Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:03:00 (3203)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson kom með hugmynd sem gæti að vissu leyti greitt úr þessu máli, að sá ráðherra Alþfl. sem gegndi fyrir hæstv. heilbrrh. tæki þátt í að ljúka umræðunni með því að svara þeim spurningum sem fram hafa komið. Ég vona að hæstv. forsrh. fyrirgefi mér þó ég greini frá því að ég gekk til hans og spurði að því hver gegndi fyrir heilbrrh. á meðan hann væri í burtu vegna þess að ég hafði vanist því í þeirri ríkisstjórn sem ég var í að það lægi alltaf fyrir áður en viðkomandi færi úr landi hver gegndi fyrir hann. En hæstv. forsrh. tjáði mér að það væri ekki sú venja í þessari ríkisstjórn og hann gæti þess vegna ekki sagt mér hver gegndi fyrir hæstv. heilbrrh. Ég fór þá til forustumanna Alþfl., sem voru í salnum, sem tjáðu mér --- ég vona að þeir fyrirgefi mér líka þó ég greini frá því --- að þeir héldu að það væri Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh. Kannski er það svo að þeir hafi gengið frá því sín á milli, hæstv. heilbrrh. og hæstv. utanrrh., að utanrrh. gegni fyrir hann. A.m.k. er það ljóst að einhverjir hljóta að hafa gengið frá því. Væntanlega er stjórnskipunin ekki orðin svo laus í reipunum að enginn viti þegar ráðherra fer úr landi hver fer með ráðuneytið. Ég vænti þess að a.m.k. þeir tveir viti það, formaður Alþfl. og hæstv. heilbrrh., hver fer með heilbrrn. á Íslandi eftir þrjár klukkustundir.
    Hæstv. utanrrh. er hins vegar öðrum hnöppum að hneppa eins og menn hafa heyrt þessa dagana. Hann flengríður um landið og ræðir við bændur og hefur aldrei tekið til máls í þessum umræðum um ríkisfjármál eða aðgerðir ríkisstjórnarinnar fram til þessa. Og ég hugsa að hann þyrfti alveg sérstakt námskeið áður en hann ætti að koma inn í umræðuna til að fá frásögn af því hvað hér hefur gerst. Ég efast satt að segja um að það verði mikið til að upplýsa mál að láta hann sitja fyrir svörum. En það má þó reyna. Ef hann er formlega sá sem fer með heilbrrn. er ekki um annað að gera en nota hann. ( GHelg: Ég sting upp á að hæstv. félmrh. taki það að sér.) Já, við getum auðvitað haft þá skoðun og ég er alveg sammála um að það væri skynsamlegra að láta hæstv. félmrh. gegna ráðuneytinu, en við höfum það ekki í valdi okkar, hv. þm. Guðrún Helgadóttir.
    Þetta finnst mér að þurfi nauðsynlega að skýrast áður en þetta getur haldið áfram vegna þess að við þurfum auðvitað að fá að vita hver er sá ráðherra sem svarar fyrir heilbrrn. áfram. Það er upplýst að heilbrrh. er á leið úr landi og a.m.k. gæti hann ekki verið nema til fimm ef hann værir ræstur út. Ég óska þess vegna eftir því að það verði gert alveg skýrt áður en umræðan heldur áfram hvaða einstaklingur fer með heilbrrn. frá og með þessum morgni.
    Ég vil síðan segja við virðulegan forseta að svör hans voru dálítið í þeim dúr sem staðgenglar aðalforseta yfirleitt veita hér. Þegar settar eru fram skoðanir og óskir segja þeir mjög kurteislega að það verði bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
    Nú hefur þessi umræða staðið í rúmar 17 klst. og hún er engan veginn tæmd. Það er þess vegna nauðsynlegt að forsetadæmið og ríkisstjórnin komist að einhverri niðurstöðu um hvernig þetta eigi að halda áfram. Við höfum ekki fengið nein skýr svör um það. Ég vil aftur lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst óeðlilegt að rista þannig í sundur öllum þeim venjum sem hafa tíðkast í þinginu. Það er farið að halda uppi maraþonfundi dag eftir dag og breyta öllum eðlilegum fundartímum þingsins. Aðalatriðið er þó að við þurfum að fá það alveg skýrt hver svarar fyrir heilbrrn. eftir rúmar tvær klukkustundir.