Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 01:26:00 (3189)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Það fer að verða lítið gaman að taka til máls um heilbrigðis- og tryggingamál þegar hinn móralski krossfarariddari er horfinn úr sæti sínu og ekki hægt að heimfæra upp á hann prívat og persónulega þau svör sem hann gaf við spurningum sem fram hafa verið bornar af þingmönnum við langar og miklar umræður um heilbrigðis- og tryggingamál í tengslum við þennan bandorm. Ég vakti athygli á því við atkvæðagreiðslu í 2. umr. um bandorminn að hæstv. heilbrh.- og trmrh. hefði alveg látið hjá líða að taka til máls í 2. umr. Hann hefði einungis tvisvar talað um þingsköp og tvisvar farið upp í andsvörum en aldrei tekið til máls og fjallað um þær breytingar sem verið var að leggja til í 2. umr. á örorkulífeyri og ellilífeyri. Í þeirri umræðu fékk hann ótal spurningar og hann leitaðist við að svara einhverjum þeirra áðan en alls ekki öllum.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. vék að hátekjuskattinum og fannst lítið til hans koma, sagði að hann gæfi í besta falli 400 millj. kr. ef um væri að ræða samsköttun hjóna og sagði: Þetta eru ekki fjárhæðir sem skipta sköpum fyrir ríkissjóð. Ég held að flestir séu nú sammála um að 400 millj. kr. skipta ekki sköpum fyrir ríkissjóð, en þessar 400 millj. kr. eru ekkert verri en 400 millj. kr. sem teknar eru úr barnabótunum. --- Þetta er vitanlega ekki rétt hjá mér, þetta eru vitanlega miklu betri 400 millj., en þær gera sama gagn hjá ríkissjóði og þær 400 millj. sem kæmu úr barnabótum og þær gera sama gagn hjá ríkissjóði og 400 millj. sem teknar eru úr sjúkratryggingum, hundruð milljóna sem teknar eru úr ellilífeyri o.s.frv. Svona mætti lengi telja þannig að menn ættu ekki að fúlsa við þessum peningum fremur en öðrum ef verið er að leita dauðaleit að einhverjum aurum.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur margstagast á því að þjóðarbúið hafi orðið fyrir miklu áfalli, þar tapist 20 þús. millj. kr. segir hann. ( GHelg: Því er spáð.) Já, 20 þús. millj. kr. tapi þjóðarbúið ef sú spá gengur eftir. Og 20 þús. millj. kr. eru auðvitað miklir peningar, ég tala nú ekki um fyrir þá sem þekkja tölur með allmiklu færri núllum en þarna er um að ræða. En þetta er þó, ef við tökum þetta sem hlutfall, um 6% samdráttur í þjóðartekjum og sá samdráttur getur út af fyrir sig verið alvarlegur. En eins og margsinnis hefur verið bent á hér er þetta engin ,,katastrófa``, ekki frekar en 6% samdráttur í tekjum á vel efnuðu heimili sem hefur haft úr miklu að moða í mörg ár, 6% samdráttur í tekjum slíks heimilis væri engin ,,katastrófa``. Spurningin er bara hvernig er brugðist við.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði mikið úr frv. fyrrv. heilbr.- og trmrh., þ.e. forvera síns í því embætti, og hélt því fram og sagði að þetta væru engin handabakavinnubrögð hjá sér í þessum málum, ekki frekar en hjá fyrrv. ráðherra. Mér finnast þetta satt best að segja afskaplega lítil rök og ég fæ t.d. ekki séð hvað mér kemur sá samanburður við. Hvað kemur mér sá samanburður við hvort þetta eru sömu handabakavinnubrögð og áður voru? Það eru engin rök. Menn verða að rökstyðja hvað þeim sjálfum finnst, hvað þeim finnst rétt að gera, hvað þeim finnast góð vinnurögð, en ekki vísa til einhverrar fortíðar.
