Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 00:31:00 (3183)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að árna hæstv. heilbrrh. allra heilla á þessum merkisdegi í lífi hans, en hann er fimmtugur í dag eins og flestir hv. þm. vita. Sem ögn eldri manneskja vil ég minna á að á slíkum tímamótum er hollt að setjast niður í ró og hugsa sinn gang, gera upp við sig hvort menn hafa varið lífi sínu vel, hvort þeir umgangast æskilega einstaklinga og taka ofurlítið til. Okkur hættir til á þessum tímamótum eða við höfum tilhneigingu til að fara að velja og hafna en ekki láta reka á reiðanum og vera í vondum félagsskap sem við innst inni vitum að er ekki æskilegur.
    Þær óskir á ég bestar til hæstv. ráðherra að hann geri nú slíkt, að hann hugi ofurlítið að því hvernig hann ver tíma sínum í framtíðinni. Og ég vona að hæstv. forseti fyrirgefi mér. Þó að þetta sé kannski ekki beinlínis andsvar þótti mér rétt að sýna hæstv. ráðherra þessa vinsemd.
    Hæstv. ráðherra vék að því að hann hefði skilið mál mitt í andsvari í gær, að ég hygg, á mjög annan hátt en ég alla vega ætlaði að það skildist. Þingmönnum verður að fyrirgefast þó þeir séu kannski ekki skýrir í hugsun. Nú erum við t.d. búin að vera hér í 15 klst. og þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir heldur er það orðið algengara en ekki að vinnudagur okkar sé á þessa lund. Vel má því vera að ég hafi ekki verið nógu skýr í máli mínu. En það er nú einu sinni svo, hæstv. ráðherra, að þegar kemur að kjörum sjómanna er alltaf eins og Íslendingar verði ofurlítið feimnir. Ég tók dæmi af sjómanni, mér harla kunnum, eftir 54 ára sjómennsku. --- Og nú bið ég hæstv. ráðherra að hlýða á mál mitt og vera ekki að kyssa hv. þm. á meðan ég er að tala. Ég vil að þetta verði dregið frá ræðutíma mínum, hæstv. forseti, þetta kossaflens í ráðherranum. ( Heilbrrh.: Vilt þú ekki fá koss líka?) Ég get ekki gert það á meðan ég er að tala. --- Það sem ég var að reyna að segja, hæstv. ráðherra, var þetta: Gamlir sjómenn, eftir 54 ára sjómennsku horfa fram á lífeyri upp á 26 þús. kr. Það var þess vegna einhvern tíma ákveðið að gera þeim léttara að fara í land og þess vegna var efnt til lífeyris sjómanna við 60 ára aldur. En nú mega þeir ekki hafa yfir 67 þús. kr., þá skal það skerðast. --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. --- 900 milljónirnar sem greiddar voru í gær eða fyrradag þurfa hins vegar ekkert að skerðast. Það er þetta óréttlæti sem særir hvern mann með réttlætiskennd.
    Að lokum aðeins ein spurning, hæstv. ráðherra, sem ég held að sé alveg ástæða til að spyrja og ég minnist ekki að hafi verið spurt um og það er að í 44. gr. almannatryggingalaga segir svo að elli- og örorkulífeyrisþegar skuli fá greidd 75% af tannviðgerðum. Nú spyr ég: Gildir það líka fyrir þá sem hafa skertan örorku- og ellilífeyri? Hefur verið hugað að því?