Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:52:00 (3199)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Hér flutti hv. 5. þm. Vestf. allathyglisverða ræðu áðan og væri hollt fyrir formann þingflokks Alþfl. að gera sér grein fyrir því að hafi það verið rétt sem hann sagði hafa stjórnarliðar af því mestan hag að athuga nú sinn gang. Hv. 5. þm. Vestf. vakti á því athygli að hann efaði að sá lagatexti sem hæstv. heilbrrh. eyddi mestum tíma sínum í að ræða gæfi ríkissjóði neina fjármuni, einfaldlega vegna þess að lagatextinn heimilaði ekki þá skattlagningu sem hæstv. heilbrrh. var að tala um. Það byggir á þeirri staðreynd að ef lögin eiga ekki að vera afturvirk hljóta þau að verða að miða við tekjur þessa árs sem nú er. Þar með kemur skerðingin ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári því það á að miða við heilt ár.
    Ég veitti því athygli að hæstv. fjmrh. hlýddi með athygli á þessa ræðu. Hleypti mikið brúnum og fletti blöðum og las, en andsvar veitti hann ekkert. Hugsanlegt er nú að stjórnarliðar hafi af því nokkurn hag að átta sig á því hvað skrifað er í þessum texta. Ég tók aftur á móti eftir því að hæstv. heilbrrh. lét það ekki aftra sér í málflutningi þegar hann ræddi um Svein í Firði að Sveinn í Firði er ekki staddur í þinghúsinu af skiljanlegum ástæðum. Ég tel að mér sé af sömu ástæðu út af fyrir sig ekkert að vanbúnaði að ræða við hæstv. heilbrrh. þó hann sé fjarverandi og mun að sjálfsögðu gera það fái ég til þess orðið hér á eftir. En allsérstæð væri staðan ef upp kæmi að allur málatilbúnaður hæstv. heilbrrh. hefði byggst á misskilningi.