    Þá sagði hæstv. heilbr.- og trmrh. að það hefði aðeins verið gerð ein efnisbreyting á frv. í heilbr.- og trn. og taldi það til marks um að þetta hefði ekki verið illa unnið af sinni hálfu og ekki hroðvirknisleg vinnubrögð. Það kann vel að vera að það hafi aðeins verið gerð ein efnisbreyting, en það voru gerðar ótal formbreytingar, líklega einar sjö, á tillögunum sem inn í nefndina komu. Og það segir manni auðvitað að málið var ekkert fullunnið að það skuli þurfa að gera sjö formbreytingar vegna þeirra tillagna sem inn í nefndina komu og voru þó ekki mjög fjölbreytilegar. Það segir manni að málið var ekki mjög vandvirknislega unnið, það var ekki farið vel í gegnum það áður en það kom inn í nefndina.
    Það stakk mig aðeins sem hæstv. ráðherra sagði um samráð við Tryggingastofnun. Hann sagðist fullyrða að það hefði verið haft samráð. Allt annað var okkur sagt í heilbr.- og trn. og í Tryggingastofnun ríkisins hefðu menn fengið allra manna síðast að vita af þeim breytingum sem til stóðu. En heilbrrh. sagði að það hefði ekki verið haft samband við alla einstaklinga og fyrir því geta verið ástæður, sagði hann. Fyrir því geta verið ástæður. ( ÓÞÞ: Og vandaði sig mjög.) Og vandaði sig mjög þegar hann sagði þetta. Mér finnst liggja í þessum orðum ákveðnar dylgjur í garð starfsmanna í Tryggingastofnun ríkisins því að þeir sem komu á fund nefndarinnar voru deildarstjórar í þeirri stofnun sem munu þurfa að vinna eftir þeim reglum sem verið er að setja og afgreiða út lífeyrinn. Mér finnst hæstv. ráðherra skulda þingheimi einhverja skýringu á því af hverju hann lagði svo mikla áherslu á að það kynnu að vera ástæður fyrir því að ekki var haft samband við þessa tilteknu aðila í Tryggingastofnun.
    Ég ætla að lýsa því yfir að ég fagna því að það skyldi loksins nást út úr heilbr.- og trmrh. yfirlýsing um að það sem hann væri að gera og þeir í heilbr.- og trmrn. væri eingöngu að framkvæma þá ákvörðun sem fjárlög leggja á þá, þ.e. þeir væru að ná sér í aura, þeir væru að leita að aurum. Það er engin réttlætisbarátta, það er engin barátta fyrir jöfnuði og réttlæti sem í því felst að leita sér að aurum þar sem þeir eru auðfengnir og auðfundnir. Ég fagna því að hann skuli hafa viðurkennt að þannig lægi í þessum málum.
    En ég sagði í upphafi míns máls að trmrh. hefði ekki svarað öllum mínum spurningum og ég ætla að nefna nokkrar sem hann svaraði ekki. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort hjón fengju þá réttarbót í tekjutryggingunni sem boðuð er í tengslum við skerðingu á ellilífeyri, með öðrum orðum: það á að meðhöndla tekjur hjóna hvers um sig þegar fundin er út skerðing á ellilífeyri, þ.e. hvort hann skerðist. Til þess að hjón fái tekjutryggingu eru tekjur meðhöndlaðar sameiginlega og tekjutrygging hjóna er lægri en einstaklinga. Ég spurði að því hvort þetta boðaði að það yrði gerð sams konar breyting, sams konar réttarbót hvað varðaði tekjutryggingu hjóna og ég hef ekki fengið neitt svar við því hér. Sé slík réttarbót boðuð kostar hún umtalsvert fé. Ég mundi fagna því að hjón væru meðhöndluð sem einstaklingar, en það kostar umtalsvert fé og það væri þá ástæða til að fá að vita hver sá kostnaður er eða hvort þetta má yfirleitt kosta nokkuð, hvort á þá bara að lækka tekjutrygginguna á móti því að mér virðist sem ekkert megi kosta neitt í þessu kerfi, ekki heldur réttarbæturnar.

