Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 00:36:00 (3185)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég byrja á að óska hæstv. heilbrrh. til hamingju með afmælið,

óska honum langra lífdaga og viðunandi ellilífeyris og góðs heilbr.- og trmrh. þegar hann verður orðinn gamalmenni. Það er líka góður siður á tímamótum, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir benti á áðan, að menn setji sér tiltekin kaflaskil í lífi sínu og ég held að það sé hollt að minnast þess sem amma mín sagði oft við unga sveina, sem hún hafði á sínum vegum á sumrum, að menn ættu jafnan að segja satt, en þó alveg sérstaklega að forðast lygina á afmælinu sínu. Og ég skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að vanda sérstaklega vel til þess langa kafla af ævi sinni sem hann á vonandi fram undan og betur en hann gerði fram að þeim tíma að hann varð fimmtugur.
    Hæstv. ráðherra sagði að það yrði byggt á framtölum 1990 við tekjuskerðinguna. Það þýðir að það verður miðað við miklu hærri tekjur við skerðingu ellilífeyrisins hjá þeim sem t.d. hafa náð ellilífeyrisaldri á síðasta ári en þeir hafa haft á næstliðnum mánuðum. Hér er bersýnilega um ósanngjarna ákvörðun að ræða og ég skora á hæstv. ráðherra að fara ekki svona í hlutina heldur að taka sérstakt tillit til þessa fólks og miða við að skerðingin þar komi ekki til framkvæmda fyrr en síðar.
    Í annan stað verð ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða lagaheimild er til til þess að fella niður ellilífeyri hjá þeim ellilífeyrisþegum sem ekki skila því tekjuvottorði sem hann nefndi áðan? Og ég vil biðja hann um að nefna þessu stað í lögum um almannatryggingar. Hér er bersýnilega verið að leggja á skatta aftur í tímann, það er augljóst mál. Hér um afturvirka skattlagningu á tekjum að ræða. Hér er um að ræða mál sem Sjálfstfl. lagði t.d. áherslu á að væri sérstaklega gagnrýnivert af hálfu vinstri stjórnarinnar 1978--1979. Hér er verið að fara inn á þá braut að því er varðar tekjur en þá var um að ræða eignir.
    Ég hef því miður ekki tíma til að svara fleiri atriðum í ræðu hæstv. ráðherra. Hann vitnaði í Svein í Firði og sagði frá því þegar hann sagði þessa frægu setningu: Lygi er lygi þó hún sé ljósmynduð. Þetta var nákvæmlega sama setningin og hæstv. ráðherra notaði um sjónvarpsstöðvarnar sem hafa verið að birta myndir af ungu fólki að undanförnu. Lygi er lygi, sagði hæstv. ráðherra, þó hún sé ljósmynduð.