Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:49:00 (3198)

     Össur Skarphéðinsson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Það er nokkuð erfitt að taka til máls þegar menn hafa verið að ræða um fæðingarþyngd ísfirskra sveinbarna fyrir hálfri öld, sérstaklega þegar heilbrrh. er fjarstaddur. Að öðru leyti vil ég segja að ég skil vel mæðu og pirring hv. þm. Finns Ingólfssonar yfir því að hafa ekki fengið fullsvarað þeim spurningum sem hann beindi til heilbrrh. sem nú er horfinn af vettvangi. Ég er eigi að síður þakklátur fyrir þann skilning sem samt sem áður gætti í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar og vek sérstaka eftirtekt á því að hann fór ekki fram á það að heilbrrh. væri sóttur.
    Ég vek líka sérstaka eftirtekt á því að enginn af viðstöddum þingmönnum Kvennalistans, sem hafa kvartað yfir því í fyrri umræðum um þetta mál, eru nú á mælendaskrá. Og ég vil líka þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni sem vissulega hefur bakið til að bera þau lítilvægu ummæli sem heilbrrh. felldi e.t.v. í hans garð en ég man raunar ekki eftir. Ég þakka honum fyrir þann skilning sem kom fram í máli hans á þessum sérstöku aðstæðum sem eru í lífi heilbrrh., en ég vil eigi að síður alls ekki taka undir að hann hafi hér verið að kasta einhverjum sprengjum og ég ætla ekki í efnislega umræðu um þá ræðu.

    En bara til þess að það sé alveg skýrt vil ég að það komi fram að heilbrrh., sem fimmtugur er í dag, hverfur úr Reykjavík kl. 5 í nótt. Ég ætla ekki að þreyta ykkur, ágæti þingheimur, né sjálfan mig með umræðu um hvort það eigi að sækja hann eða ekki. Svavar Gestsson, hv. þm. Alþb., taldi ómögulegt að halda þessari umræðu áfram án þess að náð verði í ráðherrann eða ég skildi ræðu hans svo. Ég vil því fyrir hönd Alþfl. óska eftir því að Svavar staðfesti að það sé hans skilningur að það verði að sækja heilbrrh. Og ef hv. þm. Svavar Gestsson fer fram á að hinn fimmtugi heilbrrh. verði sóttur og verði hér þangað til hann þarf að fljúga burt úr landinu, þá verður hann sóttur.