    Þá spurði ég að því hvort það væri ekki einhver misskilningur eða rangar forsendur í útreikningi heilbr.- og trn. á þeim 14,5 millj. kr. sem þeir áætla sér vegna þess að um 100 öryrkjar mundu missa örorkulífeyri sinn vegna tekna. Því er nefnilega þannig háttað, og ég útskýrði það held ég nokkuð ítarlega, að ef menn eru metnir 75% öryrkjar vegna sjúkdóma þurfa þeir að koma til endurmats annað hvort ár. Hafi þeir náð að skapa sér fastar tekjur sem eru þá yfir skattleysismörkum er örorka þeirra metin niður í 65% þannig að það ætti í sjálfu sér enginn öryrki vegna sjúkdóms að vera með yfir 114 þús. kr. mánaðartekjur. Sá hinn sami ætti að vera kominn niður í 65% örorku samkvæmt reglum Tryggingastofnunar. Með öðrum orðum: Þeir 100 öryrkjar sem menn eru að tala um að fái á sig skerðingu og reikni sér það til tekna séu allir í raun öryrkjar af völdum slyss og sé það svo mun þeirra lífeyrir ekki skerðast vegna þess að skerðingin á ekki að ná til þess hóps. Við þessu fékk ég engin svör heldur.
    Ég spurði hæstv. ráðherra að því að hvaða leyti sparaðar tekjur fyrri ára væru eðlisólíkar útborguðum tekjum í ár, af hverju væri réttlætanlegra að skerða ellilífeyri vegna útborgaðra atvinnutekna í ár en vegna uppsafnaðra tekna sem liggja í lífeyrissjóðum, hver væri eðlismunurinn þar á. Við þessu fékk ég ekkert svar.
    Ég spurði líka af hverju allur grunnlífeyrir væri ekki tekjutengdur, líka mæðra- og feðralaun, ekkna- og ekklabætur o.s.frv. Við þessu fékk ég heldur ekkert svar. Ég var með öðrum orðum að fiska eftir hver grunnhugmyndin væri í þessu, hvert prinsippið væri. Við því fékk ég ekkert svar.
    Þá spurði ég út í reglugerð sem nýsett er í ráðuneytinu og fjallar m.a. um að fólk skuli borga 1.500 kr. gjald á göngudeildum og ég spurði hvort ekki væri ástæða til að koma inn í reglugerðina heimild til að fella þetta gjald niður, m.a. á göngudeildum geðdeilda og göngudeild barna- og unglingageðdeildarinnar á Dalbraut, vegna þess að þangað er fólk sett nauðugt og þarf að greiða fyrir þá nauðung sem er satt að segja mjög sérkennilegt.
    Ég spurði þá líka hvernig á því stæði að það væri byrjað á, þegar teknar væru greiðslur fyrir aðgerðir, glasafrjóvgun en ekki hugsanlega einhverju öðru.
    Í gærkvöld sat ég í sjónvarpsþætti ásamt hæstv. heilbr.- og trmrh. og þar fór hann mikinn eins og hér og ,,móralíseraði`` yfir þeim sem þar sátu með honum og þjóðinni allri og ég verð að segja að ég er satt að segja orðin dálítið þreytt á þessum ,,móralíseringum`` hæstv. ráðherra. Hann segir að þetta verði að gera, þessi niðurskurður verði að gerast núna til þess að hægt sé að skila einhverju velferðarkerfi til barna okkar. Við megum ekki velta byrðunum og skuldunum af okkar gerðum yfir á börn okkar, segir hæstv. heilbr.- og trmrh. Og á það hefur verið bent með hvaða hætti hann ætlar nú að koma í veg fyrir að þetta gerist. Hann ætlar sem sagt að velta kostnaðinum yfir á ungt fólk á barneignaaldri, fólk með ung börn, á aldrinum 20--40 ára, og hann ætlar að velta þessu á þá sem eru komnir yfir 67 ára aldur og fá bætur út úr tryggingakerfinu. Það er öllum ljóst að hæstv. ráðherra er fæddur árið 1942, hann varð fimmtugur núna. Ráðherrann hefur verið líklega 19 ef ekki 20 þing. ( ÓÞÞ: Þetta er stríðsframleiðsla.) Þetta er stríðsframleiðsla, segir hinn vestfirski þingmaður. Það hefur kannski eitthvað með aldurinn að gera, en eins og fyrr segir: Ráðherrann er nýorðinn fimmtugur. Og þessi kynslóð, sem er