Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:30:00 (3193)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Í kvöld átti ég þess kost að sitja fund í forsetaherbergi sem varaformaður þingflokks Alþb. Þar var óskað eftir því af formanni þingflokks Alþfl. að það yrðu skapaðar aðstæður til þess að hæstv. heilbrrh. gæti komist inn í umræður tímanlega og með skikkanlegum hætti vegna þess að hann þyrfti að fara utan í fyrramálið eða núna á eftir af persónulegum, skiljanlegum ástæðum. Stjórnarandstaðan féllst á þessa ósk og ég taldi það fyrir mitt leyti sjálfsagt mál. Mál þróuðust hins vegar þannig að hæstv. heilbr.- og trmrh. tók til máls tuttugu mínútur yfir ellefu eða svo og talaði fram undir klukkan hálfeitt. Fór með óvenjulegum árásum að einstökum þingmönnum og málflutningi þeirra. Hann réðst að fjölmiðlum fyrir skýringar þeirra á skerðingu ellilífeyris, gagnrýndi myndbirtingu sjónvarpsstöðvanna sérstaklega, réðst sérstaklega að hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir orð sem hún lét falla fyrr í þessari umræðu í dag, fullyrti að það gengi mjög vel að ganga frá málum að því er varðar skerðingu á ellilífeyri þó svo að vitað sé að framtöl liggi ekki fyrir, fór með ósæmilegar dylgjur um starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins og lét að því liggja að þeir væru ósamstarfshæfir. Þess vegna hefði hann kosið að hafa aðeins samband við suma starfsmenn stofnunarinnar en ekki alla og það var bersýnilegt að hann átti þarna við yfirmenn lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins.
    Eftir að ráðherra hafði flutt þessa ræðu hafa staðið yfir umræður um nokkurt skeið og t.d. hafði ég hugsað mér að eiga orðastað við hæstv. heilbr.- og trmrh. og svara ýmsum af þeim ásökunum sem hann hafði uppi í minn garð í framhaldi af þeirri ræðu sem ég flutti fyrr í kvöld. Í stað þess að taka þátt í umræðum, í stað þess að koma fram með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið af því að við vildum skapa svigrúm fyrir umræður kaus ráðherrann að víkja af vettvangi á miðri nóttu. Nú hefur umræðan staðið um tveggja tíma skeið án þess að ráðherrann væri viðstaddur og mér hefur verið tjáð að hann sé farinn og

hyggist ekki koma aftur í dag eða á morgun.
    Ég tel, herra forseti, að þessi framkoma hæstv. heilbr.- og trmrh. sé afskaplega óeðlileg í garð þingsins vegna þess líka að þetta er 3. umr. málsins og þetta er fyrsta ræðan sem hæstv. ráðherra kýs að halda um þetta mál --- fyrsta og eina ræðan. Og til að bæta gráu ofan á svart svarar hann ekki fyrirspurnum sem bornar voru fram í andsvaratíma, m.a. frá hv. þm. Finni Ingólfssyni og vafalaust fleirum sem nýttu sér andsvarsréttinn.
    Ég tel að það sé alveg augljóst mál, hæstv. forseti, að stjórnarliðið hefur engan áhuga á að ljúka þeirri umræðu sem nú stendur yfir með eðlilegum hætti. Ég tel að það sé alveg augljóst mál og hafi komið fram í nótt að stjórnarliðið sýnir stjórnarandstöðunni það virðingarleysi að það er tæplega ástæða fyrir okkur til þess að vera hér í alla nótt án þess að geta rætt við þá ráðherra sem sérstaklega hafa blandað sér í umræðurnar og þá alveg sérstaklega hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel afar vafasamt að það þjóni nokkrum tilgangi að halda áfram af minni hálfu alla vega umræðum við þessar aðstæður. Ég segi líka: Það verður bið á því að ég sjálfur a.m.k., hvað sem öðrum líður, fallist á sanngjarnar óskir sem kunna að verða bornar fram fyrir hönd hæstv. heilbr.- og trmrh. Sú lítilsvirðing sem hann hefur sýnt okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar er algjörlega óþolandi í þessari stofnun og hann þarf örugglega öflugri talsmenn til að bera fram óskir fyrir sig framvegis en hv. formann þingflokks Alþfl. sem gerði það að af myndarskap og sanngirni í kvöld á fundi þingflokksformanna og við féllumst tafarlaust á óskir hans.
    Hér er um að ræða þannig löguð kaflaskipti í vinnubrögðum á Alþingi að ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti: Ég tel það engum tilgangi þjóna af minni hálfu að taka þátt í umræðu sem hæstv. heilbr.- og trmrh. vanvirðir með þessum hætti.