Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:08:00 (3204)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst óviðfelldið hvernig menn tala til hæstv. heilbrrh., tala mjög fjálglega um að taka tillit til hans vegna hans afmælis og þess háttar, en svo hafa hér fjölmargir þingmenn í framhaldinu veist mjög ómaklega að hæstv. heilbrrh. Það gerði að vísu ekki hans fyrirrennari, hann talaði mjög málefnalega. Hins vegar hafa aðrir menn gert það hér. Og það er afskaplega óviðfelldið að gera það með þessum hætti. Það var vitað að sátt var um það mál að hann fengi að fara á þessum tíma. Það er látinn líða einn og hálfur klukkutími, þá byrjar þessi --- ja, ég vil kalla það skrípaleikur sem er ekki reyndar óþekktur. Þá byrjar þessi skrípaleikur sem er

ekki óþekktur.
    Það hefur verið óformleg sátt um að ganga frá þessum málum hér, klára þau. Mér finnst sjálfsagt að menn tali eins og þeir þurfa. Það er sjálfsagt að menn tali eins og þeir þurfa.
    Ég ætla ekki að fara að vitna í tveggja manna tal eins og menn gera --- og segja svo ,,ég vona að menn fyrirgefi það`` --- um það hvaða skilyrði menn hafa sett fyrir því að slíkt geti gengið fram. Ég ætla ekki að vitna í slíka hluti eins og aðrir menn kjósa að gera. Þeir hafa þann hátt á því sem þeir auðvitað vilja. En það verður upplýst í tæka tíð ef um það er beðið, fyrir kl. 5 eða 6.30 eða hvenær sem flugvél ráðherrans fer á brott, hver gegnir fyrir hann ef eftir því verður leitað þá.