einmitt á þessum aldri, ég vil leyfa mér að segja á aldrinum frá 40 ára upp í 60--70 ára, er kynslóðin sem fór í gegnum háskólanám án þess að borga verðtryggingar á námslánin sín. Þetta er kynslóðin sem keypti sér húsnæði og skuldir hennar brunnu upp í verðbólgunni og þessi kynslóð var fljót að eignast sitt húsnæði. Þetta er kynslóð sem er búin að koma börnum af höndum sér. Og nú segir þessi kynslóð við fólk á aldrinum 20--40 ára: Þið skuluð borga fulla verðtryggingu af námslánunum ykkar og þið skuluð borga vexti. Þið skuluð borga fulla verðtryggingu og háa vexti af húsnæðislánunum ykkar. Við ætlum að skerða hjá ykkur barnabæturnar og við ætlum að rýja gamla fólkið líka, sem missti allt sitt sparifé í verðbólgunni, við ætlum að ná af því líka. Mér finnst þetta í rauninni óþolandi siðaboðskapur af þessari kynslóð til minnar kynslóðar, því ég er einmitt á þeim aldri að hafa fengið allar þessar verðtryggingar yfir mig, og til þeirrar kynslóðar sem er komin yfir sjötugt. Mér

finnst tímabært að þessir menn fari að finna einhverjar leiðir til að taka þetta af sjálfum sér.
    Það er þá kannski ástæða fyrst ég er komin hér í ræðu minni að minnast aðeins á þessar rúmu 900 millj. sem hafa verið gerðar að umtalsefni í kvöld og munu nú verða greiddar út til hluthafa í Sameinuðum verktökum. ( GHelg: Það er búið að því.) Já, og búið að því reyndar að afhenda þeim ávísanirnar. Og eftir því sem manni skilst er þar um skattfrjálsan gróða að ræða eða hagnað.
    Þegar ég vann á blaði nokkru árið 1990 var ég fengin til þess m.a. að skoða svolítið Íslenska aðalverktaka og Sameinaða verktaka. Ég var komin aðeins af stað með það. Ástæðan fyrir því að ég var fengin til þess var að á þeim tíma ákvað hæstv. þáv. og núv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson að greiða út úr Íslenskum aðalverktökum um 2 milljarða kr. Sameinaðir verktakar fengu í sinn hlut 1.340 millj. Reginn hf. fékk 670 millj. í sinn hlut á þessum tíma. Það sem gerðist þá var að á hluthafafundi í Sameinuðum verktökum kom fram tillaga um að auka hlutaféð í fyrirtækinu þá um 1.340 millj. kr. og greiða hluthöfunum síðan út allt að 2,1 milljarði kr., 2.100 millj. kr. Þá lá þessi tillaga fyrir og hún hafði ekki hlotið afgreiðslu og ég hefði sjálfsagt fjallað um afgreiðslu þess máls ef ekki hefði viljað svo undarlega til að stjórnarformaður hjá útgáfufélagi því sem gaf út þetta blað ákvað að reka ritstjórnina sem ég var þá starfandi við. Og það er kannski líka tilviljun að þessi stjórnarformaður var þáv. aðstoðarmaður hæstv. utanrrh. og núv. aðalstjóri eða ætli það heiti ekki forstjóri í Íslenskum aðalverktökum og varð það einmitt um það leyti. Ekki veit ég hvort þetta tengist nokkuð. Ég ætla ekkert að segja það. En þá var þessu fyrirtæki, Sameinuðum verktökum hf., fært á silfurfati af þáv. og núv. utanrrh. 1.340 millj. kr. og síðan hafa menn auðvitað verið að vandræðast með hvernig þeir ættu að koma þessu í hendurnar á hluthöfunum. Og þeir hafa fundið leiðina. Þeir hafa sem sagt gefið út jöfnunarhlutabréf og ætla síðan að greiða sér út um 900 millj. kr. Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur um hvernig þetta fé er tilkomið. Það er auðvitað tilkomið í gegnum einokunaraðstöðu Íslenskra aðalverktaka á öllum framkvæmdum fyrir herinn. Þannig er þetta tilkomið og auðvitað hefur fé sambærilegt við þetta aldrei verið lagt inn í þetta fyrirtæki. Það er alveg ljóst eða ég ætla a.m.k. að leyfa mér að halda því fram hér.
