Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:57:00 (3201)

     Guðmundur Bjarnason (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins út af orðum hv. formanns þingflokks Alþfl. að staðfesta það, sem ég sagði hér í ræðu minni áðan, að mér var kunnugt um að heilbrrh. ætlaði að víkja af vettvangi. Auðvitað verður það að teljast afar óheppilegt í miðri umræðu um mikilvæg mál eins og hér voru á dagskrá og ég gerði honum að sjálfsögðu --- sem þurfti ekki að gera --- grein fyrir að ég semdi ekki fyrir aðra menn í því efni. Þegar ég gekk í ræðustólinn spurði hann að því hvort ég hefði athugasemdir við það þó hann

færi. Ég sagði að ég vildi að hann hlustaði á meginhluta míns máls, en ég gæti að sjálfsögðu ekki samið fyrir aðra um það og gerði það ekki, enda er ég ekki í því hlutverki að semja um framgang þingstarfanna, það gera formenn þingflokkanna við forseta þingsins. En ég tel mér skylt að segja þetta hér þannig að það sé alveg ljóst hvað okkur heilbrrh. fór á milli.
    Ég ítreka að það er afar óheppilegt og það hlýtur að vera einkennilegt að hæstv. heilbrrh. skuli ekki hafa fyrr og meira tekið þátt í þessum umræðum sem hafa snúist að svo miklu leyti um hans málaflokk og hans vandasama verkefni fram undan. En vegna þess að ég veit að það verður vandasamt og ég veit að það á ýmislegt eftir að koma upp á í því að ætla að framfylgja ákvæðum fjárlaga á sviði heilbrigðismála eins og þau eru upp sett og þeim ákvæðum sem eru í þessum svokallaða bandormi eða ráðstöfunum í ríkisfjármálum 1992, þá er mér fyllilega ljóst að það á eftir að ræða við hæstv. heilbrrh. oft í vetur, það er ég alveg viss um. Bæði í fyrirspurnatíma og vafalaust líka í utandagskrárumræðum.
    Ég fyrir mína parta gerði ekki og geri ekki héðan af athugasemd við það þó hann sé ekki viðstaddur þessa umræðu þrátt fyrir að ég hafi verði afar ósáttur við ummæli hans í gær, ég lét koma fram þá og ég gerði það reyndar aftur núna, þau ummæli sem hann hefur látið falla um mín störf og verkefni og reyndar þann einkennilega samanburð sem hann gerði annars vegar á því frv. sem ég lagði fram í vor og þeim breytingum sem hann er nú að gera, því krukki sem hæstv. heilbrrh. er nú að gera í almannatryggingalöggjöfina.
    Þetta vil ég, virðulegur forseti, að komi fram af minni hálfu í þessari umræðu. Ég skil vel að hv. þm. séu afar óánægðir með þetta sem hafa viljað eiga við hæstv. ráðherra orðastað og krefja hann nánari svara en hann hefur þegar látið fara frá sér. Ég vil aðeins taka undir það að lokum með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að auðvitað er það ekki af neinni annarri ástæðu en þeirri að það er merkisatburður í lífi hans í dag, merkisafmæli, og við vitum líka að hann er að fara af landi brott að menn taka auðvitað tillit til slíkra aðstæðna. Ég a.m.k. gerði það þegar ég svaraði honum. Það var auðvitað fyrst og fremst af þessum persónulegu ástæðum hans og ég vil líka að sé alveg skýrt að það er ástæðan af minni hálfu fyrir því að gefa það eftir að hann hlýddi á allt mitt mál og hugsanlega frekari fyrirspurnir. En ég hygg að við hefðum ekki gert það undir öðrum kringumstæðum. Og ég ítreka það, eins og ég sagði áðan og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til, að ég er alveg viss um að það gefast tækifæri til að eiga alvarleg orðaskipti við þennan hæstv. ráðherra síðar í vetur.