningin að lögleiða, séu fyrir grunnskólana og menntakerfið.
    Ég ætla mér ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegur forseti, að þessu sinni, svo oft hef ég rætt um þennan kafla frv. En mig langaði til að minnast á aðeins eina grein í viðbót því ég tel mig ekki þurfa að ræða aðrar greinar. Að vísu fáum við hér svör frá hæstv. heilbr.- og trmrh. síðar, sem er eitt af því sem við kvennalistakonur höfum gagnrýnt sérstaklega. En sú grein sem mig langaði sérstaklega að minnast á er 36. grein frv. eins og hún hljómar eftir 2. umr. Hefði ég gjarnan viljað fá álit annaðhvort hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. Mér er sama hvor þeirra er ef þeir gætu hlýtt á mitt mál. Ég sé að hæstv. forsrh. er í hliðarsal og e.t.v. gæti hann veitt mér svar við þeirri fyrirspurn sem mig langar til að bera fram. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að hæstv. ráðherrar verði í salnum.) Ég hefði til að byrja með haldið að það væri hæstv. forsrh. sem hefði svarað um þessa grein. En hæstv. fjmrh. hefur hins vegar mest talað um þessa grein, þ.e. um tilsjónarmennina, svo ég átta mig ekki alveg á hvor þeirra svarar því.
    Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. áðan að hann vitnaði, ef ég tók rétt eftir, til erindisbréfs sem er talað um í greininni, en þar segir, með leyfi forseta: ,, . . .  í samráði við ráðherra, eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni.`` Svo segir: ,,Ráðherra skal enn fremur í erindisbréfi tilsjónarmanna kveða skýrt á um ábyrgðarsvið þeirra.`` Það var þetta atriði sem ég hefði viljað gjarnan spyrja aðeins nánar um. Ég heyrði ekki betur en að í máli hæstv. fjmrh. hefði komið fram áðan að í því sama erindisbréfi yrði líka tekið á þeim vandamálum sem hljóta að koma upp varðandi stjórnendur fyrirtækjanna, þ.e. yfirmanna, forstjóra, sem og stjórna stofnananna. En ég get ekki skilið að það geti verið í erindisbréfi til þessara tilsjónarmanna. Að mínu mati er með því að setja tilsjónarmenn eins og er kveðið á um í þessari frumvarpsgrein verið að ýta þeim manni sem fyrir er, þ.e. forstöðumanni, til hliðar. Það er að því sem mín spurning beinist --- ég ætlaði að leggja spurninguna fyrir hæstv. fjmrh.: Hvernig á að fara með yfirmenn? Eiga þeir þá að fara í frí? Eiga þeir að hætta á meðan? Eða eiga þeir að taka að sér almenn skrifstofustörf? Eða hvernig er eiginlega ætlunin að þetta skuli fara? Það gildir það sama um stjórn stofnananna sem í mörgum tilvikum eru þá kosnar á Alþingi eða í e.t.v. öllum, en eins og kemur fram í þessu ákvæði segir, með leyfi forseta: ,,Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds``. Ég sé ekki betur en að þarna sé um að ræða allt það sem er á verksviði forstöðumanna. Þannig er verið að ýta þeim til hliðar með þessu ákvæði að mínu mati.
    Á fundi efh.- og viðskn. í morgun sagði Sigurður Þórðarson vararíkisendurskoðandi að verið væri í raun að fela þessum tilsjónarmanni stjórn fyrirtækisins og taka völd af stjórnendum fyrirtækisins, sem sagt að ábyrgð og verkefni fari frá forstöðumanni til tilsjónarmanna. Síðan sagði hann: ,,Hvað svo sem verður um þá.`` Þetta sagði hann eftir fyrirspurn frá mér. Það var hans mat, sem er það sama og ég hef hér flutt, að það væri í raun verið að taka völd og ábyrgð af þeim sem fyrir væru í fyrirtækinu, þ.e. yfirmönnunum. Þá velti ég því fyrir mér: Hvernig í ósköpunum á að leysa þetta sérkennilega vandamál? E.t.v. er einfaldast að gefa viðkomandi yfirmanni frí í þann tíma sem tilsjónarmaðurinn er þarna. En mér er ekki alveg ljóst hvernig á að fara með stjórn fyrirtækisins.