    En það hefur margt skrýtið gerst einmitt á hlutabréfamarkaðnum á undanförnum árum og ekki síst kannski árið 1990. Í ársbyrjun 1991 birtist grein í Frjálsri verslun sem einmitt ber yfirskriftina: ,,Þetta var indælt ár. Dæmi um hagnað á hlutabréfamarkaði árið 1990.`` Og svo segir í undirfyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Fyrirtæki og einstaklingar njóta gífurlegs hagnaðar af hlutabréfum á Íslandi árið 1990. Hér eru nefnd nokkur dæmi sem gefa vísbendingu um að árið hefur verið hlutabréfaeigendum einkar gjöfult.`` Og það segir í inngangi að fréttinni:
    ,,Dæmi eru um gífurlegan hagnað af hlutabréfaeign á árinu 1990 hér í landi. Þannig hækkuðu hlutabréf SÍS í Olíufélaginu hf. um 785 millj. kr. og hlutabréf Eimskips í nokkrum félögum hækkuðu um rúmar 700 millj. Hér er um raunverulegan hagnað að ræða því að markaður er fyrir þau hlutabréf sem um er að ræða og meiri eftirspurn eftir þeim en framboð. Þess vegna væri unnt að selja þau á því verði sem hér er reiknað með, gegn staðgreiðslu, og því eru þetta raunveruleg og óumdeild verðmæti.``
    Það eru tekin hér nokkur dæmi um hagnað, þ.e. dæmi um hagnað af sölu hlutabréfa. Það er tekið fyrirtækið H. Benediktsson hf. og þar segir:
    ,,Þetta fyrirtæki er stór hluthafi í m.a. tveimur félögum þar sem hefur orðið mikil hækkun hlutabréfa á árinu 1990. Litið er á hækkanir í þessum tveimur félögum, Skeljungi og Sjóvá -- Almennum, en hækkunin nam samtals 137 millj.``
    Það er talað um Hval og sagt:
    ,,Hér er tekið tillit til hluta Hvals í þremur félögum. Bréf þeirra í Olíufélaginu hækkuðu um nær 40 millj. kr., tæpar 190 millj. í Granda og rúmar 25 millj. í Eimskip. Alls 255 millj. í þessum þremur fyrirtækjum`` á þessu eina ári.
    Og það eru teknir einstaklingar og einn af þeim er Halldór H. Jónsson, ,,stjórnarformaður Íslands``. Þar segir:

    ,,Hlutabréf Halldórs H. Jónssonar, stjórnarformanns Eimskips, og eiginkonu hans í Eimskip hækkuðu um 95 millj. kr. á þessu tæpa ári. Hlutabréf hans í Skeljungi hækkuðu um rúmar 19 millj. Hækkun nam því samtals 114 millj. í þessum tveimur fyrirtækjum, eða um 10 millj. kr. á mánuði að meðaltali`` og margur kæmist nú af með minna, það verð ég nú að segja og vona að hv. þm. séu sammála mér um það.
    En þetta vil ég taka til marks um að það eru víða peningar í þessu samfélagi og við skulum ekki tala alltaf eins og allir hangi á horriminni hér. Þeir gera það ekki. Það eru víða til peningar og þess vegna er það spurningin þegar að kreppir eins og núna hvar á að taka féð. Það þarf vissulega að taka það einhvers staðar, en hvar á að taka það? Það á a.m.k. ekki að byrja á því að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er ekki stórmannlegt.