Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:32:00 (3213)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er nokkuð erfitt að reyna að leiða málum til lykta þegar hæstv. forsrh. kýs að koma upp með svo óskiljanlegan skæting að þingmenn fórna höndum og segjast ekki hafa hugmynd um hvað hæstv. forsrh. hefur sagt. Ég heyrði hins vegar alveg hvað hann sagði og það var í stíl við annað.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því, og það mætti kannski vera hæstv. forsrh. nokkurt umhugsunarefni, að framganga hæstv. menntmrh. í þessum umræðum hefur verið með þeim hætti að þingmenn kvarta ekkert undan því og sá þáttur sem að honum snýr í umræðunni er nokkuð á enda runninn. Ekki vegna þess að menn séu sammála ráðherranum efnislega, það er víðs fjarri. En hann hefur stundað umræðuna með þeim hætti og tekið þátt í henni á svo eðlilegum grundvelli að þingmenn eru fullkomlega sáttir við það. Þannig hefur hæstv. menntmrh. sýnt að það er fullkomlega gerlegt og eðlilegt að láta mál ganga fram í þinginu þannig að það verði umræður þó hart sé deilt um efnisatriði án þess að menn kvarti yfir þátttökunni og forminu og séu til þess knúnir og fái þá á sig þessar nafngiftir forsrh. Ef hæstv. heilbrrh. hefði á undanförnum sex vikum eða svo tekið þátt í umræðunum með svipuðum hætti og hæstv. menntmrh. værum við ekki í neinum vanda og værum kannski búin fyrir nokkrum dögum. En það hefur hæstv. heilbrrh. ekki gert. Þess vegna er þessi vandi nú.
    Það hefur með rökstuddum hætti verið sýnt fram á það í kvöld að svo kunni að vera að lagatexti frv. sé á þann veg að engar tekjur komi inn á árinu 1992 vegna þess að orðalagið hljóti að eiga við tekjur sem menn vinni sér inn án þess að þær hafi verið skattlagðar áður. Þessu hefur enginn svarað enn og ég spyr hæstv. ráðherra ef þetta á virkilega að halda áfram hér og nú: Er það virkilega ætlun þeirra að fara út í þessa tvísýnu með frv. þegar enn einn gallinn hefur komið í ljós?
    Af því að forseti sagði á forsetastóli að forseti þingsins væri að vinna að niðurstöðum held ég að ég fari rétt með í þeim efnum að frá því um eða upp úr kvöldmat hefur enginn samráðsfundur verið milli forseta og formanna þingflokka. Ég held að það sé rétt. Ég hef ekki heyrt að neinn slíkur samráðsfundur hafi verið haldinn frá því um eða upp úr kvöldmat. Það hefur ekki verið kallað á neinn slíkan samráðsvettvang af hálfu forsetaembættisins þannig að okkur er nokkur vandi á höndum hvað það snertir.
    Kannski eru skapsmunir hæstv. forsrh. með þeim hætti að það þýði lítið að koma einhverjum tilmælum á framfæri um einhver eðlileg vinnubrögð, en það væri auðvitað skynsamlegast að reyna að koma sér niður á að ákveða hvenær þessum fundi ljúki nú fljótlega og síðan semja um að umræðum ljúki á morgun með einhverjum tilteknum hætti og atkvæðagreiðslu þannig að sá ráðherra sem gegnir þá fyrir heilbrrh. geti svarað einhverju og þessu ljúki með skaplegum hætti. Ég vona að menn hafi skynsemi til að átta sig á því.